Vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:15:48 (1624)

2001-11-15 14:15:48# 127. lþ. 30.9 fundur 49. mál: #A vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tillögur um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Áætlun um aðgerðir í þessu skyni miði m.a. að eftirfarandi:``

Það er síðan talið upp í átta tölusettum liðum:

,,1. Að efla vestnorrænt og fjölþjóðlegt samstarf við norðan- og norðvestanvert Atlantshaf með frumkvæði af Íslands hálfu sem landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum tengipunkti slíks samstarfs. Mótuð verði í þessu skyni íslensk nærsvæðastefna.``

Það kann að vera, herra forseti, að mönnum sé þetta hugtak eða þessi nafngift ekki mjög töm. Hún hefur ekki verið algeng í íslensku máli. Þetta er hins vegar vel þekkt hugtak, t.d. á Norðurlöndunum og víðar, þar sem menn skilgreina landfræðilega afmörkuð svæði, þau sem næst liggja. Á vettvangi Norðurlandaráðs er t.d. og hefur lengi verið framfylgt ákveðinni nærsvæðastefnu sem ekki síst tekur þá til Eystrasaltsríkjanna og norðvesturhéraða Rússlands. Og við sem á Vestur-Norðurlöndum búum höfum gjarnan reynt að halda því til haga að Norðurlöndin eigi sér líka nærsvæði í þá átt. Hér er sem sagt um að ræða sambærilega hugsun og menn geta lesið sér til um og kölluð er upp á norræna tungu ,,nærområder`` eða ,,nærområders strategi`` sem mundi þá þýðast sem nærsvæðastefna.

,,2. Að fylgja eftir uppbyggingu vestnorrænnar samvinnu sl. tvo áratugi með markvissum aðgerðum og auknum fjárframlögum, m.a. á sviði menningar- og menntamála, atvinnu- og byggðamála, umhverfis- og náttúruverndarmála og samgöngu- og ferðamála.``

Nú er það auðvitað svo, herra forseti, að þetta eru einmitt kjarnaviðfangsefni vestnorrænnar samvinnu, en tillagan gengur þá sem sagt út á að þeim verði fylgt betur eftir og vestnorræn samvinna efld á þessu sviði. Hún hefur verið að þróast og mótast með að mörgu leyti mjög jákvæðum og ánægjulegum hætti, eins og þarna kemur fram, a.m.k. sl. tvo áratugi, frá því upp úr 1980 þegar undirbúningur stofnunar Vestnorræna ráðsins hófst, og vestnorræna nefndin, sem nú heitir Norðvestur-Atlantshafsnefndin, kom til sögunnar.

,,3. Að efla tengsl við nágrannalönd vestnorrænu landanna í austri og vestri með uppbyggingu skipulagðrar svæðissamvinnu á Norðvestur-Atlantshafssvæðinu í huga.

4. Að stuðla að rannsóknum á og ritun sögu Norðvestur-Atlantshafssvæðisins þar sem m.a. verði lögð áhersla á eftirfarandi:

a. landnám Íslendinga á Grænlandi og sögu búsetu norrænna manna þar,

b. sérstök tengsl Íslands og Færeyja, menningarlegan skyldleika, samstarf á sviði atvinnumála og samstöðu og skyldleika þjóðanna almennt,

c. norræna arfleifð á skosku eyjunum og á Írlandi, Bretlandi og vesturströnd Evrópu,

d. landnám norrænna manna á austurströnd Norður-Ameríku,

e. söguleg tengsl Íslands og Vestur-Noregs,

f. sögu siglinga, landafunda, byggðar og búsetu almennt við strendur norðan- og norðvestanverðs Atlantshafs.

5. Að fylgja eftir kynningu á vestnorrænni sögu og framlagi Íslands á sviði landafunda og landnáms í Vesturheimi í kjölfar 1000 ára afmælis Vínlandsfundar, siglingar Íslendings og annarra atburða í tilefni af landafundaafmælinu.``

Ég hef áður og við önnur tækifæri, herra forseti, hreyft þessum þætti málsins sérstaklega. Ég held að ástæða sé til að minna á að margt var mjög vel gert í tengslum við landafundaafmælið svonefnda en ekki er síður ástæða til að vinna úr því í framhaldinu og láta það ekki niður falla. Og af því að hið sögufræga skip, Íslending, ber enn á góma kemst ég ekki hjá því að skjóta því hér inn í, herra forseti, að enn er þar ólokið því verkefni að ganga frá því máli og tryggja að skipið verði varðveitt, komist hingað heim. Helst vildi maður sjá að á því yrði tekið nú fyrir jólin við afgreiðslu fjárlaga eða fjáraukalaga.

,,6. Að rækta tengsl Íslands við Íslendingabyggðir í Kanada og Bandaríkjunum.``

Sömuleiðis má vissulega viðurkenna að þar hefur margt ágætt áunnist á undanförnum árum. Ber þar ekki síst að nefna stofnun sendiráðs í Kanada og skrifstofu sem jafnframt verður starfrækt í Winnipeg. Þarna er að miklum og merkum arfi að hyggja sem einnig er ástæða til að vinna úr.

,,7. Að efla stöðu Íslands sem tengipunkts á sviði samgöngu- og ferðamála á þessu svæði.``

Sérstaklega vil ég nefna í þessu sambandi, herra forseti, að stjórnvöld þurfa, eftir því sem það er í þeirra valdi, að reyna að stuðla að því að sem öflugastar og greiðastar samgöngur séu hér innan svæðis. Þar er pottur brotinn. Ég nefni sem dæmi að áætlunarflug og reglubundnar flugsamgöngur lögðust af á nýjan leik, því miður, milli Íslands og Suður-Grænlands. Þannig var skyndilega fótunum kippt undan ferðaþjónustuaðilum, bæði íslenskum og grænlenskum, sem höfðu verið að byggja upp þjónustu sína á þessu sviði og treyst á þessar samgöngur. Það hlýtur að teljast afar bagalegt að ekki séu fyrir hendi samgöngur, a.m.k. yfir sumartímann, frá Íslandi og til næsta nágranna okkar í vestri sem Grænland er, og þá ekki síst varðandi þá miklu möguleika sem svæðið á sunnanverðri vesturströnd Grænlands hefur upp á að bjóða.

Síðast en ekki síst, herra forseti, í áttunda lagi er svo vikið að því í tillögunni að móta þurfi stefnu um fjárveitingar til þessara verkefna, t.d. til fjögurra ára í senn, sem væri þá lögð reglubundið fyrir Alþingi til endurskoðunar.

Herra forseti. Norðurlandaráð er að sjálfsögðu ein mikilvægasta stoðin í alþjóðlegu samstarfi okkar Íslendinga. Ég held að flestir séu sammála um að norræna samstarfið hafi reynst okkur afar vel og skilað miklu. Það var einmitt upp úr norrænu samstarfi sem vestnorræna svæðissamstarfið óx. Það var ekki síst í tengslum við mikla umræðu um byggðamál og svæðisbundið samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs í lok áttunda áratugarins og byrjun þess níunda sem skriður komst á það mál að skipuleggja sérstaklega samvinnu Íslands, Grænlands og Færeyja. Það var svo 1985 sem Vestnorræna þingmannaráðið, sem þá hét svo, nú Vestnorræna ráðið, komst á laggirnar. Það var stofnað á Grænlandi. En árin þar á undan starfaði sérstök samstarfsnefnd að undirbúningi þess að ráðið yrði til.

Herra forseti. Auðvitað hefur mjög margt breyst frá því að kalda stríðinu lauk og möguleikar opnuðust til margs konar samstarfs á norðursvæðum sem voru í raun útilokuð vegna hinnar pólitísku markalínu sem skildi lönd og álfur á tímum kalda stríðsins. Það var ekki fyrr en eftir þær breytingar sem svæðisbundið samstarf eins og Eystrasaltssamstarfið, Barentssamstarfið og Norðurskautssamstarfið komst á. Síðan, á rúmum áratug eða svo, hefur þessi samvinna blómstrað og mjög margt jákvætt gerst í þeim efnum.

Staðreyndin er sú, öfugt við það sem margir kynnu að halda, að í vaxandi mæli er horft til mikilvægis svæðisbundinnar samvinnu, einmitt á tímum svonefndrar hnattvæðingar. Þess sér stað mjög víða. Við getum t.d. tekið þá áherslu sem nú er á slíka svæðisbundna samvinnu innan Evrópusambandsins, þá áherslu sem t.d. Bandaríkin, Kanada og fleiri stór lönd leggja á slík svæðishugtök.

Þessir aðilar sem ég hef nefnt hafa allir mótað einhvers konar norðurstefnu eða norðursvæðastefnu. Á vettvangi Evrópusambandsins er, ekki síst að frumkvæði Finna, unnið að því að þroska hugtakið norræna vídd. Kanadíska alríkisstjórnin framfylgir ákveðinni norðurstefnu sem er útgefin stefnumarkandi eða pólitísk stefna um áherslur kanadísku alríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Í Bandaríkjunum er einnig fylgt ákveðinni stefnu, svokallaðri norðursvæðastefnu. Í reynd er tillagan um það að Íslendingar skipuleggi sína vinnu og móti sínar áherslur með sambærilegum hætti.

Herra forseti. Ekki síst vil ég nefna sérstaklega mikilvægi þess að Íslendingar leggi sitt af mörkum og eftir því sem mögulegt er hafi að því frumkvæði að eyþjóðir og strandsvæði við norðan- og norðvestanvert Atlantshaf efli með sér samvinnu. Ég leyfi mér að halda því fram að við höfum gefið of lítinn gaum að gildi þess og ekki lagt nóg upp úr því að byggja upp slík tengsl þótt vissulega séu þar jákvæðir hlutir í farvatninu. Ég nefni sem dæmi ráðstefnur sem haldnar hafa verið og þangað sérstaklega boðið fulltrúum eyþjóða og strandsvæða eða héraða við norðvestanvert eða norðanvert Atlantshafið. Fyrsta ráðstefnan af því tagi var fyrir nokkrum árum haldin á Íslandi og í lok júnímánaðar í sumar var haldin í Færeyjum mjög myndarleg ráðstefna og tekin ákvörðun um að sú þriðja í þessari röð yrði haldin að tveimur árum liðnum á Hjaltlandseyjum.

Þarna hittast ekki endilega fulltrúar ríkja eða ríkisstjórna heldur líka forsvarsmenn svæða, héraða eða byggðarlaga. Ég nefni sem dæmi að það var ákaflega áhugavert og gaman að sjá það á ráðstefnunni í Færeyjum hversu mikinn metnað Hjaltlandseyingar lögðu í að kynna sig sem sjálfstætt svæði, og hagsmuni sína. Ég held að Íslendingar, svo dæmi sé tekið, gætu margt grætt á því að auka samskipti sín og efla tengsl við svæði eins og t.d. skosku eyjarnar.

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það mikilvægt sem gerist í hinum miklu aflstöðvum alþjóðasamvinnu eins og í Brussel og Washington eða New York borg. En menn mega heldur ekki vanrækja að rækta það sem nær þeim er. Enginn minnsti vafi leikur á því í mínum huga að mjög margvíslegir gagnkvæmir hagsmunir eru fólgnir í samskiptum og auknu samstarfi okkar og grannsvæða okkar, nærsvæða okkar, ef það er orðað svo. Ég leyfi mér að halda því fram að full ástæða sé til að fara skipulega yfir þá hluti og skoða hvað betur megi gera í þeim efnum. Ég er ekki að halda því fram að þessi tillaga sé nákvæmlega formúlan fyrir því hvernig eigi að gera það. En hún er a.m.k. innlegg í þá umræðu og uppástunga um hvernig mætti reyna að nálgast þessi mál. Ég vona því, herra forseti, að hún fái hér jákvæða umfjöllun og legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til hv. utanrmn.