Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:36:20 (1626)

2001-11-15 14:36:20# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjanda hefur orðið tíðrætt um þetta mál í sölum Alþingis. En þetta mál er í þeim farvegi sem Alþingi sjálft hefur markað, þ.e. ákveðið með lagabreytingu á síðasta vori en einnig með heimild í fjárlögum yfirstandandi árs fyrir ríkið til að ganga til samninga um kaup á hlut meðeigenda ríkisins í Orkubúi Vestfjarða þar sem ríkið hefur sem kunnugt er átt 40%.

Staða málsins í dag er sú að Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Kaldrananeshreppur, Kirkjubólshreppur og Tálknafjarðarhreppur hafa lokið gerð samninga við ríkið um sölu á hlut sínum í Orkubúi Vestfjarða hf. á grundvelli tilboðs ríkisins um það efni frá því fyrr á á árinu.

Á Hólmavík, Ísafirði og Súðavík hafa sveitarstjórnir gefið framkvæmdarstjórum sveitarfélaganna umboð til að undirrita kaupsamninga. Verið er að vinna að samningi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og Reykhólahrepps en hann mun vera kominn á lokastig. Málefni Vesturbyggðar eru í sérstakri athugun hjá félmrn. og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Með öðrum orðum: Þetta mál er mjög langt komið í þeim farvegi sem því var markaður. Ég hygg að þegar upp verður staðið muni allir ganga bærilega sáttir frá þessu samningaborði. Menn verða hins vegar að gera sér grein fyrir því hvernig þetta mál er til komið. Það er ekki til komið að frumkvæði ríkisins. Það var á árinu 1999 sem viðræður hófust milli fulltrúa stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum um hvernig leysa mætti fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Í þeim viðræðum kom þessi hugmynd upp af hálfu sveitarfélaganna, hvort þau gætu gert sér mat úr eignum sínum í orkubúinu til þess að létta á vanda sínum. Það hefur orðið niðurstaðan og það er auðvitað ekkert launungarmál að ríkissjóður hefur gengið þar fram á ystu nöf við verðmat á orkubúinu til þess að gera sveitarfélögunum betur kleift að leysa sinn vanda, þar á meðal vandann í félagslega íbúðakerfinu og þau vanskil sem þar hafa því miður hlaðist upp á undanförnum árum.

Ég tel að gagnrýna megi þessa samningsgerð en ekki á þeim forsendum sem hv. þm. gerir, heldur á þeim forsendum að hér sé allt of rausnarlega í boðið, að hér sé allt of rausnarlega að verki staðið af hálfu ríkisins miðað við þær eignir sem þarna eru raunverulega fyrir hendi. Maður verður óneitanlega var við þá gagnrýni frá mönnum sem bera hag ríkissjóðs fyrir brjósti. En þetta er eigi að síður sú niðurstaða sem komist var að, að heildarmat á verðmæti fyrirtækisins skyldi ákveðið 4,6 milljarðar kr., þar af á ríkið sjálft 40% og á þeim grundvelli hafa menn leitast við að ljúka málinu.

Að því er varðar spurningar hv. þm. að öðru leyti þá er það svo að ýmis sveitarfélög eiga nú í erfiðleikum fjárhagslega eins og kunnugt er. En samkvæmt sveitarstjórnarlögum mega sveitarfélög ekki veðsetja öðrum tekjur sínar né heldur fasteignir sem nauðsynlegar eru til þess að sveitarfélagið geti rækt lögskyld verkefni sín. Það er þess vegna fráleitt að gera því skóna að ríkisvaldið hafi einhver áform um að ganga að eignum sem sveitarfélögunum eru nauðsynleg til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Við höfum gert Vestfirðingum kleift, með þeim aðgerðum sem hér er um að tefla, að leysa vanda sinn að mestu leyti sjálfir með sínum eigin eignum. Ég held að stefna eigi að því að sveitarfélögin leysi vanda sinn fyrst og fremst sjálf, þau sem eiga í erfiðleikum. Það eru ákvæði í sveitarstjórnarlögum um hvernig bregðast skuli við ef sveitarfélög lenda í fjárþröng og við höfum í gegnum tíðina verið með ýmsar ráðstafanir til að bæta rekstrarumhverfi sveitarfélaganna.

Að því er varðar gjaldskrármál, sem hv. þm. vék að, þá vil ég bara geta þess að í samkomulagi, sem gert var á eigendafundi 7. febr. 2001, segir að ef ákvörðun verði tekin um að aðlaga gjaldskrá Orkubús Vestfjarða hf. að gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins skuli það gert í áföngum.

Ég bendi hins vegar á að hinn 1. júlí 2002 kemur væntanlega til framkvæmda nýtt og breytt skipulag raforkumála í landinu. Hvað gerist innan þess umhverfis er auðvitað erfitt að spá fyrir um en það verður mál sem kemur til umræðu á þinginu, væntanlega seinna á þessum vetri.