Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:43:43 (1628)

2001-11-15 14:43:43# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Málflutningur hv. þm. Jóns Bjarnasonar og raunar líka hv. þm. Karls V. Matthíassonar er náttúrlega einstaklega ómerkilegur. Þeir eru að reyna að snúa út úr því sem verið er að gera. Þeir eru ekki að hugsa um hagsmuni Vestfirðinga heldur eru þeir að hugsa um að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur. En þetta verða bara vindhögg hjá þeim.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur verið með fjármál fjögurra sveitarfélaga á Vestfjörðum í athugun og þegar uppgjöri er lokið verða öll sveitarfélög á Vestfjörðum komin á ágætan rekstrargrundvöll vegna sölunnar á Orkubúi Vestfjarða. Enn hefur ekkert fé verið tekið af kaupverði Orkubús Vestfjarða til að lækka skuldir í félagslega íbúðakerfinu. Ákveðin upphæð hefur verið sett inn á biðreikning á nafni viðkomandi sveitarfélags í viðurkenndri lánastofnun og sveitarfélagið nýtur vaxtanna af þeirri upphæð. Þetta fé stendur á biðreikningi þar til endurskipulagning félagslega húsnæðiskerfisins á landsvísu liggur fyrir og þá er hægt að nota hluta af því til að gera félagslega húsnæðiskerfið sjálfbært í viðkomandi sveitarfélögum. Með sjálfbæru félagslegu íbúðakerfi þá á ég við að eðlileg leiga á viðkomandi stað geti staðið undir lánum af viðkomandi íbúðum og rekstri þeirra.