Yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 14:47:08 (1630)

2001-11-15 14:47:08# 127. lþ. 30.95 fundur 146#B yfirtaka ríkisins á Orkubúi Vestfjarða# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði nú talað aðeins varlegar í sporum hæstv. félmrh. hér áðan miðað við þá hraklegu frammistöðu í húsnæðismálum sem hæstv. félmrh. ber höfuðábyrgð á. Hann kemur hér ár eftir ár í ræðustól með sömu tugguna, að það eigi að skoða og athuga vanda sveitarfélaganna vegna húsnæðismála, en síðan er ekkert gert. Ár eftir ár er ekkert gert. Og loforð sem gefin voru þegar lögunum um húsnæðismál var breytt, t.d. um framlag ríkissjóðs í varasjóð viðbótarlána, eru svikin. Það er ekki einu sinni staðið við það litla sem búið var að lofa, hvað þá að nokkur skapaður hlutur sé gerður.

Það mætti segja margt um frammistöðu ríkisstjórnarinnar og samskipti við sveitarfélögin en ég hygg að enginn vafi sé á að framkoma ríkisstjórnarinnar við sveitarfélög á Vestfjörðum í þessu orkubúsmáli kóróni allt saman. Auðvitað voru sveitarfélögunum þarna settir afarkostir, þeim var stillt upp við vegg. Síðan er það auðvitað ekki Alþingis, þó að heimild fyrir sölu eða kaupum á orkubúinu hafi komið inn í lög, að forsvara framkomu og framkvæmd hæstv. ríkisstjórnar. Á því ber hæstv. ríkisstjórn ábyrgð ein og sér. Og það hefur t.d. ekki verið borið undir Alþingi hvernig sveitarfélögunum var stillt upp við vegg í þessum efnum með þessu kauptilboði, ef kauptilboð skyldi kalla, á sl. sumri.

Þessi framkoma við það sjálfstæða stjórnsýslustig í landinu sem sveitarfélögin eru, að neyta svona aflsmunar, er auðvitað ósæmandi. Tökum sem dæmi þau sveitarfélög sem er gert skylt að ráðstafa söluandvirði þessarar eignar sinnar á annan hátt en þann sem væri þeim hagstæðastur, t.d. að gera upp lausaskuldir. Þetta er niðurstaðan í málinu eins og ríkisstjórnin fer að, herra forseti, og það er fullkomlega ósæmilegt. Og það er von að hæstv. ráðherrar væli síðan undan því að þetta mál sé rætt hér á Alþingi.