Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:28:06 (1644)

2001-11-15 15:28:06# 127. lþ. 30.5 fundur 28. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér sýnist mér ekki vandað til verka. Sett er fram krafa um 1 milljarð, þ.e. 1.000 millj., í algerlega óskilgreint verkefni. Þetta er náttúrlega ekkert nema sýndarmennska. Hv. flm. dettur ekki í hug að það verði tekið undir þetta í fjárln. eða á Alþingi. En hann lætur sig hafa það að flytja þetta mál enn og aftur.

Hann spurði hvað gert væri til að leysa vanda sveitarfélaga út af félagslegu íbúðunum. Það er rétt að ég fari aðeins yfir það, enda hafa í dag verið settar fram fáránlegar fullyrðingar um að ekkert sé að gert.

Í fyrsta lagi var við lagabreytingu, með lögum nr. 44/1998, ákveðið að innlausnarskylda sveitarfélaga á félagslegum íbúðum skyldi afnumin, þ.e. á nýjum íbúðum sem byggðar væru með félagslegri aðstoð. Þetta var kerfisbreyting sem létti þessum bagga af sveitarfélögunum. Að vísu er ekki hægt að afnema trygginguna hjá fólkinu sem keypti þessar íbúðir. Sú trygging var í þeirra höndum og það var ekki hægt að eyðileggja hana, réttinn til þess að skila íbúðunum til sveitarfélagsins. Það var ekki hægt að klippa á og hverfa algerlega frá innlausnarskyldu á þegar byggðum íbúðum.

Síðan hefur verið tekin ákvörðun um að í staðinn fyrir að sveitarfélögin fengju lán til leiguíbúða, ef sveitarfélögin vildu breyta þessum íbúðum í leiguíbúðir, þá þurfi þau að taka nýtt lán, borga upp fyrra lánið og taka nýtt. Það hefur verið tekin ákvörðun um að gamla lánið lifi út sinn lánstíma, þ.e. að sveitarfélögin hafi þessar íbúðir á 1% vöxtum, lánin þeirra eru á 1% vöxtum, eða 2,4% vöxtum. Þessi lán fá að standa út áður umsaminn lánstíma. Síðan á sveitarfélagið kost á því að bæta við lánið þannig að heildarlánstími með nýju láni verði 50 ár frá því að sveitarfélagið tekur við íbúðinni.

[15:30]

Nefnd skilaði áfangaskýrslu í sumar um vanda sveitarfélaganna, og það standa yfir viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um frekara framhald málsins. En hugmyndir þessarar nefndar voru í stuttu máli að stofna eignarhaldsfélög í þeim sveitarfélögum sem þess óskuðu, nokkuð í stíl við Félagsbústaði hf. í Reykjavík. Þetta eignarhaldsfélag ætti og ræki þessar félagslegu leiguíbúðir. Sveitarfélögin legðu íbúðirnar inn í þetta félag sem þau reyndar eiga eða kæmu til með að eiga. Síðan þyrfti að færa verð eitthvað niður, a.m.k. á sumum stöðum, til að eðlileg leiga í viðkomandi sveitarfélagi stæði undir lánum og rekstri íbúðanna. Sem betur fer sjá menn, ef þeir fletta árbók sveitarfélaga sem gerir félagslega kerfið upp í öllum sveitarfélögum með mjög glöggum hætti, að það eru tiltölulega fá sveitarfélög sem bera verulegar byrðar út af þessu félagslega kerfi en þau eru nokkur og þar eru lausir endar. Spurningin er hvort sveitarfélögin vilji leggja fram peninga til þess að gera kerfið sjálfbært. Ég tel að það væri mjög heppilegt að kerfið væri sjálfbært. Það getur líka verið eðlilegt að sveitarfélagið beri einhverjar byrðar af þessu félagslega kerfi ef mönnum sýnist svo, eigi sveitarfélagið ekki margar íbúðir og þyki óþarflega umsvifamikið að fara að stofna eignarhaldsfélag. Það getur verið að það telji eðlilegra að bera einhvern halla af þessu, upp á einhverjar milljónir árlega.

Þá er óleystur vandi þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa íbúa í þessar íbúðir, þar sem eru auðar íbúðir. Það er til varasjóður viðbótarlána sem hefur ákveðnu félagslegu hlutverki að gegna samkvæmt lögum um húsnæðismál. Ég tel að endurskipuleggja þurfi þennan varasjóð og hef sett í gang vinnu við að athuga hvernig það gæti komið best út þannig að varasjóðurinn gæti líka komið til móts við þau sveitarfélög sem ekki hafa leigutekjur af íbúðum sínum, þ.e. styrkja þau með einhverjum hætti til þess að standa undir vöxtunum. Þau sveitarfélög eru náttúrlega fyrst og fremst í vanda sem eru með auðar íbúðir.

Það er rétt að halda því til haga í allri þessari umræðu að engin félagsleg íbúð hefur verið byggð eða keypt nema samkvæmt ósk viðkomandi sveitarfélags. Ríkið knúði ekki sveitarfélögin til að byggja þessar íbúðir. Það er rangt sem kom fram hjá einum ræðumanni í umræðum fyrr í dag að fyrirrennari minn í embætti, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hafi knúið sveitarfélögin til að byggja eða kaupa leiguíbúðir. Ég held að ekki sé sanngjarnt að segja það. Hv. þm. opnaði þann möguleika þegar hún var ráðherra að aukin fyrirgreiðsla fengist fyrir félagslegar íbúðir og útvegaði heimildir til þess að þær væru byggðar en þær voru allar byggðar samkvæmt ósk viðkomandi sveitarfélags eða forráðamanna viðkomandi sveitarfélags. Það liggur alveg ljóst fyrir og það er ekki hægt að fría sveitarfélögin allri ábyrgð á því hvernig komið er. Það eru auðvitað óviðráðanlegar ástæður eins og t.d. fólksfækkun, flutningar á fólki innan lands, þar sem húsnæðismarkaðurinn hrynur vegna þess að það er ekki eftirspurn og þvíumlík ófyrirséð tilvik. En það er náttúrlega mjög glannalegt þegar kannski yfir 20% íbúðarhúsnæðis í viðkomandi sveitarfélagi eru orðin félagsleg.