Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001, kl. 15:46:33 (1646)

2001-11-15 15:46:33# 127. lþ. 30.5 fundur 28. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nokkur orð í viðbót við þessa umræðu um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2001 sem þeir hv. þm. Jón Bjarnason, Árni Seinar Jóhannsson og Guðjón A. Kristjánsson flytja. Það er skaði að því að hæstv. ráðherrar eru horfnir á braut. Helst hefðum við þurft að hafa bæði hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. Að vísu var gagnlegt að hæstv. félmrh. tók til máls og eftir að hann hafði lokið sér af við að ónotast út í þetta frv. kom ýmislegt áhugavert fram í máli hans. Það er a.m.k. ljóst að hæstv. félmrh. veit vel af því að það er við mikinn vanda að glíma hjá sveitarfélögunum vítt og breitt um landið vegna skuldbindinga þeirra á sviði húsnæðismála og sérstaklega arfleifðar þeirra frá liðinni tíð. Auðvitað hefði verið skynsamlegra af hæstv. félmrh. að koma upp og taka vel í þetta frv., fagna því og fagna liðsmönnum og stuðningsaðilum við að eitthvað verði gert í þessum málum. Vandinn er sá að ríkisstjórnin hefur velt þessu á undan sér og ekki gert nokkurn skapaðan hlut og árin líða hvert á fætur öðru. Þessi vandi er ekki nýtilkominn. Hann hefur legið ljós fyrir um árabil hjá þeim sveitarfélögum sem hafa lent í þeim aðstæðum að þurfa að leysa mikið til sín íbúðir þar sem fólki hefur fækkað og íbúðir standa jafnvel auðar.

Herra forseti. Hér er á ferðinni heimildarfrv. Það er alveg ljóst, samanber orðanna hljóðan í 1. gr. frv., að verja á allt að 1 milljarði kr. Það má líta á það sem byrjunarupphæð. Ekki er víst að það dugi. Það getur vel verið að að lokum þyrfti ríkið að reiða fram meiri fjármuni. En þarna er, eins og alsiða er, stofnað til heimildar til handa ríkinu að fara í að leysa þennan vanda og ef á þyrfti að halda mætti að sjálfsögðu bæta við þessa heimild.

Ég vil segja líka og taka þar undir með hv. síðasta ræðumanni, Guðjóni A. Kristjánssyni, að það er dálítið sérkennilegt að heyra svo stjórnarliða, t.d. hv. þingmenn Framsfl. eins og hv. þm. Magnús Stefánsson sem talaði áðan, koma og spyrja sérstaklega að því hvar eigi að taka peningana í þetta. Hér er ósköp einfaldlega verið að flytja frv. sem heimilar útgjöld úr ríkissjóði, herra forseti, og þá renna tekjustofnar ríkisins að einhverju leyti í þetta verkefni. Það hefur ósköp lítið upp á sig að eyrnamerkja einstökum útgjöldum ríkisins tilteknar tekjur. Það sem að sjálfsögðu er lagt til af hálfu hv. flutningsmanna er að ríkið komi þarna til skjalanna og aðstoði sveitarfélögin við að leysa sinn vanda og noti til þess tekjur af almennum tekjustofnum.

Herra forseti. Það er hvort sem er svo ef til kastanna kemur að ríkið stendur á bak við sveitarfélögin vegna þeirra verkefna. Það er algerlega ljóst að sveitarfélög geta ekki orðið gjaldþrota. Þá kemur ríkisvaldið til sögunnar og hleypur undir bagga.

Frammistaða hæstv. ríkisstjórnar í samskiptum við sveitarfélögin hefur að mínu mati verið mjög ámælisverð. Það er algerlega ljóst að sveitarfélögin hafa borið skarðan hlut frá borði í þessum samskiptum í hverju tilvikinu á fætur öðru. Þau hafa fengið á sig auknar byrðar, m.a. með flutningi verkefna, án þess að fá fullnægjandi tekjustofna á móti. Það hefur síðan aftur leitt til þess að fjárhagsstaða margra þeirra hefur versnað, þau hafa safnað skuldum og/eða þau hafa neyðst til þess að selja eignir sínar. Það er mjög algengt, herra forseti, því miður, að sveitarfélög hafi á undanförnum árum verið að losa eignir, láta frá sér eignarhluti, t.d. í atvinnufyrirtækjum í sveitarfélögum, eða selja verðmætar eignir eins og veitur einfaldlega vegna þess að þau hafa orðið að losa þá fjármuni. En það er skammgóður vermir eins og við vitum ef hinar almennu aðstæður þeirra lagast ekki. Hvað á svo að gera þegar engar eignir eru lengur til að selja? Inn í þetta mál á ríkið að koma. Það er ástæða til að nefna það hér, herra forseti, að í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir og er verið að fjalla um í fjárln. er frekar farið í öfuga átt í þessum efnum því það gerir m.a. ráð fyrir að sérstakt 700 millj. kr. framlag sem verið hefur á fjárlögum undanfarin ár og sveitarfélögin hafa fengið til sín falli niður. Þetta framlag hefur eins og kunnugt er verið svonefnt fólksfækkunarframlag, þ.e. sérstakt framlag til þeirra sveitarfélaga þar sem íbúafækkun hefur orðið til að mæta þeim breyttu aðstæðum sem þá skapast því að að sjálfsögðu dregur ekki endilega að sama skapi úr útgjöldum hjá sveitarfélögum sem sitja uppi með óhagkvæmari rekstur og ýmsan fastan kostnað og færri íbúa til að standa undir honum. Þessu hefur verið mætt og til þessa hefur verið tekið tillit, m.a. með hinum svonefndu fólksfækkunarframlögum og svo þeim hluta þessara 700 millj. sem ráðstafað hefur verið sem viðbótartekjujöfnunarframlögum. Nú gengur fjárlagafrv. út frá því að þessi framlög falli niður. Það væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra og talsmenn stjórnarliðsins: Hvað ætla menn að gera gagnvart þeim sveitarfélögum sem því miður er alveg ljóst að eru að glíma við fólksfækkun og tekjufall einmitt þessa mánuðina? Á þá ekkert að gera næsta árið sambærilegt við það sem gert hefur verið núna undanfarin þrjú ár?

Herra forseti. Staðreyndin er sú að ríkið létti af sér gríðarlegum skuldbindingum með breytingum á lögum um húsnæðimál og sérstaklega með ákvörðuninni um að loka félagslega húsnæðiskerfinu. Ef það væri borið saman við það að Byggingarsjóður verkamanna hefði verið starfræktur áfram með áframhaldandi vaxtaniðurgreiðslum þá eru það milljarðar á hverju ári sem ríkið er núna að spara sér á grundvelli þessara breytinga. Þetta er auðvelt að reikna út. Ríkið hagnast um marga milljarða á hverju ári umfram það sem það hefði gert ef kerfið hefði verið starfrækt áfram. Í starfrækslu þess var fólginn stuðningur við lágtekjufólk, við húsnæðisöflun lágtekjufólks í landinu. Þessum stuðningi hefur ríkið nú hætt með því að loka kerfinu og í reynd velt vandanum yfir á sveitarfélögin. Þess vegna er það þannig að ríkið mundi eftir sem áður koma vel út úr því þó að það tæki myndarlega þátt í því að gera upp vandann sem snýr að fortíðinni. Og hann er ekki einkamál sveitarfélaganna. Það er ekki sanngjarnt, herra forseti, að stilla dæminu þannig upp.

Ég vil líka taka undir það, sem hér var aðeins drepið á af m.a. síðasta hv. ræðumanni, að það er ósanngjarnt að stilla dæminu þannig upp, eins og stundum er gert í þessari umræðu, að vandinn sé sérstaklega og fyrst og fremst til kominn vegna þess að sveitarfélög hafi á liðinni tíð farið fram með einhverjum sérstökum glannaskap í því að byggja félagslegt húsnæði eða húsnæði á félagslegum grunni. Það var ekki svo heldur stafar þetta af öðrum ástæðum. Í langflestum tilvikum var að sjálfsögðu ekki byggt húsnæði nema þar sem þörf var fyrir það, þar sem var skortur á húsnæði. En staðan er búin að vera sú í 20 ár, nálgast 30 ár, að einstaklingar hafa ekki byggt húsnæði á landsbyggðinni með undantekningum sem helst eru þá Akureyri og nokkrir staðir á suðvesturhorni landsins. Engu að síður vantaði mjög víða húsnæði. Skortur var á húsnæði og það stóð mönnum fyrir þrifum og það hamlaði fólksfjölgun þar sem t.d. atvinnuástand var gott að ekki var að bætast við húsnæði. Þessu mættu sveitarfélögin með því eina úrræði sem þau höfðu sem var að byggja húsnæði í félagslega kerfinu. Það leysti úr brýnni þörf á fjölmörgum stöðum á áttunda, níunda og fram á tíunda áratuginn. Þó að aðstæður hafi síðan breyst, fólki sums staðar tekið að fækka og erfiðleikar skapast af þeim sökum sem og auðvitað vegna þess að fasteignamarkaðurinn á landsbyggðinni er meira og minna í rúst --- þar selst ekki húsnæði á neinu raunhæfu verði --- þá eru það aðstæður sem menn eiga að skoða af sanngirni en ekki skella skuldinni á einhverja óráðsíu sveitarstjórnarmanna á liðinni tíð sem í raun er alls ekki rétt. Ég held að menn ættu þá að nefna dæmi þar um.

Herra forseti. Þetta er ein af þessum þjóðsögum, ein af þessum draugasögum í björtu sem alltaf er verið að segja og menn því miður viðhalda að mínu mati að langmestu leyti án þess að efnislegar innstæður séu fyrir því, að langmestu leyti. Auðvitað getur maður ekki svarið fyrir það að í einstökum tilvikum hafi menn freistast til þess að reyna að gera meira en minna úr þessari þörf og að sjálfsögðu skiptu þessar framkvæmdir máli eins og aðrar slíkar í sveitarfélögunum á hverjum tíma. Þeim fylgdu að sjálfsögðu umsvif og störf. Það er alveg skiljanlegt að menn höfðu þar af leiðandi einnig áhuga á þessum framkvæmdum af þeim sökum. En að menn hafi byggt þetta húsnæði án þess að nein þörf væri fyrir það í stórum stíl er beinlínis rangt, enda var það þannig, herra forseti, að engar slíkar umsóknir sveitarfélaga um lánafyrirgreiðslu í þessu skyni voru afgreiddar nema þeim fylgdu gögn sem sýndu fram á að þörfin fyrir húsnæði hefði verið metin og hún væri til staðar í formi umsókna eða biðlista eftir þessu húsnæði. Væri slíku ekki til að dreifa var umsóknunum synjað.

Herra forseti. Ég held þess vegna að þeir menn sem tala hæst um þessa hluti og eru að reyna að gera sveitarfélögin eða forsvarsmenn sveitarfélaga á liðnum áratugum að sökudólgum í þessu efni þekki ósköp einfaldlega ekki til hlutanna eins og þeir voru og hvernig að þessu var staðið og ættu að kynna sér málin áður en þeir taka stórt upp í sig.

Herra forseti. Ég held að öll rök séu til þess og efni til þess að taka á málum eins og hér er verið að leggja til. Það er algerlega óþolandi að ríkið velti þessum vanda svona á undan sér og sveitarfélögunum sé haldið í úlfakreppu af þessum sökum. Þetta er í mörgum tilvikum uppistaðan í skuldum og vanda sveitarfélaganna. Hann er bundinn í þessum málaflokki og það stendur þeim fyrir þrifum að öllu öðru leyti gagnvart því að veita íbúum sínum þjónustu eða ráðast í aðrar framkvæmdir, að taka á og gera upp þessi mál. Eins og ég þykist nú hafa fært rök fyrir hefur ríkið hagnast stórkostlega í þessum samskiptum. Sveitarfélögin hafa dregið stutta stráið. Ég leyfi mér að halda því fram að sveitarfélögin og forsvarsmenn þeirra vöruðu sig ekki á því og vanmátu stórkostlega það sem gerðist í samskiptum þessara aðila þegar breytingarnar á lögum um húsnæðismál voru hér til meðferðar fyrir nokkrum árum. Þetta hafa menn síðan verið að skoða og reikna út nú eftir að allt er um garð gengið. Ég veit t.d. að á Norðurlandi hefur verið gerð á þessu sérstök úttekt og kom fram á fundi Fjórðungssambands Norðlendinga eða Eyþings sem svo heitir nú. Þar var þetta skoðað t.d. út frá Akureyrarbæ og þar var sýnt fram á að ríkið er að hagnast á þessum breytingum um milljarða frá því sem ella væri. Það situr því síst á ríkisvaldinu að láta sinn hlut eftir liggja í því að taka á þessum vanda í samstarfi við sveitarfélögin og það á að gera og það á að koma sér til verka í þessum efnum. Það er ekki boðlegt, það er ekki frambærilegt á Alþingi, herra forseti, að ár eftir ár við afgreiðslu fjárlaga sé vísað í að málið sé einhvers staðar í nefnd eða það eigi að fara að skoða þetta. Það var því miður það sem hæstv. félmrh. sagði okkur hérna í raun og veru eina ferðina enn.

Ég hef að vísu ekki grun um, en trúi því auðvitað ekki, að vandinn liggi aðallega í viljaleysi hæstv. félmrh. Ég held að vandinn liggi hinum megin við forsetastólinn, herra forseti, hérna á endanum þar sem situr, þá sjaldan hann er viðstaddur, hæstv. fjmrh. Ég er ansi hræddur um að þar sé bremsan á, að stóra handbremsan sé þar, að það gæti mikillar tregðu í fjmrn. til þess að leggja nokkurn skapaðan hlut af mörkum í þessu sambandi. Það er ósanngjarnt og við svo búið má ekki standa. Þess vegna verður Alþingi, herra forseti, sjálft ef ekki vill betur til, ef ríkisstjórnin kemur sér ekki til verka í þessum efnum, að taka málin í sínar hendur og það getur það m.a. gert með því að afgreiða lagaheimildir af því tagi sem þetta frv. gengur út á til þess að til staðar séu heimildir og fjármunir til að ganga í að gera þennan vanda upp.