2001-11-19 15:09:02# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 349 er að finna skýrslu um niðurstöður 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem lauk 10. nóvember sl. í Marrakesh í Marokkó. Með skýrslunni vil ég gera þingheimi grein fyrir niðurstöðunni og þýðingu hennar fyrir Ísland.

Ég tel mjög mikilvægt að við getum átt ítarlegar umræður um þá niðurstöðu og hef því lagt fram þessa skýrslu. Ég tel það mikilvægt því að borið hefur á mjög miklum rangfærslum í umræðum um þetta mál hingað til þar sem stjórnarandstaðan hefur náð saman. Vinstri grænir og Samfylkingin hafa náð saman í þessu máli og unnið að mínu mati gegn hagsmunum Íslands í málinu og það er ágætt að fara yfir nokkrar rangfærslur sem ég tel að menn hafi farið með. Skrifaðir hafa verið lærðir leiðarar í fjölmiðlum, sem forustumaður Samfylkingarinnar skrifaði á sínum tíma, og þeir heita t.d. Klaufarnir í Kyoto og Pípað á Íslendinga. Þar er verið að tala um að Íslendingar hafi vaðið í villu og svíma, hafi verið með farsakenndan málflutning og að viðhorf okkar hafi ekki hlotið neinar undirtektir og litið verði á okkur sem umhverfissóða og að við kynnum að uppskera refsiaðgerðir bæði alþjóðlegra samtaka og fleiri. (Gripið fram í: Er þetta úr leiðara?) Þetta er úr leiðara. Það er ágætt að rifja upp hérna ýmislegt úr fortíðinni.

Vinstri grænir hafa líka komið með ýmislegt sem ég tel að eigi ekki við mikil rök að styðjast. Forustumenn þeirra hafa talað um að framganga ríkisstjórnarinnar hafi borið vott um fádæma skammsýni og hafi gengið gegn hagsmunum Íslendinga í bráð og lengd og nú síðast kom fréttatilkynning frá Vinstri grænum þar sem fram kom að Íslendingar hafi lengi verið ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hæstv. ráðherra, ef hún er með tilvitnun í ritað mál að óska leyfis forseta og gera það með formlegum hætti.)

Virðulegur forseti. Ég vil núna lesa upp úr fréttatilkynningu frá Vinstri grænum, með leyfi forseta, sem kom fram nýlega þegar við héldum fundinn í Marokkó, en í lok þeirrar fréttatilkynningar kemur fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með því gæti ríkisstjórnin bætt ráð sitt og átt þátt í að koma bókuninni í höfn eftir að hafa verið lengi dragbítur á framgang hennar.``

Það er ágætt að rifja aðeins upp forsöguna áður en við vindum okkur í skýrsluna sem ég ætla að gera núna.

Sjöunda aðildarríkjaþingið markaði tímamót. Á þinginu voru samþykktar tæknilegar útfærslur á Kyoto-bókuninni og var þar byggt á því pólitíska samkomulagi sem náðist í Bonn í júlí sl. og nefnt hefur verið Bonn-samkomulagið.

Eins og kunnugt er byggir Kyoto-bókunin á rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykktur var stuttu fyrir Ríó-ráðstefnuna 1992 og Ísland er aðili að. Með loftslagssamningnum skuldbinda aðildarríkin sig til þess að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis með ræktun. Auk þess eru í samningnum skuldbindingar um upplýsingagjöf um losun, stefnumörkun og aðgerðir og samstarf á sviði tækniyfirfærslu og þekkingaruppbyggingu í þróunarríkjunum.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var 1995 var stefnt að því að losun að frádreginni nýrri stóriðju yrði ekki meiri árið 2000 en hún var 1990. Í þeim tilgangi var gripið til almennra aðgerða til að draga úr losun og sérstaks átaks til að auka bindingu kolefnis með landgræðslu og skógrækt en til þess var veitt 450 millj. á fjárlögum.

Ljóst er að heildarmarkmið ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2000 náðist. Þennan árangur má m.a. rekja til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu í álverinu í Straumsvík en þar hefur tekist að draga svo úr myndun flúorkolefna í framleiðslunni að verksmiðjan eins og hún er rekin í dag losar minna af gróðurhúsalofttegundum en hún gerði árið 1990 þrátt fyrir tvöföldun á framleiðslunni.

Komið hefur verið á formlegum farvegi fyrir vísindaráðgjöf til aðildarríkja samningsins með milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, sem er alþjóðleg stofnun sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga aðild að. IPCC stundar ekki rannsóknir en dregur saman það sem best er vitað hverju sinni á vísindasviðinu um loftslagsmálin.

IPCC lagði fram þriðju skýrslu sína á þinginu í Marrakesh. Þar kemur m.a. fram að hitastig hækkaði um 0,6°C á síðustu öld og að þá hækkun megi að hluta rekja til áhrifa mannsins. Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að hlýnun verði 1,4--5,8°C á þessari öld eftir því við hvaða forsendur um framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda er miðað. Spár um hækkun yfir borðs sjávar eru á bilinu 9--88 sm á sama tímabili.

Af þeim 84 ríkjum sem undirrituðu Kyoto-bókunina áður en frestur til þess rann út hafa 42 ríki fullgilt hana. Þetta eru fyrst og fremst þróunarríki sem taka ekki á sig skuldbindingar í bókuninni. Ekkert ríkja OECD hefur enn séð sér fært að fullgilda bókunina, m.a. vegna þess að tæknilega útfærslu hennar hefur skort til þessa. Rúmenía hefur nýlega fullgilt bókunina og er fyrst þeirra ríkja sem taka á sig losunarmörk til þess að gera það. Til þess að bókunin taki gildi þurfa 55 lönd að gerast aðilar að henni og þarf samanlögð losun þeirra ríkja að vera yfir 55% af heildarlosun iðnríkjanna.

[15:15]

Kyoto-bókunin setur iðnríkjunum losunarmörk. Stefnt er að því að heildarlosun þessara ríkja verði samanlagt 5,2% minni á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar, 2008--2012, en ef miðað er við árið 1990. Losunarmörkin eru breytileg og taka mið af aðstæðum ríkja og eru á bilinu frá því að fela í sér 8% samdrátt miðað við árið 1990 og yfir í 10% aukningu. ESB tekur á sig sameiginlega skuldbindingu upp á 8% samdrátt. Í samningum sín á milli hafa ESB-ríkin síðan samið um skiptingu á þessum samdrætti. Í skýrslunni sem hér er til umræðu er að finna yfirlit yfir losunarmörkin frá Kyoto og innri skiptingu ESB-ríkjanna. Fimm ríkjum ESB, Portúgal, Grikklandi, Spáni, Írlandi og Svíþjóð, verður heimilt að auka losun, t.d. um 27% í tilfelli Portúgals og um 25% í tilfelli Grikklands, meðan önnur draga mun meira saman og Lúxemborg mest eða 28%. Mest munar hins vegar um 21% samdrátt Þýskalands sem stendur fyrir því sem næst helmingi af öllum samdrætti ESB. Þannig að það er alls ekki rétt sem fram hefur komið hér oft og ítrekað í umræðunni að Ísland hafi fengið mesta hækkun í prósentum talið miðað við önnur ríki í Kyoto-samningnum í reynd.

Með niðurstöðunni í Marrakesh liggur útfærsla bókunarinnar fyrir þannig að nú hafa aðildarríkin allar forsendur til þess að taka afstöðu til fullgildingar hennar. Það eru einkum þrír þættir sem skildir voru eftir lítt útfærðir á Kyoto-fundinum 1997. Í fyrsta lagi voru það framfylgdarákvæðin, í öðru lagi sveigjanleikaákvæðin og í þriðja lagi binding kolefnis með ræktun.

Framfylgdarákvæðin snúast m.a. um það hver viðurlög skuli vera við því ef ríki fara fram úr losunarheimildum sínum eða standa ekki við aðrar skuldbindingar innan bókunarinnar. Nú hefur verið samið um þessi viðurlög þannig að ríki sem fara yfir losunarmörk á fyrsta skuldbindingartímabili, 2008--2012, skulu bæta það upp á því næsta með 30% álagi. Ríki sem sýna ekki fullnægjandi framfylgd skulu greina frá ástæðum þess og leggja fram tímasetta áætlun um úrbætur. Þau missa einnig heimild til þess að nýta sér sveigjanleika\-ákvæði bókunarinnar, þ.e. viðskipti með losunarheimildir og sameiginlega framkvæmd.

Ágreiningur er um það hvort ofangreind viðurlög skuli vera lagalega bindandi. Með Bonn-samkomulaginu frá því í júlí var ákveðið að fresta þeirri ákvörðun til fyrsta aðildarríkjaþings bókunarinnar sem haldið verður eftir að bókunin hefur öðlast gildi. Ef niðurstaðan verður sú að viðurlögin verði lagalega bindandi mun hvert ríki fyrir sig þurfa að fullgilda þá niðurstöðu.

Viðskipti með losunarheimildir er eitt af sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar. Ríkjum sem ekki nýta losunarheimildir sínar til fulls er heimilt að framselja það sem umfram er til annarra ríkja. Þess er vænst að markaðsverð á losunarheimildum verði 1000--2000 kr. á tonn koltvíoxíðs. Einnig er heimilt að telja sér til tekna heima fyrir samdrátt í losun sem rekja má til aðgerða sem viðkomandi ríki tekur þátt í í öðru ríki og er sú aðferð nefnd sameiginleg framkvæmd. Slík verkefni má vinna bæði með öðrum iðnríkjum og með þróunarríkjum.

Reglur um sveigjanleikaákvæðin liggja nú fyrir. Engar tölulegar takmarkanir eru settar á sveigjanleikaákvæðin eins og ESB hafði krafist. Þessi viðskipti munu ekki hefjast fyrr en árið 2008 en sameiginleg framkvæmd með öðrum iðnríkjum getur hafist fyrr þó að samdráttur í losun sem af því leiðir komi viðkomandi ríki ekki til góða fyrr en á fyrsta skuldbindingartímabilinu.

Ísland hefur umtalsverð tækifæri á þessu sviði vegna sérþekkingar hér á landi á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, einkum jarðvarma. Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hefur þegar haft mikil áhrif til góðs í þróunarríkjunum. Sem dæmi um hvernig Íslendingar geta nýtt sér verkefni sem byggjast á sameiginlegri framkvæmd má nefna að með því að standa t.d. að jarðvarmavirkjun í Kenýa getur Ísland aflað sér losunarheimilda til notkunar hér á landi.

Plöntur taka til sín koltvíoxíð andrúmsloftsins og breyta því í lífrænt efni. Þetta hefur verið nefnt binding kolefnis. Kyoto-bókunin heimilaði að tekið yrði tillit til bindingar með skógrækt eftir 1990 en ákvörðun um annars konar bindingu var frestað. Mikið hefur verið tekist á um þessi mál en nú hefur fengist niðurstaða. M.a. var fallist á tillögu Íslands og Ástralíu þess efnis að landgræðsla fengist viðurkennd til jafns við nýræktun skóga enda er landgræðsla jafngild aðgerð til þess að binda kolefni.

Mun umdeildari var sú ákvörðun að heimila að tekið yrði tillit til bindingar í skógi sem var til staðar fyrir 1990, þ.e. bindingar í eldri skógi. Bandaríkin, Kanada, Japan og Rússland lögðu mikla áherslu á þessa kröfu. Eðlismunur er á þessari bindingu og þeirri sem leiðir af nýrri landgræðslu eða nýræktun skóga eftir 1990. Bindingu í eldri skógi er einungis að litlum hluta hægt að rekja til beinna aðgerða ríkja eftir 1990. Hún er að mestu leyti til komin vegna fyrri aðgerða eða óbeinna áhrifa mannsins.

Með því að heimila ríkjum að reikna sér til tekna bindingu í eldri skógum er í raun verið að lækka markmiðið um heildarsamdrátt iðnríkjanna. Vegna þessa var ákveðið að setja þak á þessa heimild. Þrátt fyrir það hefur hún umtalsverð áhrif. Svo dæmi sé tekið jafngildir heimildin því að markmiðinu í Kyoto-bókuninni frá 1997 fyrir Kanada um 6% samdrátt hafi verið breytt í rúmlega 1% aukningu. Rússar náðu einnig fram umtalsverðum tilslökunum í Marrakesh, eins og rakið er í skýrslunni, aðallega vegna þeirrar stöðu sem þeir eru í. Þeir losa um 17% af losun iðnríkjanna og ef þeir verða ekki með í Kyoto-samkomulaginu eftir að Bandaríkjamenn eru farnir út er alveg ljóst að Kyoto-bókunin verður aldrei fullgilt.

Í Marrakesh voru einnig samþykktar ákvarðanir um útfærslu á ákvæðum Kyoto-bókunarinnar um tæknilega og fjárhagslega aðstoð við þróunarríkin til þess að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Var þar m.a. byggt á yfirlýsingu ESB-ríkjanna, Íslands, Noregs, Nýja-Sjálands, Sviss og Kanada, í Bonn í sumar þess efnis að þau væru tilbúin að leggja fram sameiginlega 410 milljónir bandaríkjadala eigi síðar en árið 2005 til aðstoðar þróunarríkjunum. Þetta framlag kemur til viðbótar þeim fjármunum sem þróunarríkin hafa aðgang að í gegnum Hnattræna umhverfisbótasjóðinn (GEF) og aðra sjóði.

Í Marrakesh var tekin ákvörðun um íslenska ákvæðið og lauk þar með þeirri umfjöllun sem Ísland óskaði eftir í Kyoto 1997, um þann sérstaka vanda sem leiðir af miklum hlutfallslegum áhrifum einstakra verkefna á heildarlosun frá litlu landi eins og Íslandi. Rökin fyrir því að vandi Íslands gagnvart stærðarhlutföllunum kallaði á viðbrögð eru þau að þrátt fyrir að þessi verkefni hafa áhrif til aukningar á heildarlosun frá Íslandi hafa þau hnattrænt áhrif til lækkunar. Ástæðan er sú að ál er víða framleitt með orku úr jarðefnaeldsneyti sem leiðir til u.þ.b. átta sinnum meiri losunar en þegar ál er framleitt með endurnýjanlegri orku. Þetta er mikilvægt atriði sem fellur vel að meginmarkmiðum samningsins en hefur vafist fyrir mjög mörgum hér á landi. Það er ástæða til að taka það sérstaklega fram að ef álframleiðsla hér á landi eykst eins og fyrirætlanir hafa gert ráð fyrir munu hnattræn áhrif íslenska ákvæðisins til lækkunar losunar nema um 3,8 millj. tonna af gróðurhúsalofttegundum á ári á fyrsta skuldbindingartímabilinu, 2008--2012, eða meira en allri losun nemur frá Íslandi. Þetta þýðir að ef íslenska ákvæðið er nýtt hér á landi minnkar hnattrænt losun gróðurhúsalofttegunda um meira en nemur allri losun frá Íslandi þannig að það blasir við hvað hnattrænn ávinningur er mikill af þessu ákvæði.

Þessar tölur eru áætlaðar með því að bera losun frá álframleiðslu hér á landi saman við meðallosun frá álframleiðslu í heiminum í dag. Því miður fer stór hluti framleiðslunnar fram með orku úr kolum, olíu eða jarðgasi. Ef aðeins er borið saman við framleiðslu sem knúin er með kolum eru hnattræn áhrif til lækkunar 10,3 milljónir tonna af koltvíoxíði, þ.e. tæplega þrisvar sinnum meiri hnattrænn ávinningur en nemur allri losun frá Íslandi.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir íslenska ákvæðinu og mun ég ekki rekja það að sinni en býst við ágætum umræðum um það á eftir. Rétt er þó að vekja athygli á því að þessi ákvörðun lokar fyrir það að Ísland geti selt frá sér losunarheimildir til annarra landa. Engar takmarkanir eru hins vegar á því að Ísland afli sér viðbótarlosunarheimilda með viðskiptum eða sameiginlegri framkvæmd.

Með íslenska ákvæðinu verður koltvíoxíðlosun frá nýjum stóriðjuverum haldið utan við losunarskuldbindingar Íslands að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í álverum losnar til viðbótar við koltvíoxíð umtalsvert magn af flúorkolefnum við spennuris í kerjum. Árangur stóriðjufyrirtækjanna í því að halda losun þeirra í lágmarki er því mjög mikilvægur. Ákvörðun aðildarríkjaþingsins felur í sér þak á heildarumfangi íslenska ákvæðisins. Það þak miðast við 1,6 milljónir tonna koltvíoxíðs. Sú nýja stóriðja sem rætt hefur verið um að hér gæti verið komin fyrir lok skuldbindingartímabilsins 2012 mun rúmast innan þeirra marka.

Með þessari ákvörðun aðildarríkjaþingsins er tekið á sérstöðu Íslands og leystur sá vandi sem skilgreindur var í Kyoto. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er að því stefnt að ,,Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess``. Nú þegar samningsmarkmið Íslands sem sett voru fram hafa náðst, bæði gagnvart íslenska ákvæðinu og landgræðslunni, mun undirbúningur fyrir fullgildingu Íslands á Kyoto-bókuninni hefjast. Þingsályktunartillaga þess efnis verður væntanlega lögð fyrir Alþingi á næsta ári.

Sá árangur sem nú hefur náðst í því að gæta hagsmuna Íslands jafnhliða hnattrænum ávinningi í loftslagsmálunum er afrakstur mikils samstarfs, bæði ráðherra og embættismanna. Samstillt átak sex ráðuneyta sem hafa átt fulltrúa í sendinefndum Íslands hefur skilað þessari niðurstöðu. Við erum líka svo heppin að eiga í sendinefnd okkar mikla sérfræðinga í málefnum loftslagssamningsins og núna hefur einn af fulltrúum okkar í sendinefndinni, Halldór Þorgeirsson úr umhvrn., verið valinn í framkvæmdastjórn loftslagssamningsins og einnig valinn sem formaður annarrar tveggja undirnefnda samningsins, nefndar um vísindi og tækniráðgjöf. Það er mikið fagnaðarefni hvað Ísland hefur náð sterkri stöðu á vettvangi samningsins en það er vegna þess hvað við höfum lagt okkur mikið fram um að aðstoða við að ná niðurstöðu.

Athygli mun nú beinast að framkvæmd loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar hér heima fyrir. Árið 2000 var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi ígildi um 3,3 milljóna tonna koltvíoxíðs og hafði því aukist um 14,5% frá árinu 1990. Gróflega skipt kemur 1/3 losunarinnar frá iðnaði, 1/3 frá samgöngum og tækjum og 1/3 frá fiskiskipum. Þegar stóriðja sem komið hefur til eftir 1990 hefur verið dregin frá nemur losun frá Íslandi árið 2000 um 3,1 milljón tonna sem jafngildir 6,3% aukningu frá 1990. Þá er ekki talin með binding með landgræðslu og skógrækt sem er rúmlega 100 þúsund tonn.

Losunarspá vegna fyrsta skuldbindingartímabils bókunarinnar er nú í vinnslu. Á grundvelli hennar verður mörkuð stefna um það hvernig Ísland muni standa við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar. Að þessu er unnið á vegum stýrihóps ráðuneytisstjóra um loftslagsmál undir forustu umhverfisráðuneytisins. Þessari stefnumörkun mun ljúka með tillögugerð til ríkisstjórnar á fyrri hluta næsta árs.

Svipuð stefnumörkun er í undirbúningi um þessar mundir í nágrannalöndunum og verður tekið mið af þeirri vinnu við stefnumörkun hér á landi. Ljóst er að Japan og fleiri ríki munu auka notkun kjarnorku til raforkuframleiðslu vegna tilkomu Kyoto-bókunarinnar því raforkuframleiðsla með kjarnorku felur ekki í sér losun á gróðurhúsalofttegundum. Mikilvægt er að þessi þróun auki ekki á þann vanda sem þegar hefur skapast vegna kjarnorkuúrgangs.

Tekist hefur verið á um mikla hagsmuni í þeirri þriggja ára samningalotu sem nú er lokið. Ríkjahóparnir sem unnið hafa að samningaviðræðunum eru einkum þrír: þróunarríkin, Evrópusambandið og svonefndur regnhlífarhópur sem Ísland tilheyrir. Í þeim hópi eru Bandaríkin, Kanada, Japan, Ástralía, Nýja-Sjáland, Noregur, Rússland og Úkraína auk Íslands. Þetta samstarf hefur verið okkur mikilvægt þó að áherslur séu mismunandi innan hópsins enda talar hvert ríki fyrir sig í einstökum málum. Í mörgum málum hafa þó áherslur Íslands, Noregs og Nýja-Sjálands farið saman.

Eins og staðan er í dag koma 99,9% af raforkuframleiðslunni og 70% af frumorkuþörfinni hér á landi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta hlutfall er hæst hjá okkur af þeim ríkjum sem við berum okkur almennt saman við. Þetta hlutfall verður ekki hækkað enn frekar nema með því að draga úr olíunotkun í samgöngum og sjávarútvegi eða með því að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með notkun vetnis.

[15:30]

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að aukningu orkunotkunar í iðn- og þróunarríkjunum verði mætt með endurnýjanlegum orkulindum þar sem kostur er. Þar eru víða ónýttir möguleikar. Skortur á tækniþekkingu takmarkar hins vegar möguleika ýmissa þróunarríkja til þess að nýta eigin endurnýjanlegar orkulindir en litla þekkingu þarf hins vegar til þess að auka notkun á jarðefnaeldsneyti enn frekar. Það er því ljóst að þörfin fyrir þá þekkingu sem byggst hefur upp hér á landi við beislun endurnýjanlegra orkugjafa mun aukast og við Íslendingar getum miðlað öðrum af okkar reynslu.

Einnig er ljóst, virðulegur forseti, að allir sem láta sig umhverfismál miklu varða á alþjóðavettvangi og hafa unnið að loftslagssamningnum hvetja mjög til aukinnar notkunar á endurnýjanlegum orkugjöfum og óska eftir að minnkuð verði notkun á kolum, olíu og kjarnorku. Þess vegna er mjög mikilvægt að við Íslendingar gerum það sem við getum til þess að viðhalda þeirri tækniþekkingu sem við búum að á grundvelli endurnýjanlegra orkugjafa og miðlum þeirri tækniþekkingu eins og okkur er unnt til þróunarríkja. Hjá þróunarríkjunum mun einmitt verða meiri þörf á nýrri orku og það er mjög mikilvægt að þau fái aðstoð við að taka sem fyrst upp endurnýjanlega orkugjafa.