2001-11-19 15:31:41# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hafi hæstv. umhvrh. viljað leggja sitt af mörkum til að fá hér málefnalega umræðu þá byrjaði hæstv. ráðherra ekki vel. Hæstv. ráðherra hóf mál sitt á skítkasti í garð stjórnarandstöðunnar, sakaði hana um villandi málflutning, um að tala gegn hagsmunum Íslands og þar fram eftir götunum.

Dæmið sem hæstv. ráðherra nefndi hvað varðaði Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð er fullyrðing í fréttatilkynningu frá okkur um að framganga ríkisstjórnar Íslands hafi verið dragbítur á framgang loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Það er nákvæmlega það sem hún hefur verið. Ísland fékk fyrir það fyrsta rýmri heimildir en nokkur önnur þjóð eða leyfi til að auka losun um 10% frá 1990.

Í öðru lagi undirritaði Ísland ekki einu sinni bókunina, hvað þá að undirbúa fullgildingu hennar. Ísland var eina OECD-þjóðin, nánast eina þjóðin sem yfir höfuð hefur tekið þátt í þessu ferli, sem ekki lét svo mikið sem vera meðal undirritunarþjóða.

Í þriðja lagi hékk Ísland inni í regnhlífahópnum með dragbítunum. Hverjir hafa sannanlega verið dragbítar á þetta ferli aðrir en Bandaríkin og hin iðnríkin sem Ísland kaus að fylkja sér í hóp með? Þar með var Ísland að sjálfsögðu meðal dragbítanna í þessu ferli, enda hefur það tekið langan tíma eins og kunnugt er.

Það er afar sérkennilegt, herra forseti, að sitja uppi með umhvrh. á Íslandi --- ég vek athygli á því að það ekki iðnrh. heldur umhvrh. --- sem hoppar af gleði yfir því að hafa fengið sérstakt stóriðjuundanþáguákvæði til að auka mengun, sem er nákvæmlega það sem er hér á ferðinni. Ég mun í ræðu minni koma inn á hin kostulegu dæmi sem hæstv. ráðherra notar til að reyna að sanna að aukin mengun á Íslandi sé í þágu hins hnattræna umhverfis. Aukin mengun á Íslandi á að vera í þágu hins hnattræna umhverfis þegar markmiðið er að draga úr mengun en ekki auka hana.