2001-11-19 15:33:53# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hin málefnalega umræða Vinstri grænna sem hafa unnið gegn hagsmunum Íslands í þessu ferli alveg frá upphafi. Hér er sagt að aukin mengun á Íslandi skipti ekki máli hnattrænt. Það er búið að reikna það út og það kom fram í ræðu minni áðan að ef íslenska ákvæðið er nýtt, eins og við getum núna vegna þess stórkostlega árangurs sem við höfum náð á alþjóðavettvangi, þá mun það hnattrænt minnka losun gróðurhúsalofttegunda um meira en Ísland losar þegar í dag. Hugsið ykkur, meira en Ísland er að losa í dag. Það er hnattræni ávinningurinn. Gengur ekki Kyoto-bókunin út á það að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið? Ef íslenska ákvæðið er notað verður það afleiðingin. Með því að nota endurnýjanlega orkugjafa, vatnsorku og jarðvarma, en ekki olíu eða kol þá er losunin 8--10 sinnum minni í álframleiðslu á Íslandi en þar sem kol og olía eru notuð. Þetta er allur galdurinn.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð neitar að skilja þetta en þetta er sannleikurinn. Það er alrangt að Íslendingar hafi verið dragbítar á framgang Kyoto-bókunarinnar. Þar höfum við að mínu mati skipað miklu stærra hlutverk en hægt er að ætlast til af litlu ríki. Það er vegna þess að við höfum á að skipa mjög öflugri sendinefnd. Af hverju halda menn að Ísland eigi fulltrúa í 10 manna framkvæmdastjórn Kyoto-bókarinnar? Er það af því að við höfum verið dragbítar á ferlið? Nei, svo sannarlega ekki. Það er vegna þess að við höfum aðstoðað hin stærri ríki við að ná samkomulagi, sérstaklega í bindingarmálunum, sem koma okkur reyndar minnst við, í skógræktinni. Þannig er nú hin málefnalega umræða Vinstri grænna í þessu máli.