2001-11-19 15:46:07# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umhvrh. er talsmaður umhverfisins í þessu máli. Ég er búin að segja það hér og get endurtekið það aftur að umhverfisráðherrar annarra ríkja hafa samþykkt íslenska ákvæðið. Ég átta mig ekki á því af hverju Vinstri grænir geta ekki viðurkennt núna að íslenska ákvæðið er jákvætt fyrir umhverfið. Það er vistvænt. Það liggur í augum uppi. Núna þegar allir aðrir hafa samþykkt það, af hverju geta þá ekki Vinstri grænir viðurkennt ósigur sinn í þessum málflutningi og sagt á Alþingi að íslenska ákvæðið sé jákvætt fyrir lofthjúpinn? Það hlýtur að blasa við alþjóð. Menn verða bara að vera menn til að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Og það þarf ekkert að útskýra það hér í löngu máli aftur og aftur fyrir hv. þingheimi þegar menn sjá að allir aðrir hafa skilið rök ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli á erlendum vettvangi. Þá tel ég að kominn sé tími til fyrir stjórnarandstöðuna að viðurkenna að þetta er jákvætt ákvæði fyrir umhverfið.

En hér hefur málflutningurinn verið sá að þetta væri einhvers konar sóðaákvæði. Hvílík firra. Þetta er ekki sóðaákvæði, þetta er ákvæði sem felur í sér að við munum í heildina minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Og ef það er ekki mikilvægt hagsmunamál fyrir umhverfið, þá veit ég ekki hvað það er.