2001-11-19 15:47:57# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á segja að mér fannst heldur lítil reisn yfir hæstv. umhvrh. þegar hún hóf mál sitt hér áðan en látum það vera. Ég hélt kannski að í hennar sporum kæmi hún í þingsali keik og ánægð með árangurinn og samninginn. Þess vegna fannst mér eins og ég segi lítil reisn yfir þessu upphafi. En látum það liggja á milli hluta, herra forseti.

Niðurstaða er komin í Kyoto-ferlið, þ.e. komin er niðurstaða í Kyoto-ferlið hvað fyrsta skuldbindingartímabilið áhrærir. Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að þetta er aðeins fyrsta skrefið, þetta ferli mun halda áfram, vonandi eins lengi og þarf, þannig að ég vil gjalda varhug við því að menn tali eins og hér sé komin endanleg niðurstaða, hvort heldur við tölum um samninginn allan ellegar hið íslenska sérákvæði. Þetta ferli er rétt að byrja, herra forseti. Og það er ekki nema von því að við sem hér erum inni vitum öll að losun gróðurhúsalofttegunda er einhver mesti umhverfisvandi sem við eigum við að etja á þessari öld. Um þetta hefur verið rætt, um þetta hefur verið deilt. Ég held að fáir þori á þessari stundu að mæla því mót að spár vísindamanna, varlega áætlaðar spár vísindamann geta haft geigvænlegar afleiðingar, þ.e. ef við stemmum ekki stigu við losun gróðurhúsalofttegunda út í lofthjúpinn. Það gildir því mjög miklu að samkomulag náist sem er fyrsta skrefið í átt að því að þjóðir heims reyni að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í lofthjúpinn.

Bandaríkin losa 24% allra gróðurhúsalofttegunda á jörðinni og samtals losa iðnríkin 2/3 hluta gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Það er því miður að Bandaríkin skuli ekki vera með í þessu samkomulagi en við verðum að vona að stjórnvöld þar muni einhvern tíma í náinni framtíð sjá sér fært að vera með á þeim vettvangi eins og öðrum alþjóðlegum vettvangi.

Það er líka óeðlilegt að stilla málinu þannig upp að þróunarríkin, að hin fátæku ríki heims hafi verið með og séu stikkfrí í þessari umræðu. Þannig er það ekki. Tekin var um það meðvituð ákvörðun í ferlinu að á fyrsta skuldbindingartímabilinu skyldu þróunarríkin í raun og veru bíða með aðgerðir sínar. Þau eru með í ferlinu en það eru önnur ákvæði sem þar eiga við, ekki síst vegna þess að þau lúta að samstarfi og framkvæmd og öðru slíku. Ég vil því einvörðungu benda hv. þm. á að ýmsir hafa haldið því fram að þróunarríkin séu alveg stikkfrí í þessu ferli en það er einfaldlega ekki þannig. Það er ekki rétt.

Það er líka kaldhæðnisleg staðreynd, herra forseti, að hlýnun andrúmsloftsins kemur verst niður á fátækustu löndum heims. Þau hafa losað minnst af gróðurhúsalofttegundum frá upphafi iðnbyltingarinnar. Við vitum alveg hverjir það eru sem hafa losað mest af gróðurhúsalofttegundum, það eru að sjálfsögðu iðnríkin, en það sem meira er um vert er að fátækustu löndin hafa eins og aðstæður eru núna líka minnsta möguleika á að verjast afleiðingum loftslagsbreytinga. En vonandi verða breytingar á því núna með þessu samkomulagi og ekki síst með þeim ákvæðum um samstarf og samvinnu sem í samningnum eru.

Fyrir liggur að fullgilda þennan samning. Hér hefur komið fram og vonandi mun það ganga eftir að það geti kannski gerst fyrir Ríó plús 10 ráðstefnuna, eins og hún er kölluð, sem verður haustið 2002 í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Ég held að mjög mikilvægt sé að við göngum einbeitt inn í það ferli. Það hefur alltaf verið málflutningur Samfylkingarinnar í þessu máli að ef við ættum að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera gerandi á hinu alþjóðlega sviði, hvort heldur er í þessu máli eða öðrum, þá munum við að sjálfsögðu axla þá ábyrgð.

En það skiptir líka mjög miklu máli að endurskoðun stefnumótunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum sem hér hefur verið boðuð líti dagsins ljós í vetur eða fyrri part næsta árs þannig að þetta hangi allt saman þegar kemur að því að fullgilda samninginn.

Mig langar aðeins að drepa á nokkur efnisatriði sem fram komu í máli hæstv. umhvrh. og í skýrslu hennar.

Talað er um framfylgdarákvæðin. Þar er sagt að fullgildi eða framfylgi menn ekki því sem þeir hafi tekist á hendur, þýði það 30% álag á næsta tímabili sem væntanlega verður þá næsta fjögurra ára tímabil, 2013--2016, en óvíst hvort viðurlög verða lagalega bindandi. Ég held, herra forseti, að mjög mikilvægt sé að skoða það vel hvort það sé í raun ekki nauðsynlegt að það sé lagalega bindandi. Ég treysti mér svo sem ekki til að kveða upp úr um það núna en ég held hins vegar að það verði að fylgja þeim ákvæðum mjög þétt eftir svo menn framfylgi þeim og þess vegna skuli það skoðast mjög vel.

Einnig er ánægjulegt að sjá að sameiginleg framkvæmd með þróunarríkjum getur hafist nú þegar, ég tel það mjög mikilvægt. Og það er heldur ekki minna mál að við leggjum okkar til við tæknilega og fjárhagslega aðstoð við þróunarríkin svo þau geti nýtt endurnýjanlega orku. Það skiptir mjög miklu máli, herra forseti.

Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með þær breytingar sem urðu á bindingarákvæðunum rétt undir lokin í Marrakesh. Hæstv. ráðherra kom inn á það að í raun hefði það verið spurningin um að hafa Rússland inni eða úti og Rússarnir þurftu að vera inni svo samkomulagið næði þeim 55% og 55 löndum sem til þurfa. En það getur varla talist gott fordæmi að leyfa bindingu í eldri skógi, þ.e. skógi sem var plantaður fyrir 1990, því ákvæðið lækkar í raun markmiðið um heildarsamdrátt. Eins og fólki er kunnugt um hafa bindingarákvæðin auðvitað verið mjög umdeild. Það hefur verið mjög umdeilt í þessu ferli hvort bindingin virki í raun sem temprun á það að menn minnki losunina, þ.e. ef of mikið er lagt upp úr bindingunni, þá leggi menn minna á sig við að minnka losunina. Ég er ansi hrædd um að slíkt ákvæði virki einmitt þannig. Þá komast lönd upp með það að grípa ekki til raunhæfra aðgerða til þess að minnka losunina til langframa. Því miður.

Hvað íslenska ákvæðið svokallaða varðar sérstaklega, þá langar mig að benda á það í umræðunni, herra forseti, að mjög mikilvægt er að það komi skýrt fram í máli hæstv. umhvrh. og í stefnu þeirrar stjórnar sem nú situr hvernig það verður notað. Á það hefur verið bent að hér getur í raun verið um framleiðslustyrk að ræða fyrir orkufrekan iðnað. Einnig er á það bent að með því sé fýsilegra en ella að staðsetja orkufrekan iðnað hér á landi.

En það er annað í þessu máli, herra forseti, og það er að losunarheimildirnar eru takmörkuð auðlind í sjálfu sér. Þær munu fá verðgildi, og nú þegar er verið að verðleggja þær. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. umhvrh.: Hvernig á að fara með þær losunarheimildir sem við fáum samkvæmt hinu íslenska ákvæði? Margar tölur hafa verið nefndar í þessu sambandi. Menn hafa talað um að hér gætu verið heimildir sem hafa verðgildi að jafngildi 8--16 milljarða kr. Hér eru engar smáupphæðir á ferðinni, herra forseti. Það er mjög mikilvægt að takmarkaðri auðlind eins og þessari sé ekki útdeilt frítt, hún er nefnilega sameign þjóðarinnar, herra forseti.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til að segja frá því að á landsfundi Samfylkingar sem lauk í gær lýsti fundurinn þeim vilja sínum að takmarkaðar auðlindir í þjóðareign eins og þessi væru ekki látnar af hendi án endurgjalds. Hér þyrfti að greiða auðlindagjald eins og á við um aðrar slíkar auðlindir.

Að síðustu langar mig að segja, herra forseti, að mjög mikilvægt er að við höfum í huga í umræðunni að hér er einvörðungu um fyrsta skrefið að ræða. Það getur enginn sagt um það hér og nú hvað gerist eftir 2012. Það getur t.d. enginn sagt neitt um það hvort slíkt sérákvæði sem við fengum í gegn verði í gildi eftir 2012 og það er kannski gott að hafa það í huga upp á framtíðina. Þetta er fyrsta skrefið. Við erum að tala um fyrsta bókhaldstímabilið svokallaða og hér erum við lögð af stað í mjög langt og viðamikið ferli sem gæti tekið ár og áratugi í framkvæmd. Mér finnst því mjög mikilvægt að við ræðum samkomulagið sem náðist í Marrakesh í því samhengi og höfum það líka í huga, herra forseti, að andrúmsloftið er einfaldlega sameign okkar allra. Það er alveg sama hvar við búum á þessum hnetti, hvaðan við erum, við eigum sama rétt til ómengaðs lofts. Að því leyti til fagna ég þeirri niðurstöðu sem náðist þó náðist í Marrakesh en ég ítreka, herra forseti, að það er langur vegur fram undan í þessum málum.