2001-11-19 16:08:38# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KPál
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þeim mikla árangri sem hæstv. umhvrh. og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur náð til að leiðrétta stöðu okkar gagnvart Kyoto-samþykktinni sem gerð var í desember 1997. Íslenska ákvæðið sem nú er búið að setja inn í Kyoto-bókunina opnar fyrir nýtingu á endurnýjanlegri orku á Íslandi til stóriðjuframleiðslu og gerir óþarfar áætlanir um stóriðju víðs vegar um heiminn þar sem aðrir orkugjafar eru nýttir sem menga mikið.

Það var strax ljóst þegar Kyoto-samþykktin kom til skoðunar hér heima að hún væri óásættanleg niðurstaða fyrir íslenska hagsmuni. Fyrir það fyrsta gerði hún ekki ráð fyrir að við gætum nýtt frekar en orðið var á þeim tíma endurnýjanlega orkugjafa okkar við beislun fallvatnanna og jarðgufu til raforkuframleiðslu, þó vitað væri að við hefðum þá einungis nýtt u.þ.b. 15% af þeim fallvötnum sem virkjanleg eru.

Ef það hefði orðið niðurstaðan hefði það leitt yfir íslenska þjóð algjöra stöðnun í atvinnulífinu og framtíðarhagvöxtur og lífskjör þjóðarinnar hefðu dregist saman. Með öðrum orðum hefði áratugastöðnun orðið hlutskipti Íslendinga meðan aðrar þjóðir gátu haldið áfram uppbyggingu sinni eins og ekkert hefði í skorist. Á þetta var margoft bent í umræðunum hér á Alþingi frá því að Kyoto-bókunin var kynnt.

Sem dæmi um þetta má rifja upp að millilandaflug til og frá Íslandi var talið inni í okkar kvóta meðan flug milli landa innan Evrópusambandsins var ekki inni í kvótanum. Ríki Evrópusambandsins gátu þar að auki miðlað á milli sín kvóta eftir því sem þeim sýndist eftir reglum Evrópusambandsins, sem leiddi til þess að sum ríki bættu við sig margföldu því sem Íslendingar höfðu meðan önnur drógu úr af ýmsum ástæðum sem ekki skiptu máli þá fyrir þau.

Ég vil benda mönnum á að á bls. 3 í skýrslunni sem fylgir með þessu máli stendur, með leyfi forseta:

,,Ákveðið var að taka tillit til aðstæðna ríkja þegar losunarmörk voru sett og eru þau á bilinu frá því að fela í sér 8% samdrátt miðað við árið 1990 og yfir í 10% aukningu. ESB tekur á sig sameiginlega skuldbindingu upp á 8% samdrátt. Í samningum sín á milli hafa ríki ESB síðan samið um skiptingu á þessum samdrætti. Fimm ríkjum ESB, Portúgal, Grikklandi, Spáni, Írlandi og Svíþjóð, verður heimilt að auka losun, t.d. um 27% í tilfelli Portúgals og um 25% í tilfelli Grikklands, meðan önnur draga mun meira saman og Lúxemborg mest eða 28% og Þýskaland um 21%.``

Samdráttur á kvóta hjá Þjóðverjum kom fyrst og fremst út af mikilli mengun sem var í Austur-Þýskalandi.

Það að bera okkur saman við Evrópusambandið og þessi stóru ríki, sem hafa ótrúlega möguleika, er því svo mikil skammsýni að það hefur verið jafnvel skondið að fylgjast með því hvernig forustumenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafa rætt um þessi mál. Báðir þessir flokkar hafa beinlínis krafist þess, eins og komið hefur fram hér, að Kyoto-bókunin verði samþykkt óbreytt eins og hún kom fyrst fram. Þannig lagði núverandi formaður Samfylkingarinnar fram tillögu á 123. löggjafarþingi sem Ágúst Einarsson, þáv. þingmaður, var 1. flm. fyrir. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að fá að lesa þá till. til þál. um undirritun Kyoto-bókunarinnar, og flutningsmenn eru samfylkingarfólkið núverandi og þáverandi: Ágúst Einarsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson, sem ég veit nú ekki í hvaða flokki er reyndar, Svanfríður Jónasdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, hv. þingmenn núverandi og fyrrverandi. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.``

Þessi tillaga var lögð fram á 123. löggjafarþingi, 1998--1999.

Formaður Samfylkingarinnar lét ekki þar við sitja heldur ritaði í DV, en hann var þá ritstjóri DV eins og komið hefur fram, tvo leiðara sem voru báðir á þá lund að gera þá samninga og við getum sagt störf ríkisstjórnarinnar að þessu máli sem tortryggilegust. Er dálítið erfitt fyrir hv. þm. að rifja þetta upp nú undir þessum kringumstæðum og að sjálfsögðu erfitt að þurfa að viðurkenna að hafa tekið svona stórt upp í sig og þurfa að kyngja því öllu saman aftur.

Ekki er hægt að segja að afstaða Vinstri grænna sé neitt öðruvísi. Vinstri grænir hafa alltaf verið grænir í þessum málum og það má sjá á ályktun frá þeim þingflokki frá því 23. febr. 1999, sem þá hét óháður, en Steingrímur J. Sigfússon lagði fram tillögu ásamt fleirum sem var í sama anda. Það var ályktun þingflokks óháðra vegna ákvörðunar ríkisstjórnar --- og undir þetta rituðu Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Hjörleifur Guttormsson, Guðrún Helgadóttir, Kristín Halldórsdóttir og fleiri. Og þar stendur, með leyfi forseta:

[16:15]

,,Þingflokkur óháðra fordæmir þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að undirrita ekki Kyoto-bókunina við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna fyrir tilskilinn frest 15. mars nk. Með því er ríkisstjórnin að skerast úr leik í alþjóðlegri viðleitni ríkja heims að koma í veg fyrir háskalegar loftslagsbreytingar af manna völdum.``

Seinna í þessari ályktun kemur fram, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur óháðra telur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að skerast úr leik í þessu afdrifaríka máli bera vott um fádæma skammsýni og ganga gegn hagsmunum Íslendinga í bráð og lengd.``

Þetta eru nú þeirra orð, herra forseti.

Það er alveg með ólíkindum hvað menn hafa verið yfirlýsingaglaðir á þessum tíma og spurningin er náttúrlega hvernig þeir ætla að svara því. En það hefur ekki komið fram neins staðar í þessari umræðu að gengið hafi verið gegn hagsmunum Íslendinga í þessu máli nema síður væri.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að lánleysi þessara flokka þegar kemur að því að gæta hagsmuna Íslendinga er einstakt og ég held fáheyrt með stjórnmálaflokkum að þeir leggist svona gegn hagsmunum þjóðar sinnar eins og þeir hafa gert í þessu tilfelli. Ég veit ekki um nein önnur stjórnmálasamtök en talibana í Afganistan sem hafa lagst gegn því að einhverjar verulegar aðgerðir (SJS: Herra forseti ...) og leiðréttingar yrðu gerðar á hagsmunum þjóðar sinnar. (SJS: Þetta er látið vítalaust.)

Þessir tveir flokkar hafa þó tekið jákvætt í eitt atriði í umhverfismálum en það er að virkja fallvötnin til að framleiða vetni. Það hljómar ekki svo illa en þegar nánar er skoðað er lítið kjöt því miður á þeim beinum. Það er heilmikið átak í gangi af ríkisstjórnarinnar hálfu og 200--300 milljónir eru settar til þess að kanna þann möguleika, en því miður er það svo og kom fram á orkuráðstefnu sem haldin var núna fyrir nokkrum vikum síðan að framleiðsla vetnis getur ekki orðið hagkvæm í nánustu framtíð. Ástæðurnar eru þær að framleiðsla vetnis er mjög orkufrek og dýr. Vetni er ekki heldur hægt að geyma sem vetni heldur þarf að framleiða úr því metanól. Ef litið er á samanburð sem gerður hefur verið á þessu tvennu þá fara um 11 kílóvött í að framleiða eitt tonn af metanóli en 13,5 kílóvött til að framleiða eitt tonn af áli. Fyrir tonnið af metanóli fást um 150 dollarar en fyrir tonnið af áli fást 1.500 dollarar. Af þessu má ljóst vera að framleiðsla vetnis getur því miður seint borið sig ef miðað er við það rafmagnsverð sem greitt er í áliðnaði í dag.

Herra forseti. Það þarf að gefa gaum að ýmsum öðrum möguleikum sem geta minnkað gróðurhúsalofttegundir, eins og t.d. rafknúnum ökutækum og hugsanlega fullkomnari mengunarvarnarbúnaði á bíla og skip sem mætti jafnvel gera með því að lækka þungaskatt af dísilbílum þannig að dísilbílar yrðu fýsilegri kostur í rekstri en þeir nú eru. Framlag okkar á þessu sviði, herra forseti, hefur verið gríðarlega mikið og í þessu tilfelli hefur samningsstaða Íslands virkilega skipt máli.

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni fyrir heimsbyggðina sem slíka að við fáum að nýta endurnýjanlega orkugjafa okkar til að byggja upp orkufrekan iðnað sem heimurinn þarf á að halda. Ef það væri ekki gert hér er augljóst að slík framleiðsla flyttist til þróunarríkjanna sem flest framleiða rafmagn með kolum eða mó. Mengunin er því óheyrileg miðað við það sem við þurfum hér. Ákvæðið leiðir því ekki til þess að Íslandi grafist undir ís niður að sjávarmáli, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifaði eftir einhverjum í blað fyrir nokkrum árum síðan heldur er verið að draga úr líkum á því að nokkur slík heimsendaspá rætist með íslenska ákvæðinu.

Það er einnig mjög hvetjandi, herra forseti, fyrir íslenska skógræktar- og landgræðslumenn að vinna þeirra verður að fullu metin sem aðferð til þess að binda koltvísýring. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur mikið verið unnið að þessum málum og aðeins til þess að skyggnast inn í hvað gerðist með þessum nýju samþykktum þá verða tré eða ræktun trjáa sem ná þriggja metra hæð viðurkennd sem binding en áður var miðað við fimm metra tré og þá eftir að þau urðu fimm metrar. Nú er það frá því að þeim er plantað. Sama gildir um landgræðslu. Hún var ekki viðurkennd í Kyoto-samþykktinni. En með þessu nýja ákvæði verður landgræðsla viðurkennd og öll sú vinna sem hér hefur verið unnin verður því hluti af okkar bindingu sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Sífellt stærra landsvæði heyrir undir landgræðsluna og græn bylting að því leyti hefur raunverulega átt sér stað undir forustu þess ágæta fólks sem stjórnar Landgræðslu ríkisins. Árangur af skógræktarverkefnum bænda og annarra félaga hefur líka verið mjög mikill og í sjálfu sér eitt af því sem við getum verið stolt af. Í þessa liði alla hefur ríkisstjórnin veitt hundruð milljóna og á ég ekki von á öðru en að haldið verði áfram á því sviði. Virkjun metangass úr sorphaugum Sorpu hefur einnig skilað verulegum árangri og er eitt af því sem menn geta verið hreyknir af.

Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og lækkun tolla af bílum hefur bílafloti landsmanna endurnýjast og er betur búinn en nokkru sinni fyrr til þess að hreinsa koltvísýring. Bættur mengunarbúnaður í álverum hefur einnig skilað miklum árangri hvað þetta varðar. Svona mætti lengi telja, herra forseti. Vilji ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur verið einlægur í því að standa við sitt þegar þjóðir heims vilja draga úr hættu á of mikilli hlýnun á jörðinni. Göt á lofthjúpnum eru einnig verulegt áhyggjuefni. Á öllum þessum málum er tekið af mikilli ábyrgð og í þeirri trú að framlag okkar skipti máli fyrir okkur, börn okkar og framtíð, fyrir líf á jörðinni. Ég tel því að fullgilding Kyoto-bókunarinnar geti verið á næsta leiti.