2001-11-19 16:23:12# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Talsmaður okkar í þessari umræðu hefur ákaflega vel gert grein fyrir afstöðu Samfylkingarinnar í því máli sem við erum að ræða. Hv. þm. Kristján Pálsson gerði það að umtalsefni að Samfylkingin hefði flutt þingmál um að undirrita Kyoto-samninginn og ég legg áherslu á að undirrita Kyoto-samninginn. Það er hárrétt að við höfum talið að Ísland ætti að axla ábyrgð í umhverfismálum og aðlaga stefnu sína að þeim viðhorfum sem ríkja í dag.

Ég vil koma hér sérstaklega til að árétta þá afstöðu sem við höfðum þegar þetta mál var flutt í fyrsta sinn. Við vorum að spyrja ríkisstjórnina hvort hún ætlaði að standa utan við Kyoto-samninginn ef hún fengi ekki meira en 10%. Við vöktum athygli á því að fyrir utan að vera stærsta umhverfismál okkar tíma þá væri þetta mikið hagsmunamál vegna þess að í því væru peningar. Það eru meiri peningar í 11--12% en 10%. Og ég vek athygli á því að kvótinn sem Ísland hefur fengið er mjög rúmur kvóti og verðmæti hans er talið vera jafnvel 8--16 milljarðar.

Herra forseti. Ég vil sérstaklega benda á að afstaða okkar var, og hún kom fram í fyrsta sinn sem þetta mál var flutt hjá okkur, að það væru pólitísk skilaboð að skrifa undir Kyoto-bókunina, pólitísk skilaboð um að Ísland ætlaði að taka þátt í verkefninu á ábyrgan og markvissan hátt. Það var líka bent á að það að skrifa undir gæti þýtt að Ísland trúi því að skilningur sé á sérstöðu þess og treysti því að staðan í orkumálum og það sem Ísland hefur sett fram verði viðurkennt, að það væri betri leið en að rembast eins og rjúpan við staurinn við að fá meira, að það gæti þýtt að við sýnum traust, að við séum að kalla eftir skilningi, að það gætu verið sterkari og mikilvægari skilaboð en skilaboðin sem ríkisstjórnin sendi frá sér þá.

Þetta var mjög sterkt innlegg í umræðu okkar þegar við fluttum þetta mál og mér finnst að það fari vel á því að koma með það inn í þessa umræðu núna.