2001-11-19 16:32:12# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ástæða þess að ég tók hér upp nafnið talibanar er einfaldlega sú að þeir hafa verið þekktir fyrir það að boða stöðnun í samfélagi sínu. Svo má að mörgu öðru leyti tala um þá með einhverjum öðrum hætti en mín meining var ekki sú að klína því utan í einhverja aðra.

Að öðru leyti skil ég ósköp vel að hv. þm. hafi hugsað þetta þannig að fjölmörg mál voru óleyst þegar kom að því að undirrita Kyoto-bókunina, og hugsanlega hefði verið hægt að leysa þau við það tækifæri eða einhvern tímann síðar eftir að einhverju samkomulagi hefði verið náð um það.

Ég held samt að þegar við horfum á niðurstöðuna af ferlinu, hvernig þetta hefur svo verið rekið áfram af hæstv. umhvrh. og ríkisstjórninni, hafi verið reynt að ná samkomulagi við fjölda þjóða sem hafa verið í svipaðri stöðu eða verið óánægðar með það hvernig þeirra hlutur kæmi út úr þessu og þannig hefur farið fram mjög fagleg vinna. Kannski er það sú vinna sem hv. þm. er að meina. Sú vinna hefur leitt til samkomulags og það er örugglega það sem allir vildu.

Þess vegna segi ég að ef við hefðum undirritað þessa bókun með þeim orðum sem hér eru viðhöfð af þingflokki óháðra á sínum tíma, ,,fádæma skammsýni`` --- það eru ekki spöruð stóru orðin þar, það er bara ,,fádæma skammsýni`` --- að Kyoto-bókunin skuli ekki vera undirrituð bara strax. Ég held að það væri alveg full ástæða fyrir Vinstri græna í þessu tilfelli að viðurkenna að þeir fóru rangt að þessu máli á sínum tíma.