2001-11-19 16:34:32# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Orðin ,,fádæma skammsýni`` vísa m.a. til þess að sennilega á Ísland legu sinnar á hnettinum og aðstæðna vegna meira undir því en flestar ef ekki allar aðrar þjóðir, að frátöldum e.t.v. eyríkjunum á Kyrrahafinu sem hverfa af yfirborði jarðar í bókstaflegri merkingu á þessari öld ef svo heldur sem horfir, að tökum verði náð á loftslagsbreytingunum, einfaldlega vegna þess að spurningin um það hvort yfirleitt verði byggilegt á Íslandi eða ekki kann að ráðast af því hvort mannkyninu tekst að ná tökum á þessari þróun. Þar af leiðandi væri mikil skammsýni og sérhyggja af Íslands hálfu að reyna ekki að leggja sitt af mörkum og stuðla að því að þetta samkomulag nái fram að ganga, og ekki bara eitthvert fyrsta skref þess heldur áframhaldandi aðgerðir sem menn geti bundið vonir við að dugi til að koma böndum á þá óheillaþróun sem í gangi er. Og væri ekki skammsýni af þjóð sem getur átt búsetuskilyrði sín í bókstaflegri merkingu undir því að alheimssamkomulag takist um aðgerðir að leggja ekki sitt af mörkum til að það gerist?