2001-11-19 16:37:07# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara ekki að trúa því að hv. þm. Kristján Pálsson ætli ekki að biðjast afsökunar á því orði sem hann notaði hér yfir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Mér finnst ekki annað fært en hv. þm. biðji fólk afsökunar. Það er ekki verjandi að stjórnarandstöðuþingmenn á Alþingi þurfi að sitja undir því í faglegum og málefnalegum umræðum um loftslagsmál og hið íslenska undanþáguákvæði á vettvangi loftslagssamningsins að vera kallaðir talibanar. Og að hæstv. forseti skuli ekki krefja hv. þm. um afsökunarbeiðni finnst mér ekki nægilega gott svo ég bíð þess að hv. þm. biðji hér afsökunar. Undir öðru get ég ekki setið.

Vegna svartsýnishjals hv. þm. um möguleika Íslands á því að framleiða vetni í framtíðinni sem orkugjafa eða orkubera bendi ég hv. þm. á að lesa ræður sem fluttar voru á nýafstöðnu orkuþingi af forsvarsmönnum hins öfluga fyrirtækis Íslenskrar nýorku sem hefur notið stuðnings stjórnvalda. Ég gæti einnig bent hv. þm. á að lesa ræður hæstv. iðnrh. um möguleika Íslendinga til vetnisframleiðslu og ræður Baldurs Elíssonar sem talaði líka á orkuþingi.

Svartagallsraus hv. þm. í vetnisframleiðslumálunum er því alger óþarfi eftir því sem ég hef kynnt mér málin. Erfiðleikar okkar varðandi vetni og stóriðju eru hins vegar þeir að ætlum við að fara út í öll þau stóriðjuverkefni sem ríkisstjórnin áformar verður ekki eftir neinn virkjanakostur til þess að fara út í mögulega vetnisframleiðslu framtíðarinnar. Það er mergurinn málsins.