2001-11-19 16:39:16# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan hvað ég hefði meint með þessu orði og tel ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég minni á að þetta orð hefur oft verið notað hér áður, kannski ekki úr þessum ræðustól, en það hefur verið notað í þjóðfélaginu. Ekki ætla ég endilega að fara að rifja upp í hvaða tilvikum það var gert.

Herra forseti. Varðandi vetnið og orkuþingið sat ég einmitt á orkuþinginu og heyrði ræður, m.a. frá Guðmundi Gunnarssyni hjá Iðntæknistofnun. Hann lýsti því nákvæmlega hvernig hann liti á vetnishugmyndir Íslendinga, hvað hann teldi hagkvæmast ef við hugsuðum okkur að nýta þá orku sem við hefðum og í hvað hún væri heppilegust. Hann sagði að þá væri vetnisframleiðslan mjög dýr kostur, það væri ekki hægt að geyma vetni sem slíkt heldur þyrfti að breyta því í metanól, og einnig það væri mjög dýr framleiðsla. Það kostar 11 kílóvött að framleiða eitt tonn af þessu metanóli en 13,5 kílóvött fara í að framleiða eitt tonn af áli. Verðmunurinn er tífaldur, þ.e. 150 dollarar fyrir metanól og 1.500 fyrir álið. Í því fólst þessi umræða, og engu öðru.

Ég ætla aftur á móti ekki að vera með neitt svartagallsraus. Ég er fyrst og fremst að ræða um það sem hefur komið fram hjá fræðimönnum. Ég er ekki að finna þetta upp sjálfur.