2001-11-19 17:04:59# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil meina að það sé bæði önugt og öfugsnúið að þurfa að kalla losunarkvóta auðlind. Ég vildi gjarnan að við gætum kallað hann eitthvað annað. Mér finnst eðlilegt að kalla vatnsorkuna og árnar okkar auðlind og loftið er auðvitað auðlind. Og það sem náttúran hefur látið okkur í té er auðlind. En mér finnst önugt og öfugsnúið að þurfa að kalla losunarheimildir, sem settar verða á einhvern alþjóðlegan markað og boðnar upp þar, auðlind.

Á hinn bóginn ítreka ég það sem ég hef áður sagt og sagði hér í fyrra andsvari mínu. Ég er auðvitað tilbúin til að líta á þennan markað sem staðreynd og alveg hreint eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur verið tilbúin til að skoða auðlindir fiskimiðanna á þessum nótum, að fyrir kæmi einhvers konar gjald, þá erum við líka tilbúin til að skoða þá möguleika að þessar losunarauðlindir verði skoðaðar á sömu nótum. En frekar mundi ég samt vilja, herra forseti, að slíkar losunarheimildir yrðu flokkaðar sem eitthvað annað, því þetta er í öllu falli ekki náttúruleg auðlind.