2001-11-19 17:27:26# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. hafi nú upplýst að gagnrýni hans og flokks hans lýtur ekki bara að þessari undirskrift. Hann hélt núna ræðu þar sem hann var á móti því, eins og ég skildi hana, að við skyldum hafa verið að biðja um, eins og hann kallar það, ,,sérstakar heimildir til mengunar``. Það er rétt. Við vorum að biðja um sérstakar heimildir til losunar til þess að geta nýtt orku okkar. Um það snýst málið. Og nú hefur hann upplýst að flokkur hans sé á móti því, eins og ég skil það. Ég er ekki að reyna að snúa út úr, ég er bara að reyna að skilja hvað hv. þm. er að fara. En hann sagði í fyrri ræðu sinni að það væru fyrst og fremst vinnubrögðin í kringum þetta og þessi undirskrift sem hans flokkur hefði verið á móti.

Það liggur alveg augljóst fyrir að það er allt annað að eiga við þessi mál þegar um stærri framkvæmdir er að ræða í litlu hagkerfi heldur en stóru. Ætli það sé ekki erfiðara að leysa slík mál inni í hagkerfi sem er með 0,016% eða hagkerfi sem er með rúm 27% eins og Evrópusambandið? Eru það einhverjar reiknikúnstir? Það eru engar reiknikúnstir. Það eru bara einfaldar staðreyndir. Og það er fyrir þessu sem við höfum fengið skilning. Við höfum fengið skilning fyrir þessu á alþjóðavettvangi. Hv. þm. kallar það reiknikúnstir.

Ég hef rætt við afskaplega marga um þetta mál. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann nota þetta orð. Þeir hafa skilið að það er erfitt fyrir lítið hagkerfi að hreyfa sig við þessar aðstæður. Þess vegna varðar málið möguleika og réttindi Íslendinga til að nýta sínar eigin auðlindir. Þess vegna er það sjálfstæðismál, og góð niðurstaða hefur fengist í þessu máli þrátt fyrir andstöðu hv. þm.