2001-11-19 17:29:29# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég gagnrýni hæstv. utanrrh. fyrir notkun á prósentutölum, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur líka gert, því það er auðvitað villandi að flagga þessum prósentutölum á þann hátt sem hæstv. utanrrh. hefur gert og flýja um leið frá hinni siðferðilegu ábyrgð því það höfum við verið að gera í öllu þessu ferli.

Ég minni á að ekki er hægt að segja annað en að afskaplega miklir vankantar hafi verið á þessu íslenska undanþáguákvæði. Það gefur óneitanlega fordæmi, og það slæmt fordæmi. Við Íslendingar höfum viljað ganga á undan með góðu fordæmi í samskiptum þjóða.

[17:30]

Ísland er ríkt land og á þann möguleika, eins og önnur rík lönd, að kaupa sér losunarheimildir. Það eru sveigjanleikaákvæði í samningnum sem hefðu getað heimilað Íslandi slíkt ef Ísland hefði viljað það, ef Ísland vill bjóða heim þeirri mengandi stóriðju sem hér er verið að fjalla um öðrum þræði.

Það er líka hægt að gagnrýna þetta ákvæði fyrir að vera framleiðslustyrkur og meðgjöf með stóriðju á Íslandi. Verið er að mismuna iðnaði í landinu. Þetta er sannarlega ókostur við ákvæðið, ekki er hægt að deila um það og til þess fallið að lækka verð á áli, ef það er það sem vakir fyrir ríkisstjórn Íslands. Það er líka umdeilanlegt. Ættum við ekki frekar að beita okkur á alþjóðavettvangi til að hætta álframleiðslu og efla frekar þær tilraunir sem eru í gangi við að fá annað efni betra sem er hægt að framleiða án þeirrar gífurlegu mengunar sem framleiðsla áls útheimtir?

Það að ganga á undan með góðu fordæmi er allt annað en það fordæmi sem íslensk stjórnvöld sýna með því að gerast laumufarþegar, með því að ,,teika`` eins og krakkarnir segja. Í þessu samkomulagi er Ísland bara frífarþegi. Það er það sem íslenska undanþáguákvæðið gerir, heimilar Íslandi að vera frífarþegi í þessari alþjóðlegu hringekju.