2001-11-19 17:33:56# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum ekki að bíða, við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar. Við höfum yfir að ráða mikilli þekkingu, gífurlega miklu hugviti og við höfum getað státað af vísindamönnum á sviði t.d. vetnisframleiðslu. Mér fannst hæstv. umhvrh. gera í ræðu sinni lítið úr því fólki sem stendur fremst í veröldinni í þeirri grein.

Við höfum sannarlega ekki þurft að bíða eftir einu eða neinu heldur ættum við að geta gengið hér á undan með góðu fordæmi. Og með því að gera ál ódýrt hvetur hæstv. utanrrh. til framleiðslu bíla, einkabíla. Með því er hann ekki að hvetja til almenningssamgangna sem eru orkusparandi. Hann er að hvetja til þess að við framleiðum fleiri bíla til að meira verði mengað. Við getum látið þetta mál vinda endalaust upp á sig og við getum endalaust deilt um það hvort Íslendingar hafi gengið hér á undan með góðu fordæmi eða ekki.

Hæstv. utanrrh. skammar mig fyrir að kalla Íslendinga laumufarþega í þessu öllu saman. Ég spyr á móti: Hvar eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um orkusparnað, hvar er orkusparnaðaráætlunin okkar? Ætlum við bara að eyða og sóa orku en ekki að gera neina áætlun um orkunýtingu eða orkusparnað? Hvernig getur hæstv. utanrrh. haldið því fram að vatnsaflsvirkjun, sem byggir á stóru uppistöðulóni sem fyllist á einhverjum tilteknum tíma, framleiði endurnýjanlega orku? Það getur hæstv. utanrrh. ekki gert, orka framleidd á þennan hátt er ekki endurnýjanleg. Orkuverið er forgengilegt og því verður ekki á móti mælt.

Þess vegna er mér fullkomlega heimilt að gagnrýna þessa notkun stjórnvalda á orðunum endurnýjanlegar orkuauðlindir. Og varðandi jarðvarmavirkjanirnar talaði ég um þær sem umhverfisvænni í því tilliti að ef við erum búin að virkja jarðvarma getum við fjarlægt slíka virkjun án þess að nokkur ummerki sjáist sem heitið geti í náttúrunni. Það getum við aldrei gert með risastórar virkjanir sem byggja á risastórum uppistöðulónum.