2001-11-19 18:17:21# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka þá skýrslu sem hæstv. umhvrh. hefur lagt hér fram og er til umræðu, um niðurstöðu 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Mig langar líka eins og aðra að nota þetta tækifæri og óska hæstv. ráðherra og öðrum sem unnið hafa að þessu máli, þessu þýðingarmikla hagsmunamáli, til hamingju með góðan árangur. Eins og fram kemur í skýrslunni er þessi árangur mörgum að þakka og ljóst er að hann náðist með markvissu og samstilltu átaki og vinnu margra, bæði ráðherra og embættismanna umhvrn., utanrrn., iðn.- og viðskrn. og forsrn. Ástæða þess að ég byrja á hamingjuóskum og þökkum er fyrst og fremst sú að af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur lengi verið unnið að því, ljóst og leynt, að gera þessa vinnu tortryggilega og gera lítið úr þeim sem hafa verið að reyna að tryggja þá miklu hagsmuni sem í húfi eru.

Þeir hagsmunir eru annars vegar að tryggja að Ísland sé þátttakandi í samstarfi þjóða heimsins í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir háskalegar loftslagsbreytingar af mannavöldum, geti fullgilt samninginn og axli ásamt öðrum ábyrgð á þeim hluta umhverfisvanda heimsins sem stafar af loftslagsbreytingum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Hins vegar voru að veði hagsmunir okkar sem smáþjóðar og lítils hagkerfis af því að geta nýtt náttúrulega og endurnýjanlega orkugjafa okkar þó að það valdi staðbundinni aukningu á losun koldíoxíðs. Þessa hagsmuni og ávinning okkar af íslenska ákvæðinu svokallaða hafa fræði- og vísindamenn metið til ekki minna en 8 milljarða kr. verðmætis fyrir þjóðarbúið. Það munar sannarlega um minna að mati allra þeirra sem gera sér grein fyrir því að það þarf að afla til að eyða.

Nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn eiga þann vafasama heiður að hafa verið í fararbroddi í því að vinna gegn þessum ríku hagsmunum þjóðarbúsins, að geta nýtt sér náttúrulegar auðlindir okkar, með því að reyna að gera vinnuna tortryggilega og að gera lítið úr þeim sem harðast hafa unnið að því að tryggja hagsmuni okkar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur að vanda tekið stórt upp í sig í opinberri umræðu og lítið sparað í ónefnum og kallað menn bæði klaufa og umhverfissóða. Innihaldslítil reynast þau orð þegar upp er staðið en nú vill hv. þm., formaður Samfylkingarinnar, leggja gjald á þær auðlindir sem íslenska ákvæðið tryggir okkur yfirráðarétt yfir.

Ef menn vilja og leggja sig fram lánast þeim að draga upp mjög þrönga en um leið villandi mynd af stöðu okkar Íslendinga í umhverfismálum. Málflutningurinn snýst oft eingöngu um magntölur í tonnum og prósentum losunarefna, og teknar úr öllu samhengi við heildarmyndina geta þær auðvitað hljómað ógnvænlegar. Sem dæmi um það er fyrirspurn hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur á dögunum til hæstv. umhvrh. er hv. þm. spurði ráðherrann um það, með leyfi forseta:

,,Hversu mikla aukningu á losun í prósentum talið heimilar íslenska ákvæðið sem nú er búið að samþykkja og bindingarákvæði samkomulagsins Íslendingum?``

Gagnsemi íslenska ákvæðisins fyrir íslenska hagsmuni og þjóðarbúið lét hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitaskuld liggja á milli hluta þó að hún viðurkenni nú auknar losunarheimildir sem auðlind, alveg eins og þá staðreynd sem hún lét líka liggja á milli hluta að á sama tíma og ákveðin verkefni hér hafa mikil áhrif á heildarlosun frá Íslandi hafa þau hnattrænt áhrif til lækkunar á losun gróðurhúsalofttegunda, eins og hæstv. umhvrh. hefur svo vel gert grein fyrir.

Auðvitað fékk þingmaðurinn rétt og skilmerkilegt svar við þessari spurningu í tonnum og prósentum en hvorki spurningin né beint svar við henni gefa neina rétta eða heildstæða mynd af stöðu okkar Íslendinga í umhverfismálum almennt. Og það er rétt að draga upp víðari mynd af þeirri stöðu, sérstaklega með tilliti til ríkra hagsmuna okkar af hreinni ímynd landsins fyrir útflutningsatvinnuvegina, m.a. fiskútflutninginn og ferðamannaþjónustuna.

Herra forseti. Megindrættirnir í myndinni eru þessir: Í fyrsta lagi snýst alþjóðleg umræða um loftslagsbreytingar fyrst og fremst um orkubúskap og mismunandi leiðir til að fullnægja orkuþörf ríkja og samfélaga en sú þörf fer stöðugt vaxandi, jafnt hvort litið er til heimila, atvinnulífs eða samgangna.

Í öðru lagi er notkun jarðefnaeldsneytis, bruni olíu og kola með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda, stærsta rót vandans sem alþjóðasamfélagið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er að bregðast við, og viðleitnin er öll í þá átt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis en í þess stað verði notaðir endurnýjanlegir orkugjafar, annaðhvort beint eða til framleiðslu eldsneytis eins og vetnis.

Í þriðja lagi felst sérstaða okkar og grundvöllur ímyndarinnar um hreinleika landsins í því að 99% af raforkuframleiðslu byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsorku og jarðvarma, og þeir fullnægja 70% frumorkuþarfar okkar.

Í fjórða lagi þurfum við, vegna þeirra náttúrulegu auðlinda auk annars, ekki að nýta kjarnorku eins og svo margar aðrar þjóðir verða að gera til að takmarka losun sína á gróðurhúsalofttegundum með tilheyrandi hættu á stórhættulegum umhverfisslysum og hnattrænum vandamálum vegna losunar kjarnorkuúrgangs.

Loks er vert að halda því á lofti að við getum, vegna reynslu okkar og þeirrar miklu þekkingar sem hér hefur byggst upp á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa, verið í fararbroddi þjóða á þessu sviði og miðlað og kennt öðrum þjóðum sem búa við ónýtta möguleika. Á þann hátt leggjum við einnig hnattrænt okkar af mörkum til umhverfismála og skipum okkur áfram í fremstu röð á sviði umhverfisverndar.