2001-11-19 18:29:41# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að leiðrétta það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að þarna opnuðust fyrir okkur einhver tækifæri til að selja losunarkvóta vegna þess að í skýrslu hæstv. umhvrh. segir beinlínis að ákvörðunin loki fyrir að Ísland geti selt losunarheimildir frá sér til annarra landa, svo ég leiðrétti það til að byrja með.

[18:30]

Hins vegar hefur það komið mjög skýrt fram, ekki bara í mínu máli heldur annarra líka, að sú staðreynd að Ísland fái aukinn losunarkvóta hafi hnattrænt gildi og það er akkúrat það sem öll þessi alþjóðlega samvinna gengur út á, þ.e. að líta á málefnið umhverfisverndarmál hnattrænt, ekki út frá einstökum löndum. Það að við fáum aukinn losunarkvóta leiðir hnattrænt til lækkunar á losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að hér búum við að endurnýjanlegri orku sem hægt er að nýta í stað þess að álver og annað væri rekið með kolum og olíu annars staðar. Í mínum huga er þetta ósköp ljóst. Þetta er spurningin um að axla ábyrgð sína í samfélagi þjóðanna og um það verður ekki deilt að um miklu minni losun gróðurhúsalofttegunda er að ræða af til að mynda álveri hér heldur en í álverum sem rekin eru með orku frá kolum og olíu.