2001-11-19 18:31:14# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að byrja aðeins á því að fara yfir hvað er í húfi í sambandi við núverandi upplýsingar og mat færustu sérfræðinga á gróðurhúsaáhrifum, hækkuðu hitastigi á jörðinni og afleiðingum þess ef ekki tekst að koma böndum á þá þróun. Við skulum ekki láta það alveg gleymast í umræðunni að hér hangir dálítið á spýtunni. Þetta er ekki bara spurning um það, þó að við Íslendingar séum stundum ákaflega nærri sjálfum okkur þegar við ræðum svona hluti, hvort Ísland geti reist eitt eða tvö eða þrjú álver í viðbót án þess að þurfa að leggja neitt af mörkum í þessu hnattræna sambandi eða ekki.

Staðreyndin er sú að á síðustu fimm til tíu árum eða svo hafa hugmyndir manna, sem að vísu eru 20--30 ára gamlar frá því í byrjun um að í óefni stefndi vegna iðnaðarmengunar í lofthjúpi jarðarinnar, verið að þróast mjög hratt og nú er svo komið að jafnvel fimm ára gamlar, svo ekki sé nú talað um tíu ára eða 20 ára gamlar hugmyndir um hversu stórfelldar afleiðingar þessa geti orðið, eru algjörlega úreltar. Nýjustu upplýsingar gera ráð fyrir því, og þar vitna ég m.a. til loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, að afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna verði miklum mun stórfelldari og nær okkur í tíma en áður var talið.

Fyrir um 20 árum voru fyrstu hugmyndir manna um þetta þær að hugsanlega yrðu einhver staðbundin áhrif af þessu vegna meiri óreglu í veðurfari og hitastig á jörðinni kynni að hækka um jafnvel allt að hálfri gráðu, mögulega einni gráðu sögðu þeir sem voru allra róttækastir í sínum kenningum.

Fyrir um fimm árum voru menn búnir að endurmeta þetta upp í að jafnvel gæti þessi hækkun hitastigs orðið ein til tvær gráður. Og nú er svo komið að menn telja á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga að um svo stórfelldar breytingar geti orðið að ræða, eða allt að fjögurra til fimm gráðu hlýnunar á jörðinni, að við þekkjum engar hliðstæður þess. Jafnvel svæðisbundnar sveiflur tengdar ísöldum höfðu ekki sömu hnattrænu áhrif þegar meðalhitastig hnattarins í heild er tekið.

Afleiðingarnar verða auðvitað hrikalegar. Þær birtast í því að t.d. mun vatnsbúskapur raskast gríðarlega, veðurfar breytast, þurrkar verða algengari, fimbulkuldar einnig, þannig að öfugt við það sem ætla mætti að um verði að ræða almenna hlýnun lofthjúpsins og yfirborðshita á jörðinni þá verður óreglan til svo mikilla muna meiri að veðurfarið verður miklum mun óútreiknanlegra en áður.

Fyrir land eins og Ísland sem er á mörkum hins byggilega heims, býr við jökla, eða Kyrrahafseyþjóðirnar sem eru 1--2 metra yfir sjávarmáli í besta falli sumar, geta afleiðingarnar orðið svo svakalegar að í reynd snýst spurningin um hvort þessi lönd verða byggjanleg eða ekki.

Margt bendir til þess nú þegar að gróðurhúsaáhrifanna sé farið að gæta, t.d. í hafstraumum í kringum Ísland. Mjög ískyggilegar upplýsingar komu t.d. fram um hvernig flæði sjávar gegnum Færeyjalægðina frá Norður-Atlantshafinu eða Íshafinu og suður á bóginn hefur breyst á liðnum árum, og þar fram eftir götunum, herra forseti. Upplýsingarnar hellast yfir okkur úr öllum áttum og vísbendingarnar ganga nær allar í sömu átt. Því miður eru alltaf að koma fram veigameiri rök fyrir því að taka þennan vanda alvarlega og jafnvel þó að menn teldu mikla vísindalega óvissu enn á ferðinni um útkomuna væri nú meira en lítið ábyrgðarleysi að reyna ekki að aðhafast eitthvað.

Þetta hefur leitt til þess að jafnvel þær þjóðir sem tregastar hafa verið í taumi, lengst hafa þvælst fyrir og dregið lappirnar, eins og Bandaríkjamenn, eru hættar að neita því að hér sé alvara á ferðum. Þær fást hins vegar ekki til þess að taka þátt í neinum aðgerðum en það er önnur saga.

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við eitt atriði í skýrslunni, sem að mörgu leyti er ágæt en þó gildishlaðin á köflum, og það er hvernig vikið er að þróunarríkjunum. Ég vísa í því sambandi t.d. til bls. 3 þar sem fjallað er um það að aðeins 42 ríki af þeim 84 sem undirrituðu Kyoto-bókunina hafi nú fullgilt hana og það séu fyrst og fremst þróunarríki sem ekki taki á sig skuldbindingar í bókuninni. Hins vegar hafi ekkert OECD-ríki enn séð sér fært að fullgilda bókunina. Ég vísa einnig til þess sem hæstv. umhvrh. sagði í máli sínu.

Mér finnst billegt að nálgast vandamálin með þessum hætti og láta í reynd að því liggja að það hafi skort sérstaklega upp á að þróunarríkin væru þátttakendur í þessu ferli. Bíðum nú við, hverjir losa mest af gróðurhúsalofttegundum í heiminum? Og er það nú ekki staðreyndin að iðnaðarmengun heimsins og iðnvæðingin í heiminum sé í svo gjörsamlega yfirgnæfandi meiri hluta hjá hinum þróuðu ríkjum að það að fjalla um þróunarríkin sem sérstakt vandamál í þessu sambandi er bæði tölfræðilega út í hött, því að þau skipta svo litlu máli, og líka siðferðilega mjög ósanngjarnt vegna þess að það er auðvitað alveg ljóst að til þess að þróunarlöndin geti eitthvað byggt upp innviði sína og bætt lífskjör sín þá hlýtur það auðvitað að kalla á að þau geti örlítið lyft sinni losun í áttina að því gríðarlega magni sem iðnríkin losa? Eða ætlumst við til þess að þau með núverandi lífskjör sín axli sérstaklega byrðar í þessu sambandi?

Nei, það er auðvitað ástæðan fyrir því að menn sáu strax að það er hjá þeim ríkjum sem fyrst og fremst losa að taka þarf á málunum ef menn ætla að ná árangri, þ.e. Bandaríkjunum sem eru með 35% eða þar um bil, Evrópusambandinu með 24%, Japan, Rússlandi o.s.frv. Þar liggur vandinn. Það eru þessar þjóðir sem hafa mengað heiminn og notið í staðinn góðra lífskjara á grundvelli iðnvæðingar sinnar. Hins vegar verða þróunarríkin aðallega fórnarlömbin vegna þess að þau eru háð landbúnaði, eiga allt undir veðri og vindum í miklu ríkari mæli en hin iðnvæddu og orkuvæddu samfélög Vesturlandanna. Ég hefði því viljað sjá þarna fjallað af meiri skilningi og meiri samúð með málstað þróunarríkjanna en mér finnst koma fram í þessum línum. Það er kannski ástæðulaust að túlka þær þannig en mér fannst því miður að greina mætti svipuð viðhorf í ræðu hæstv. ráðherra. Það mundi gleðja mig mjög ef í ljós kæmi að þetta væri allt á misskilningi byggt og þessa setningu bæri alls ekki að túlka á þann veg að þróunarríkin hefðu þarna verið til trafala á nokkurn hátt.

Þá að hinu íslenska ákvæði, herra forseti, að stóriðjuundanþáguákvæði Íslendinga. Það er auðvitað sérkennilegt, og ég endurtek það, að heyra hæstv. umhvrh. koma hér sem alveg sérstakan talsmann aukinnar stóriðju. Ég mundi skilja það hvað iðnrh. varðar og allir vita um ást hæstv. utanrrh. á áli. En það er sérkennilegt að umhverfisráðherra Íslands skuli koma fram sem alveg sérstakur talsmaður glórulausrar stóriðjustefnu og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, fagna því alveg sérstaklega að niðurstaðan feli í sér að hægt verði að auka losunina alveg gífurlega á Íslandi án skuldbindinga. Ég gagnrýni það. Mér finnst að umhvrh. eigi, hvað sem stefnu ríkisstjórnarinnar líður, að muna eftir því að það eru önnur og veigamikil sjónarmið í þessu máli en þau ein sem lúta að því að hægt sé að byggja álver við hvert hús í landinu næstum að segja.

Staðreyndin er sú varðandi reiknikúnstirnar um að það sé sérstaklega umhverfisvænt að Ísland fái undanþágu fyrir stóraukinni losun á sinn mælikvarða hlutfallslega, 50% eða svo, að það skiptir engu máli hvort við erum 300 þúsund eða 3 milljónir í þessu samhengi. Við erum að ræða um siðferðilega stöðu. Losunin á Íslandi er nú þegar á hvern mann u.þ.b. jafnmikil og hún er að meðaltali í iðnríkjunum ef ekki meiri og stefnir hraðbyri upp á við og það er ljóst að innan fárra ára verður Ísland heimsmeistari. Hér verður losað meira af gróðurhúsalofttegundum á hvern íbúa heldur en nokkurs staðar á byggðu bóli ef svo heldur fram sem horfir, innan fárra ára. Því er ekki hægt að setja þetta mál í það samhengi að það halli sérstaklega á Ísland í þeim efnum, að við séum ekki iðnvædd þjóð eins og hæstv. utanrrh. var hér að segja. Við notum mjög mikla orku nú þegar. Við erum ein mesta bílaþjóð heimsins og við rekum gríðarstóran flota sem notar mikið af jarðefnaeldsneyti. Þrátt fyrir að við kyndum hús okkar með innlendri orku og þrátt fyrir að við erum ekki gömul iðnvæðingarþjóð þá notum við mjög mikla orku. Við erum líka að verða ein af helstu stóriðjuþjóðum heimsins.

Hæstv. umhvrh. fór hér með tölur um það hversu geysilega umhverfisvænt það væri í hnattrænu samhengi að Ísland hafi fengið undanþágu til að auka losun hér um 50% utan kvóta. Þetta dæmi gefur sér forsendur sem eru villandi. Ég segi það. Þetta tekur Ísland út úr samhengi Vesturlanda, út úr samhengi OECD-þjóða, út úr samhengi þeirra þróuðu ríkja sem eru bundin af Kyoto. Og setur Ísland hvert? Jú, til þess að dæmi og reikningar umhvrh. gangi upp þarf Ísland að þessu leyti að vera í hópi þróunarríkjanna. Og eingöngu ef álverin rísa í þróunarríkjunum og rafmagnið er framleitt með jarðefnaeldsneyti og orkuframleiðslan losar gróðurhúsaloft gengur dæmið upp. Það þarf ekki annað til en að vatnsaflsvirkjun í þróunarríki framleiði orkuna til álversins, þá er enginn hnattrænn ávinningur af því að þá sléttast orkuþátturinn út. Hvernig snýr þá dæmið? Þá snýr það þannig að það er þá bara álframleiðslan sem slík sem losar.

Ef hins vegar eru borin saman Ísland annars vegar og eitthvert iðnríkjanna eða þróuðu landanna sem bundin eru af Kyoto, t.d. með núllþak miðað við 1990, hvernig lítur dæmið þá út? Þá lítur dæmið þannig út að á Íslandi verður ekki keyptur kvóti vegna álframleiðslunnar en það þyrfti að gera í hinum löndunum. Og þá er hnattrænn ávinningur mínus losunin frá álverinu. Svona er þetta. Ég bið menn að koma og hrekja það ef þetta er einhvern veginn öðruvísi.

Að halda því fram að Ísland hefði ekki getað nýtt orku sína þó að þessi mikla undanþága hefði ekki fengist er rangt vegna þess að um er að ræða alþjóðlegan markað með losunarheimildir. Það sem þetta þýddi var þá það að stóriðjufyrirtæki sem ætluðu að setja sig niður hér frekar en í Kanada eða í Þýskalandi þurftu í báðum tilvikum að kaupa losunarheimildir ef þau voru undir því þaki sem þarna var sett. Þetta fer því allt eftir því hvaða forsendur menn gefa sér í dæminu. (Gripið fram í: Eins og í öllu.) Það er ekki hægt að fegra málin með þeim hætti sem hæstv. umhvrh. er að reyna að gera hér.

Ef það er svo að þetta snúist um grundvallarrétt Íslendinga til að nýta auðlindir sínar og að án undanþágna munum við ekki geta notað orkuna, hvers vegna er þá þak? Þurfti þá ekki bara að hafa þetta án þaks?

Nei, staðreyndin er auðvitað sú að þessi undanþága er klæðskerasaumuð við þau stóriðjuáform sem ríkisstjórnin er að reyna að troða hér í gegn með sínum mengandi virkjunum, með Kárahnjúkavirkjun og með Þjórsárverum undir. Hæstv. utanrrh. viðurkenndi það hér. Hann taldi upp virkjanirnar. Hann taldi upp stóriðjufyrirtækin. Hann sagði: ,,Þetta er stækkun Norðuráls, þetta er járnblendið, þetta er Reyðarál.`` Og þá er kvótinn búinn. (Gripið fram í: Nei.) Kannski verður eitthvað eftir í stækkun í Straumsvík eða fyrir eina litla farbrikku einhvers staðar fyrir hæstv. iðnrh. Kannski fá Rússarnir, lýðræðissinnarnir og friðarpostularnir sem hæstv. ráðherra hefur verið í sambandi við þar. (Gripið fram í.)

Svo kemur að því að þetta undanþáguákvæði virðist eiga að nota í forgjöf, í meðgjöf til núverandi stóriðjuáforma sem ríkisstjórnin er að reyna að koma hér fram, klára það þannig, og láta svo íslenskt atvinnulíf að öðru leyti og framtíðina glíma við að mæta skuldbindingum Íslands.

[18:45]

Þá kem ég að því, herra forseti, sem er auðvitað ákaflega alvarlegt mál, að Ísland er eitt fárra landa á Vesturlöndum sem ekkert er að gera til að taka á málunum heima hjá sér. Þróunin á Íslandi hvað varðar aukningu á losun í almennu atvinnulífi er skelfileg. Hvernig er ástandið í flotanum? Það er engin orkusparnaðarpólitík rekin í íslenskum sjávarútvegi. Fiskveiðistefnan er blind á þetta, enginn greinarmunur er gerður á hversu mikla orku þarf til að sækja fiskinn. Og í almennum iðnaði er verðlagning á raforku þannig --- þessari vistvænu raforku sem hæstv. ráðherrar muna eftir þegar þeir eru komnir til útlanda --- að innlendur iðnaður er að flýja úr rafmagni yfir í olíu í stórum stíl og hefur verið að gera undanfarin missiri. Það heyrir til undantekninga að gufa sé framleidd lengur á Íslandi nema með svartolíu. Hún er ekki framleidd með rafskautskötlum. Farið er að elda á gasi ég held bara í öllum veitingahúsum landsins. Og í margs konar iðnaðarstarfsemi eru menn að færa sig yfir í olíu. Þannig er nú ástandið og ekkert er verið að gera í þessum efnum. Svo koma menn hér og tala innblásnir um það, eins og hæstv. ráðherrar hafa gert, hversu mikið menn séu að færa fram til þágu umhverfismála heimsins með framgöngu sinni í þessum efnum.

En hvað er verið að gera í bakgarðinum? Er verið að taka til heima hjá sér? Það er nú ekki svo, herra forseti.