2001-11-19 18:55:06# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Hér hefur átt sér stað ágæt umræða um það mál sem við ræðum hér. Mér þykir þó hv. 3. þm. Norðurl. e. vera óvenjulega pirraður í dag einhverra hluta vegna. (SJS: Þú skalt ekki hafa áhyggjur af því sem alltaf ert í ...) Hins vegar var það mikill gleðidagur þegar umhvrh. kom frá Marrakesh vegna þess að það var vissulega áhyggjuefni margra stjórnmálamanna hér hvernig þau mál þróuðust, en ég tel að fyrrv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason og núv. hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir, hafi haldið mjög vel á þessum málum sem eru hér til umræðu í dag og hafi gætt hagsmuna Íslands í hvívetna og þá um leið hagsmuna heimsins og auðvitað er það skylda ráðherra okkar að gæta hagsmuna Íslands fyrir hönd þjóðarinnar. Þess vegna finnst mér full ástæða til að þakka umhvrh. fyrir skýrsluna og röggsama framgöngu í málinu ásamt því góða fólki sem í sendinefndinni var.

Eins og margoft hefur komið hér fram er um hnattrænan ávinning að ræða. Sérstaða Íslands hefur notið skilnings því að hún er auðvitað mikil og ég kem að því máli síðar. Hér er um mjög jákvætt skref að ræða, skref á langri leið, og í rauninni er komin niðurstaða í þetta mál en við eigum eftir hins vegar að fullgilda Kyoto-samninginn.

Við búum í nútímasamfélagi sem hefur auðvitað sína kosti og galla líka. Við Íslendingar gerum mjög miklar kröfur til lífsins og til að geta uppfyllt þær kröfur verðum við að skapa tekjur til að standa undir velferðinni, menningunni, menntuninni, samgöngum, tæknivæðingu o.s.frv. Það eiga sér stað gríðarlegar breytingar hér á landi eins og reyndar víðast í heiminum og við höfum valið að taka þátt í því lífsgæðakapphlaupi og nýta þá möguleika sem við höfum.

Við ræðum hér og höfum rætt um það sem ég get alveg verið sammála um að við eigum að gæta vel að þeirri orku sem við eigum og við eigum að nýta hana sem best. Oft er talað um að við Íslendingar hugsum ekki nægilega um það, af því að við eigum mikið af vatni og af því að við getum framleitt mikið af rafmagni o.s.frv. þá förum við ekki nægilega vel með þessi hráefni, og ég get alveg tekið undir það. Ég get líka alveg tekið undir með hv. 3. þm. Norðurl. e. að það er alveg sama um hvað við ræðum, það fer allt eftir þeim forsendum sem við gefum okkur. Það eru auðvitað staðreyndir. Og ég get tekið undir með hv. 17. þm. Reykv. að við eigum að kappkosta að reyna að minnka notkun á einkabílum, það er ein af þessum siðferðislegu skyldum okkar, og við eigum að reyna að nýta betur almenningssamgöngur en við gerum og við verðum að skapa umhverfi til þess. Um þetta erum við sammála. Einnig er alveg rétt sem kom fram hjá hv. 17. þm. Reykv., Kolbrúnu Halldórsdóttur, að auðvitað eigum við að reyna að horfa á einhver önnur efni, eins og hún orðaði það, en ál. En álið er það efni sem er notað í iðnaðarframleiðslu í dag, afar vinsælt, og það hefur eins og allt annað sína kosti og galla.

Ég hjó eftir því að þegar hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði um þá sem menguðu mest í heiminum þá sleppti hann nú gömlu félögum sínum í austurátt. Hann talaði ekkert um Rússland (Gripið fram í: Jú.) og hann talaði ekkert um Tékkóslóvakíu og þar fram eftir götum. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli, þetta er svona sparðatíningur eins og gengur og gerist. En það er eins og hv. þm. vilji gleyma uppruna sínum og minnist lítið á þá ágætu menn sem þar menguðu gríðarlega mikið.

[19:00]

Ég ætla ekki að fara yfir öll gífuryrði stjórnarandstöðunnar áður en til þessa samkomulags kom. Við höfum verið að ræða það í dag. Það hefur verið talað um dragbíta og ýmislegt fleira. Mér finnst í raun ekki nein ástæða til að vera að rifja það upp frekar en gert hefur verið. Líka þetta sem ég benti á í andsvari í dag, að fyrsta mál Samfylkingarinnar eftir að þeir höfðu stofnað samtök sín var einmitt þáltill. um að þegar í stað bæri að undirrita Kyoto-samkomulagið. Þegar við fórum að ræða um það betur og nánar þá spurðum við m.a. hvað þeir hv. þm. sem þáltill. báru fram vildu gera varðandi magnesíumverksmiðju á Reykjanesi. Þá var auðvitað býsna lítið um svör.

En ... (Gripið fram í: Hvar er hún núna?) Hv. 3. þm. Norðurl. e. er búinn að tala heilmikið í dag en honum nægir yfirleitt ekki, herra forseti, sá tími sem hann hefur. Það eru 15 mínútur sem hver þingmaður hefur. Hv. þm. hefur tekið þátt í andsvörum hér og síðan gjammað fram í eins og hann gerir svo gjarnan, herra forseti.

Í umræðum um þessi mál finnst mér oft gleymast að Ísland hefur svo sannarlega lagt mjög mikið af mörkum í nýtingu á umhverfisvænum orkugjöfum. Við erum auðvitað komin mikið lengra en aðrar þjóðir í því og við getum verið stolt af því. Það er alltaf hægt að gera betur en við getum verið stolt af því. Við eigum að halda því á lofti og það er kannski þess vegna sem viðhorf Íslands hafa notið skilnings á erlendum vettvangi. Hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði um Norðurlöndin í þessum efnum. Þegar þingmenn hafa hins vegar verið að skýra út á hvern hátt við nýtum orkuna sem við höfum hér, t.d. heita vatnið, þá finnst mér augu þingmanna á Norðurlöndum hafa opnast hvað þetta varðar.

Ég minni líka á að ég sat ráðstefnu Norðurlandaráðs og Benelúx-landanna þar sem þessi mál voru rædd. Þegar þessi mál eru útskýrð þá skilja þessar þjóðir sérstöðu okkar Íslendinga. Það kemur fram í þeirri skýrslu sem hér er lögð fram að 99,9% af raforkuframleiðslu Íslendinga er endurnýjanleg orka. Það kemur fram að 70% af frumorkuþörfinni er endurnýjanleg orka og ég get tekið heils hugar undir það að við þurfum að gera betur í að koma í veg fyrir mengun varðandi olíu og þess háttar. Það getum við gert með samstilltu átaki og ég veit að hæstv. umhvrh. hefur fullan hug á því.

Einnig er ánægjulegt, það kemur fram hér í skýrslunni, að við eigum mikla möguleika í áframhaldandi landgræðslu á Íslandi. Við eigum þá stofnun sem er elst landgræðslustofnana í heiminum, þ.e. Landgræðslu ríkisins. Við eigum að stórauka landgræðslu hér á landi. Við eigum að stórauka skógrækt hér á landi. Við erum að stíga skref í rétta átt hvað þetta varðar og eigum að stefna að því að draga úr orkunotkun og fara vel með þá orku sem við framleiðum.

Ég kom fyrst og fremst í þennan ræðustól til þess að þakka þann árangur sem náðst hefur. Það skiptir íslenska þjóð miklu hvernig haldið hefur verið á þessu málum af hálfu umhvrh.