2001-11-19 19:08:10# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:08]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um að samfylkingarmenn hefðu engin svör átt þegar þeir voru spurðir í tengslum við þingmálið sem hv. þm. var að nefna. Hv. þm. hefur engin svör við því sem ég var að spyrja hann um. Ég spurði hann hvort hann hefði einhver rök fram að færa fyrir því að ekki hefði verið hægt að ná þessum árangri, þó að það hefði verið skrifað undir. Þau rök hafa ekki komið fram í dag. Ég auglýsi eftir þeim og mér finnst full ástæða til að menn vandi sig við að útskýra það fyrir okkur, úr því að við í Samfylkingunni og reyndar Vinstri grænir líka, höfum verið vænd um að hafa ekki viljað halda á hagsmunum Íslendinga og verið allt að því óþjóðleg í afstöðu okkar til þessara mála, vegna þess að við vildum að Kyoto-bókunin væri undirrituð.

Þetta er ekki mjög, ég veit ekki hvernig ég á að orða það, þetta var ekki mjög mannborulegt af hv. þm. að geta ekki komið með svör við þessu. Ég vona að hann bæti úr því í seinna andsvari sínu og geri það snöfurmannlega og vísi því ekki yfir á ráðherrann eins og hinu sem ég spurði hann um.