2001-11-19 19:12:37# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur er tilbúinn til að beita sér fyrir því að draga úr þessari losun. Ég taldi mig tala um það í ræðunni sem ég flutti áðan að okkur bæri að kappkosta að draga úr notkun á bílum og auka almenningssamgöngur. Við verðum líka að byggja þær þannig upp að þær séu hentugur kostur. Við búum að vísu í mjög stóru landi og það er erfitt en sérstaklega á þessu svæði, höfuðborgarsvæðinu, ættum við að geta staðið okkur betur í að nýta almenningssamgöngur og byggja þær þannig upp að neytendur sjái sér hag í að nýta sér þær.

Hafi ég ekki tekið rétt eftir, sem kann vel að vera, þá bið ég hv. þm. afsökunar á því. Ég hélt kannski að hv. þm. væri búinn að taka þetta út úr orðabók sinni, þ.e. Rússland og austantjaldsríkin. Ég held að þau hafi verið honum heldur kær, herra forseti, í eina tíð. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að það hefur dregið verulega úr losun í austantjaldsríkjunum, m.a. vegna þess hvernig fyrir þeim er komið efnahagslega. En það er einlægur vilji manna að aðstoða austantjaldsríkin í umhverfismálum frá fleiri forsendum. Ég endurtek að hafi ég tekið rangt eftir þá biðst ég afsökunar á því.