2001-11-19 19:16:48# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:16]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Kannski er það stríðni þess sem hér stendur að minnast örlítið á gömlu kommana. Ég er viss um að hv. þm. getur gengist undir það að hafa verið í stjórnmálaflokki á Íslandi sem var kallaður kommaflokkur. Hins vegar er ég líka viss um að hv. þm. var ekkert sérlega hrifinn af Stalín frekar en sá sem hér stendur og ýmsir aðrir þannig að þar sé öllu til skila haldið.

Hv. þm. sagði í ræðu sinni í dag að mönnum hætti til að mála hlutina í svörtum og hvítum litum. Hv. þm. gerir það gjarnan. Sjálfsagt er sá sem hér stendur líka sekur um það á stundum. Hv. þm. talaði einnig um það að sá sem hér stendur í ræðustól talaði langt fyrir utan efnið. Það kann vel að vera en ég er ekki frá því að það hendi fleiri þingmenn en þann sem hér talar.

Það hefur komið fram í umræðunni um álverksmiðjur að ef kol, olía eða þess háttar er nýtt verður margfalt meiri mengun en ef við notum endurnýjanlega orkugjafa eins og gert hefur verið á Íslandi og það er kannski þess vegna sem við höfum verið að ræða þessi mál. Það er auðvitað líka verið að ræða um stóriðju á Íslandi vegna þess að menn vilja efla efnahagskerfi þessarar þjóðar.

Ég hef oft sagt að við eigum að hugsa um fleira en stóriðju. Það er alveg ljóst en engu að síður höfum við notað mikla peninga, það er mikil reynsla í þessum efnum og þetta er vænlegur kostur á Austurlandi. Eftir að ég hef hitt þar sveitarstjórnarmenn hika ég ekki við að styðja stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi.