2001-11-19 19:32:57# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þann málflutning að segja að umhverfisvænt sé að reisa álver á Íslandi og nýta til þess undanþágu að auka losun gróðurhúsalofttegunda án þess að taka nokkurs staðar út kvóta á móti, þá verður að undirstrika það að þá aðeins er hægt að halda þessu fram að borið sé saman við álver í þróunarríki sem framleiðir rafmagnið með jarðefnaeldsneyti. Ef borið er saman við álver í þróunarríki þar sem um vatnsorku er að ræða, tökum t.d. Suður-Ameríku, þá er útkoman núll, þá er losunin úr álverinu utan kvóta í báðum tilvikum. Ef borið er saman við álver í þróuðu ríki, iðnríki sem er bundið af ákvæðum Kyoto-samningsins eru hnattrænu ákvæðin neikvæð um losun álversins því þá þarf ekki að kaupa út kvóta á Íslandi en þess þarf ef um væri að ræða eitt af ríkjunum sem bundin eru af samningunum.

Það sem er hins vegar rétt og er algerlega óháð Kyoto og hefur ekkert breyst er það að í hnattrænu samhengi er jákvætt að framleiða raforku á Íslandi, til hvers svo sem hún er notuð, með vatnsafli og jarðhita borið saman við að framleiða rafmagn með kolum eða olíu hvar sem það er gert í heiminum. Þetta er svo einfalt að það hljóta allir að skilja og þarf í rauninni ekki að þvæla Kyoto-dæminu inn í þetta. Ég held að það skýri ekki málið.

Ég bið ekki um annað en að hæstv. ráðherrar sem eru að reyna að tefla þessum jákvæðu hnattrænu umhverfisáhrifum inn í umræðuna geri það algerlega skýrt hvaða forsendur þeir verði að gefa sér til að dæmið gangi upp, og þær eru þessar.

Varðandi ál sem hæstv. iðnrh. ræddi um áðan, þá er það svo með álið að það hefur bæði kosti og galla í umhverfislegu tilliti. Gallarnir er þeir að það bindur gríðarlega orku í meðförum vinnslu úr báxíti eða hrááli yfir í ál og það losar gróðurhúsalofttegundir. Kosturinn er að það er auðvelt í endurvinnslu og það er létt.