2001-11-19 19:39:42# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil þessa umræðu og málflutning hv. þm. Vinstri grænna á þann veg að þeir vilji nota þennan alþjóðlega samning til að koma í veg fyrir að byggð séu álver á Íslandi og það segir mér að þeir vilji nota yfirþjóðlegt vald, vald annarra þjóða og samninga sem gerðir eru á milli þjóða til að hafa pólitísk áhrif á ákvarðanatöku á Íslandi vegna þess að þeir hafa ekki þá stöðu að geta haft áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda á Íslandi. Þetta er einfaldlega svona og er ekkert nýtt. Þetta er búið að vera rauði þráðurinn í gegnum þann málflutning allan tímann. Og ég minnist þá alveg sérstaklega málflutnings fyrrv. þm., Hjörleifs Guttormssonar, í því sambandi. Sem sagt að nota yfirþjóðlegt vald til þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku á Íslandi og mér finnst ekki vera mjög mikil reisn yfir þeim hugsunarhætti sem felst í því.

Við vitum líka að Hjörleifur Guttormsson barðist mjög gegn þessu. Hann fór mikið á fundi erlendis til að reyna að koma í veg fyrir að af þessu yrði og hið íslenska ákvæði næði fram að ganga. Það má alveg deila um hversu réttlátt í raun það er að stjórnarandstaðan skuli geta leyft sér að vinna gegn þeirri stefnumörkun sem ráðandi stjórnvöld og meiri hlutinn berst fyrir þegar um er að ræða að beita slíkum aðferðum á erlendri grundu.