2001-11-19 20:07:54# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skil hæstv. iðnrh. að mörgu leyti mjög vel í þessari umræðu. Hæstv. iðnrh. vill byggja álver, eins mörg og mögulegt er. Hún trúir á það sem mikilvægasta, ég segi ekki það einasta því að það væri ómaklegt, einstaka þáttinn í því að byggja upp atvinnustarfsemi og skapa hagvöxt og velsæld á komandi árum. Það er sjónarmið út af fyrir sig.

Ég skil hæstv. utanrrh. sömuleiðis mjög vel. Það er alkunna að hæstv. utanrrh. hefur átt sér þann draum um nokkurra ára skeið að reisa sér minnismerki á Austurlandi, eða um að honum verði reist minnismerki sem hann hafi verið forgöngumaður að, þ.e. eitt stykki álver á Austfjörðum sem gæti staðið þar eftir hans daga, a.m.k. í pólitískum skilningi ef hæstv. utanrrh. skyldi bera annars staðar niður á næstunni í þeim efnum.

Hitt verð ég að segja að ég á erfitt með að skilja framgöngu hæstv. umhvrh. Mér þykir dapurlegt að sjá hæstv. umhvrh. ganga fram í þessum málum, þegar umhverfishliðin er til umræðu, eins og algerlega án nokkurrar sjálfstæðrar meðvitundar um þau mál. Ég hef að vísu heyrt hæstv. ráðherra nota þau einföldu rök áður í sambærilegum tilvikum að hæstv. ráðherra fylgi stefnu ríkisstjórnarinnar, sé í ríkisstjórninni. En hæstv. umhvrh. er líka umhvrh., er hinn faglegi ráðherra, gæslumaður umhverfis og náttúru í landinu. Mér finnst það ótrúlegt að sú hlið mála, t.d. þær umhverfislegu fórnir sem fylgja öllum þeim stóriðjuframkvæmdum sem hér hafa verið til umræðu, skuli ekki einu sinni nefndar. Ekki í einni setningu hefur hæstv. ráðherra nefnt það hér að þó að hún telji að þessi atvinnuuppbygging og þessi stóriðja sé mikilvæg þá sé eftirsjá að Þjórsárverum og það séu umhverfislegar fórnir samhliða Kárahnjúkavirkjun o.s.frv. Manni hefði liðið aðeins betur þó ekki væri nema af einni og einni setningu hér og þar sem hefði vitnað um að hæstv. umhvrh. myndi eftir því að hún væri umhvrh. en ekki bara viljalaust verkfæri ríkisstjórnarinnar í að keyra fram stóriðjustefnu og álnauðhyggju.

Hæstv. umhvrh. fór út í það, því miður, að saka stjórnarandstöðuna og einstaka þingmenn --- og það var býsna óvenjulegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra lét að því liggja --- um að fara utan til að vinna þar nánast eins og einhvers konar fimmtu herdeildar starfsemi gegn íslenskum hagsmunum. Hæstv. ráðherra var svo ósmekkleg að nefna þar til sögunnar m.a. fyrrv. hv. alþm., Hjörleif Guttormsson, sem á ekki sæti hér lengur og er ekki hér til að verja hendur sínar, á þessum vettvangi a.m.k. Hann er þó sjálfsagt fær um að gera það þó á öðrum vettvangi sé. Það lá eiginlega í orðum hæstv. iðnrh. og ég vil spyrja um það: Er það virkilega meining hæstv. ráðherra að að eigi að setja stjórnarandstæðinga í farbann, þeir eigi ekki að hafa rétt til að tala fyrir sjónarmmiðum sínum hvort heldur er innan lands eða utan? Hvert var hæstv. ráðherra að fara? Á að taka málfrelsi og skoðanafrelsi af stjórnarandstöðunni þegar ríkisstjórn í einu landi hefur ákveðið eitthvað? Hvert eru menn þá komnir?

Ég leyfi mér að segja, herra forseti, að mér brá svolítið í brún þegar ég heyrði þetta, sérstaklega um ferðafrelsið, að það væri eitthvað að því að þingmenn úr stjórnarandstöðunni, með önnur sjónarmið en ríkisstjórn, sæktu ráðstefnur, tækju þátt í fundum eða hefðu málfrelsi á erlendri grund. Hvert eru menn komnir ef þeir fara þessa braut á enda? Ég ætla að vona að þetta hafi verið óyfirvegað af hálfu hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherra sé ekki í alvörunni að velta því fyrir sér eða ýja að því að jafnvel ætti að setja menn með önnur sjónarmið en ríkisstjórnarinnar í farbann. Þá væri illa komið.

Framganga hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli markast auðvitað af þessari álnauðhyggju. Það var athyglisvert að heyra orðaskiptin áðan milli hæstv. iðnrh. og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þegar ráðherra var að tíunda það sem ánægjulegt sem hefði verið að gerast í einstökum atvinnumálum á undanförnum dögum eða vikur og komist hefur í fréttir. Er það ekki sönnun þess að fleira getur gerst í íslensku atvinnulífi og orðið uppspretta velsældar hér í landi en að reisa álver og fórna til þess náttúruverðmætum á Íslandi? Jú. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að tala um.

Við viljum leggja áherslu á þá hluti umfram allt sem ekki hafa í för með sér þær fórnir í umhverfismálum sem hin orkufreka stóriðja og mengandi iðnaðarstarfsemi leiðir til. Það er ekki hægt að fjalla um þá hluti eins og að á því séu bara jákvæðar hliðar en engir frádráttarliðir. Menn geta komist að þeirri niðurstöðu að fórnirnar séu þess virði. Það er allt annað mál. Þá virði ég það sem sjónarmið. Ég er að vísu ósammála því þegar jafnmikils á að krefjast, eins og í Kárahnjúkavirkjun eða þegar taka á hluta af Þjórsárverum. Þá tel ég fórnirnar of miklar. Um það getum við orðið ósammála en ræðum það ekki eins og þetta sé endalaus hamingja og engir mínusar fylgi því að taka fallvötnin endanlega hvert á fætur öðru, reisa risastór uppistöðumannvirki, flytja vatnsföll milli vatnasviða, sökkva gróðurvinjum o.s.frv. Það er forneskjulegt viðhorf að taka ekki með í reikninginn að þar eru stórir frádráttarliðir.

Það er líka rangt og líka nauðhyggja sem mun ekki verða til farsældar að horfa fram hjá þeim miklu möguleikum sem liggja fólgnir í margs konar fjölþættri atvinnuuppbyggingu, í því að nýta mannauðinn, í því að nýta toppstykkið. Ekki mengar það að nota hausinn á sér og láta hann skapa velsæld. Við það eru margar þjóðir lagnar og hafa náð miklum árangri í þeim efnum. Við getum nefnt þar dæmi eins og Íra, Hollendinga, Dani og fleiri sem sanna að það er ekki þannig í nútímanum að það eina sem hér geti skipt sköpum sé uppbygging álvera.

Svo kemur að hinni nauðhyggjunni, þ.e. að það séu engar aðrar leiðir færar til að nýta hinn takmarkaða íslenska orkuforða en að byggja álver, veðja á þennan eina málm og gera íslenskt hagkerfi í æ ríkari mæli háð verðsveiflum á alþjóðamarkaði á þessum eina málmi. Það er ekki til þess að gera íslenskt atvinnulíf fjölbreyttara heldur veitir það þvert á móti öðrum áhættuþætti sífellt meiri þunga í íslensku hagkerfi, heimsmarkaðsverði á áli. Íslenski orkumarkaðurinn er þegar orðinn ískyggilega háður verðsveiflum á þessum eina málmi því fyrir utan álverksmiðjurnar sjálfar, núverandi og tilvonandi, hafa meira að segja járnblendiverksmiðjan og fleiri fyrirtæki hengt sig í þessa viðmiðun, heimsmarkaðsverðið á áli, eins og samningum um afhendingu á raforku til þeirra er háttað.

[20:15]

Það eru fjölmargir aðrir og mjög álitlegir möguleikar til staðar, bæði nú og inni í framtíðinni, til að nýta þennan orkuforða á annan hátt. Og sannanlega miklu umhverfisvænni hátt en þann að stunda frumvinnslu áls því það hefur mjög neikvæðar umhverfisafleiðingar í för með sér. Mjög mikil orka fer forgörðum í frumvinnsluna og því eru neikvæðir umhverfisþættir samfara, eins og losun úrgangs, losun gróðurhúsalofttegunda og fleira mætti telja.

Ég nefni auðvitað það verkefni sem mér finnst alltaf eiga að vera númer eitt á listanum hjá okkur, að umbreyta okkar íslensku orku í form sem gerir það að verkum að við getum notað það í miklu meiri mæli hér innan lands, til að knýja flota okkar, samgöngutæki o.fl., gera Ísland þannig raunverulega að sjálfbæru orkusamfélagi. Ég nefni t.d. ylrækt sem margir hafa talið að gæti orðið að gríðarmikilli grænni stóriðju á Íslandi ef hún fengi orku á kjörum sambærilegum við stóriðjuna en því er ekki að heilsa. Menn hafa verið með þau plön á borðum, og það alveg í fúlustu alvöru, að ylrækt í stórum stíl hér á landi gæti orðið að stóriðju, útflutningsstóriðju, ef að henni væri hlúð með hagstæðum orkusamningum og öðrum ráðstöfunum.

Það eru fjölmargir fleiri möguleikar sem þarna væri áhugavert að skoða, og síðast en ekki síst bendir enn þá allt til þess að tíminn vinni með okkur og að íslenski orkuforðinn vaxi að verðmæti en minnki ekki. Allar spár um hið gagnstæða hafa reynst rangar.

Muna menn hver voru helstu rökin þegar menn voru að tala fyrir stóriðjustefnunni hér á sjöunda áratugnum? Að það ætti að gera samninga á algjöru útsöluverði við stóriðju sem síðar kom náttúrlega í ljós að voru svo neðan við allar hellur að það þurfti í harðar aðgerðir gegn hinum erlenda auðhring til að fá verðið hækkað. Rökin voru þau að íslenska orkan yrði fljótt verðlaus vegna þess að kjarnorkan yrði svo hagkvæm. Við höfum svo sem heyrt fleiri kenningar um svona hluti. Þær hafa allar reynst út í hött. Staðreyndin er sú að m.a. Kyoto mun vinna með Íslendingum að þessu leyti af því að þá mun orkuframleiðsla með jarðefnaeldsneyti verða óhagkvæmari. Samkeppnisstaða innlendu orkunnar verður þar af leiðandi betri og við hefðum enga undanþágu þurft til þess.

Það er líka staðreynd að þetta forskot vegna innlendu orkunnar úr vatnsafli og jarðvarma verður alltaf til staðar í þessu samhengi. Tilkoma Kyoto er þannig af sjálfu sér algjörlega óháð útkomu Íslands í losunarkvóta eða undanþágum --- tvöfalt hagsmunamál fyrir Ísland. Við eigum sennilega einna mest allra þjóða undir því að þetta takist hvað búsetuskilyrði varðar, að ná árangri í þessum efnum, og við njótum góðs af þeim efnislegu áhrifum sem samkomulagið mun að líkindum hafa í heiminum, m.a. vegna þess að við eigum hér möguleika á orkuframleiðslu án þess að losa mikið af gróðurhúsalofttegundum.

Það er umhugsunarefni sem kom hér fram, m.a. í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar þegar hann spurði hæstv. iðnrh.: Hvernig á að nota þessa íslensku undanþágu? Er búið að lofa henni allri? Er búið að ráðstafa henni sem gulrót til þess að lokka hingað inn tilteknar stóriðjuframkvæmdir? Það var mjög nærri því að hæstv. utanrrh. sannaði það fyrir okkur í ræðu sinni fyrr í dag þar sem hann taldi upp stóriðjuframkvæmdirnar sem mundu njóta þessarar undanþágu. Og þá stendur eftir að íslenskt atvinnulíf á svo í framtíðinni að axla byrðarnar að öðru leyti. Ríkisstjórnin er þar með að viðurkenna að undanþáguákvæðið, íslenska ákvæðið svokallaða, er klæðskerasaumað utan um núverandi stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og ekkert annað. Allt talið um hnattræna umhverfisávinninga og framlag í þeim efnum er ,,sekúndert`` í besta falli vegna þess að það sem fyrir ríkisstjórninni vakti var að fá þetta sem gulrót til þess að geta sullað áfram hér stóriðjuframkvæmdum sínum, þeim sem nú eru uppi á borðunum.

Mórallinn er sem sagt sá --- hin siðferðilega afstaða sem ríkisstjórnin tekur er í reynd þessi: Það er ágætt að aðrir geri eitthvað í málinu. Hæstv. umhvrh. hefur meira að segja gengið svo langt að segja að það hafi verið vonbrigði að samkomulagið hafi verið veikt á lokasprettinum. Það felur í sér að hæstv. ráðherra vill gjarnan að aðrar þjóðir geri eitthvað í þessu en við Íslendingar þurfum bara alveg gífurlega undanþágu. Við ætlum ekki að leggja af mörkum, við þurfum þessa undanþágu.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að það er auðvitað jákvætt --- svo langt sem það nær, sorglega skammt að vísu --- að samkomulag tókst. Það vil ég segja hér í lok þessarar umræðu af minni hálfu, að auðvitað er það betra en ekki neitt að samkomulag náðist þótt það væri marið saman og hangi á bláþræði og það megi eiginlega enginn heltast úr lestinni til þess að menn lendi ekki fyrir neðan þau mörk um þátttöku sem samningurinn byggir á. Og það sem maður bindur vonir við, herra forseti, er auðvitað að hér verði bara um fyrsta áfanga að ræða, eitt lítið hænufet á miklu lengri vegferð því það þarf meira til. Hér þarf að takast árangur sambærilegur við þann sem náðst hefur t.d. í baráttunni fyrir verndun ósonlagsins eða losun freonefna og öðrum slíkum hlutum.

Vonbrigðin eru auðvitað hversu veikt samkomulagið er í byrjun, þessi fyrsti áfangi, og svo hitt að við erum mörg ekki mjög stolt af framgöngu Íslands í þessu efni eins og það er bundið í samkomulaginu en það er auðvitað hluti af samkomulaginu og þessum fyrsta áfanga sem þrátt fyrir allt er að mínu mati skárra en ekki neitt og vonin fyrst og fremst fólgin í því að betur takist síðan til í framhaldinu, að allur heimurinn komi smátt og smátt inn í ferlið, að sjálfsögðu með Bandaríkin í broddi fylkingar, að með sanngjörnum hætti verði gengið frá þátttöku þróunarríkjanna í ferlinu og að Ísland leggi þá meira af mörkum á komandi tímum heldur en það er að gera í þessum upphafsþætti málsins.