2001-11-19 20:31:49# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir ágætar umræður sem hafa verið málefnalega, a.m.k. á köflum.

Heldur þykir mér þó að stjórnarandstaðan hafi borið sig illa í umræðunni. Sú er hér stendur hefur t.d. verið sökuð um skítkast fyrir að rifja upp hvað sagt hefur verið í umræðunni áður fyrr. Sagt hefur verið að okkur beri siðferðileg skylda til að taka á í Kyoto-málunum. Það er alveg rétt og hefur aldrei staðið neitt annað til. Við tökum okkur á eins og aðrir. Okkur ber hins vegar einnig siðferðileg skylda til að útiloka ekki Íslendinga frá því að nota endurnýjanlega orkugjafa, m.a. í stóriðju. Hún minnkar hnattræn áhrif á lofthjúpinn eins og ég hef verið að reyna að upplýsa stjórnarandstöðuna um.

Af hverju halda menn að erlendar þjóðir hafi samþykkt málflutning okkar? Ekki vorum við í sömu stöðu og Rússar sem gátu notað hálfgert neitunarvald í krafti losunar. Við losum um 0,016% og skiptum ekki öllu máli við samningaborðið að því leyti. Af hverju voru menn þá að hlusta á okkur? Vegna þess að við höfum mjög sterk rök.

Ég sýndi fram á hinn hnattræna ávinning í fyrri ræðu minni. Ef við miðum við meðaltalið í álframleiðslunni og miðum ekki bara við kol- og olíudrifin álver --- ég tók tvö dæmi í fyrri ræðu minni --- þá er meiri hnattrænn ávinningur fyrir lofthjúpinn við að nota íslenska ákvæðið en ef við tækjum svo á innan lands í annarri losun að við mundum t.d. binda allan fiskiskipaflotann í höfn og stöðva alla bíla. Það er meiri hnattrænn ávinningur af íslenska ákvæðinu en af því að stöðva alla losun innan lands. Þingmenn hljóta að gera sér grein fyrir þessu.

Og hér hefur líka komið fram að framleiðsla áls hefur aukist um 10% og meginhluti þeirrar aukningar er drifinn með kolum og olíu. Hér koma hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir o.fl., og krefjast þess að það væri lágmarkið að umhvrh. mundi fara fram með það á alþjóðlegum vettvangi að fyrir hvert álver sem við hugsanlega reisum hér í framtíðinni eigi að loka öðru sem drifið er kolum og olíu. Ég hef ekkert vald til þess. Ég veit ekki á hvaða vettvangi ég ætti að krefjast þess. Hins vegar minnkum við líkurnar á því að slík álver yrðu reist með því að nýta þetta íslenska svigrúm

Hér hefur líka verið ráðist harkalega að umhvrh. sem hér stendur, að mínu mati, (SJS: Það er rétt mat hjá þér, þú stendur nú þarna.) af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og talað um að ráðherra hafi ekki sjálfstæða meðvitund og muni ekki eftir því að hún er umhvrh. Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja um svona palladóma og tel að þetta sé mikið rembutal. Ég hef byggt mál mitt hér á viðhorfi gagnvart lofthjúpnum. Ég hef kosið að tala hér ekki um einstakar virkjanir. Ég hef kosið að tala ekki um Kárahnjúkavirkjun eða Þjórsárver eða annað sem hv. þm. hefur minnst á við þessa umræðu. Ég hef talað út frá lofthjúpnum og geri mér auðvitað fulla grein fyrri því að það eru veruleg umhverfisáhrif af virkjunum, mörgum hverjum. Það hafa þingmenn heyrt umhvrh. flytja langt mál um hér á Alþingi. Ég vil reyna að sýna mönnum fram á það að hér er umhvrh. að tala út frá lofthjúpnum, þannig er íslenska ákvæðið jákvætt út frá lofthjúpnum.

En auðvitað eru gallar við ýmsar virkjanaframkvæmdir og alveg ljóst að vegna neikvæðra umhverfisáhrifa munum við ekki geta nýtt allar virkjanahugmyndir til fulls, sem menn töldu áður fyrr að væri hægt að nýta. Það er alveg ljóst.

Ég hef ekki áttað mig á því hvert Samfylkingin er að fara í umræðunni. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur hingað til verið mjög neikvæður gagnvart íslenska ákvæðinu og skrifað leiðara þar sem m.a. hefur verið sagt --- ég ætla ekki að vitna orðrétt í þau skrif, aðeins minnast á aðalatriðin í þeim leiðurum --- að Íslendingar hafi verið klaufar í Kyoto, vaðið í villu og svíma, að það yrði pípað á Íslendinga, ákvæðið yrði hlegið út af borðinu.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur talað mjög gegn íslenska ákvæðinu og segir í ræðu sem flutt var 9. nóv. á síðasta ári, með leyfi hæstv. forseta:

,,Íslensk stjórnvöld telja ófært að gerast aðili að Kyoto-bókuninni nema viðunandi niðurstaða náist í sérmálum Íslands eins og það heitir. Um þetta er Samfylkingin ósammála ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.``

Össur Skarphéðinsson flutti á sínum tíma ásamt fleiri hv. þingmönnum till. til þál. þar sem fram kemur sérstaklega í greinargerðinni að Ísland hafi fengið viðurkennda sérstöðu sína þá þegar, án íslenska ákvæðisins og við gætum vel uppfyllt skilyrði bókunarinnar án íslenska ákvæðisins. Samfylkingin hefur því hingað til verið algjörlega andsnúin íslenska ákvæðinu.

Ég heyri ekki betur en að nú komi annað hljóð, a.m.k. frá formanni Samfylkingarinnar, sem talar um að ákvæðið sé breytt. En hver er breytingin? Ákvæðið er alveg sama eðlis og það hefur verið frá upphafi, algjörlega sama eðlis, að það eigi að taka inn í sérákvæði svigrúm fyrir stærri framkvæmdir. Það eina sem hefur breyst er að það hefur verið sett þak á það. Það var ósköp eðlilegt að gera, sérstaklega af því önnur ríki vildu gjarnan fá inn slíkt þak og þá var fallist á það. En ákvæðið er í eðli sínu er nákvæmlega eins og það var, fyrir utan þetta þak.

Ég átta mig því ekki á því hvort Samfylkingin er ánægð með að íslenska ákvæðið var samþykkt eða óánægð. Eftir alla þessa umræðu stendur ráðherrann hér og áttar sig ekki á því hvort Samfylkingin fagnar ákvæðinu eða harmar það.

Varðandi innanlandslosunina og hugsanlegt kvótakerfi sem hér hefur ítrekað verið komið inn á vil ég segja að ekki er búið að ákveða hvort það verði kvótakerfi hér innan lands á losunarheimildunum. Hins vegar er alveg ljóst að við megum ekki selja kvótann í íslenska ákvæðinu, við megum ekki selja hann til útlanda. Við megum ekki selja hann.

Verði tekið upp kvótakerfi, eða innanlandsviðskipti með kvóta á losunarheimildum, þá mun það ná til þeirra almennu losunarheimilda sem fyrir eru, auk 10%. En þeirri losun á koldíoxíði sem fellur undir íslenska ákvæðið, sem er annars eðlis, er haldið utan við losunarheimildirnar og getur því ekki orðið hluti af almennum viðskiptum. Hins vegar eru flúorkolefnin fyrir utan íslenska ákvæðið. Ef eitthvað yrði þá væri hugsanlegt að þær lofttegundir yrðu hluti af kvótakerfi, verði kvótakerfi yfirleitt komið á.

Ég vil líka draga inn í umræðuna að Evrópusambandið er að vinna að tilskipunum varðandi kvótamarkaðinn. Þar kemur fram að þeir taka álverin ekki inn í þann kvótamarkað. Reyndar er ekki búið að ákveða neitt en út á þetta ganga hugmyndirnar. Verði það niðurstaðan, sem má vel vera, er greinilegt að íslenska ákvæðið skiptir mjög miklu máli. Ef íslensku ákvæðin væru ekki fyrir hendi og Evrópusambandið og þar með við á EES-svæðinu höldum álverunum utan við kvótaviðskiptin, þá væri Ísland í þeirri stöðu að þurfa að kaupa umfangsmikinn kvóta fyrir þessi álver sem hugsanlega mundu rísa hér á fyrsta skuldbindingartímabili, eða eftir 1990, en ekki önnur ríki í Evrópu.

Það er hins vegar alveg rétt, sem kom hér fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að íslensk stjórnvöld hafa verið að hugsa um þessar einstöku framkvæmdir. Það er löngu komið fram að íslenska ákvæðið gengur út á það. Þannig hefur aldeilis ekki verið reynt að halda því frá umræðunni, það hefur verið rætt um það allan tímann.

Hér hefur verið talsvert rætt um hvað við ætlum að gera í framtíðinni. Ég vil taka það fram að skýrslan sem við ræðum hér fjallar um niðurstöðuna frá Marrakesh, hún fjallar ekki um hvað við ætlum að gera í framtíðinni hér innan lands. Hugmyndir um hvað við getum gert eru í vinnslu og verða til umfjöllunar á seinni stigum. Við eigum eftir að taka heilmikila umræðu um það mál.

Íslenska ákvæðið var ekki hluti af skýrslunni. Eftir á að hyggja þá hefðum við hugsanlega getað náð að þýða það og setja það inn í skýrsluna. En við eigum það á ensku og það er ágætlega fjallað um það í skýrslunni, megininnihaldið í íslenska ákvæðinu. Ég held að þingmenn geri sér ágæta grein fyrir því hvað nákvæmlega felst í því með því að lesa skýrsluna.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á það að ráðherra hefði sagt að búið væri að útvatna samninginn með eftirgjöf á síðustu stigum og það er rétt. Það er búið að útvatna samninginn. Markmiðið var að minnka losun um 5,2% samtals hjá iðnríkjunum og það hefur fallið, er núna komið í lækkun upp á 3,2%. Markmiðið er því ekki eins háleitt og þjóðir heims settu sér í upphafi.

Það er alls ekki svo að Íslendingar hafi átt einhvern hlut í því að gera þessar tilslakanir að veruleika, svo er alls ekki. Okkar ákvæði var löngu komið á afgreiðslustig þegar menn gerðu þessar tilslakanir á endasprettinum, þá blandaðist íslenska ákvæðið ekkert inn í þetta, eins og mér fannst gefið í skyn hér áðan. Við reyndum hins vegar að leggja okkar af mörkum til að minnka líkurnar á því að gefið yrði eftir. Við sögðum að við styddum þær sáttatillögur sem komu á borðið, bæði þegar Jan Pronk, umhverfisráðherra Hollands, lagði þær fram í Bonn og líka þegar þær voru lagðar fram í Marrakesh. Þá voru Íslendingar sáttir við sáttatillögurnar, eins og Norðmenn og fleiri, t.d. ESB en ekki Rússar, Kanadamenn og Japanar, svo dæmi séu tekin.

Hins vegar gerðum við okkur grein fyrir því að þessi lönd yrðu að vera með, annars tæki bókunin aldrei gildi af því Bandaríkjamenn eru dottnir út úr dæminu í bili. Það er mikill skaði. Ég vil taka undir það með þeim þingmönnum sem hér hafa talað að Bandaríkjamenn verða að koma að þessu borði. Þeir losa mjög mikið og ég tel að með því að hafa náð öllum öðrum að borðinu þá aukist pressan á að Bandaríkjamenn taki þátt.

[20:45]

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi hér um þróunarríkin, og ég vil undirstrika að það gætti einhvers misskilnings í því máli. Við höfum ekki verið fylgjandi því að þróunarríkin kæmu inn með skuldbindingar núna. Við teljum að það sé okkar, iðnríkjanna, að byrja að draga hlassið og þróunarríkin komi inn síðar, og það er mikilvægt. Ég vil líka minna á það sem kemur fram í skýrslunni, á bls. 3 að mig minnir, að við komum með pólitíska yfirlýsingu ásamt nokkrum ríkjum um aðstoð til þróunarríkjanna, þannig að við reyndum að ganga fram með fordæmi, og þessi pólitíska yfirlýsing hjálpaði okkur í Bonn við að ná þó því samkomulagi sem þar náðist. Við höfum reynt að tala mjög vel til þróunarríkjanna og aðstoða þau eins og við höfum mögulega getað á vettvangi samningsins.

Hér hefur líka verið rætt um endurnýjanlega orkugjafa og skilgreiningu þeirra. Vegna þessa vil ég taka fram að skilgreiningin á endurnýjanlegum orkugjöfum í ákvæði okkar miðast við almenna notkun þess hugtaks innan loftslagssamningsins. Þar eru engar sérstakar takmarkanir á gerðum vatnsaflsvirkjana.

Ég vil einnig segja hér að lokum, þar sem ég sé að ræðutími minn er að verða búinn, að samningurinn sem var gerður við álverið í Straumsvík var gerður 1990 og það er mjög eðlilegt að við gerum slíka samninga við önnur fyrirtæki af því að hann hefur virkað mjög vel varðandi það að taka á gróðurhúsalofttegundum.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum segja að ég tel mjög brýnt að við höfum rætt þessi mál hér í þinginu. En ég verð að lýsa furðu minni á málflutningi stjórnarandstöðunnar vegna þess að hún virðist alls ekki ætla að skilja þá hugmyndafræði að íslenska ákvæðið er hnattrænt. Það er vistvænt og umhverfinu í hag. Og það er siðferðileg skylda okkar að reyna að gera það sem við getum til að koma málum þannig fyrir af því að loftslagsvandinn er vaxandi.