2001-11-19 20:47:22# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði að íslenska ákvæðið svonefnda væri eins og það hefði verið í upphaflegri kröfugerð nema að komið væri á það þak, aðrar þjóðir hefðu viljað það. Þetta er athyglisvert, herra forseti. Hvers vegna skyldu aðrar þjóðir hafa viljað þak á þetta ákvæði? Ef þær kaupa þá röksemd að þetta sé hnattrænt jákvætt í umhverfislegu tilliti, hefðu þær þá ekki átt að segja: Því meira, því betra? Nei, það skyldi þó ekki vera að menn hafi hugsað sem svo: Ísland er svo lítið að það borgar sig ekki að elta ólar við þetta, við skulum kaupa þá með í samkomulagið en setjum á þetta þak til að það fari ekki út úr öllu korti.

Hæstv. ráðherra segist svo tala út frá hagsmunum lofthjúpsins. Gott og vel. En staðan er sú að gróðurhúsaáhrifin eru á fullri ferð og munu halda áfram lengi enn. Til þess að ná virkilega tökum á vandamálinu þarf ekki bara að stoppa aukninguna, það þarf að draga verulega úr losuninni miðað við það sem hún var 1990, annars mun ástandið halda áfram að versna hér lengi enn. Þetta er alvara málsins sem menn þurfa að horfast í augu við.