2001-11-19 20:49:40# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þakið og sú merkilega tilviljun að losunarundanþágurnar eru u.þ.b. akkúrat klæðskerasaumaðar utan um núverandi stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar segi allt sem segja þarf í þessu máli.

Það er auðvitað alveg ljóst að ríkisstjórnin fór í þennan leiðangur til að fá undanþágu fyrir þau stóriðjuáform sem hún var með á prjónunum og barðist fyrir því með oddi og egg að Ísland fengi undanþágu gagnvart þessu og smíðaði sér hæfilegar röksemdir. Niðurstaðan varð sú að menn gáfu þetta eftir. En það var sett þak á þetta til að það passaði u.þ.b. fyrir það sem þarna var á ferðinni. Það held ég að segi kjarnann í þessu máli.

Ég tel að út af fyrir sig sé alveg hægt að ræða málið þannig, og hefði verið miklu hreinlegra að gera það frá byrjun. Reyndar held ég að hægt sé að finna tilvitnanir í hæstv. umhvrh. eins og hæstv. forsrh. sem stappi mjög nærri að segja þetta sem ég hef hér verið að fullyrða.

Hitt er seinni tíma leikfimi af ýmsum toga, að reyna að setja þetta inn í þetta jákvæða hnattræna umhverfissamhengi og annað í þeim dúr sem stenst ekki þegar betur er að gáð nema menn gefi sér þarna afar umdeilanlegar forsendur, þær fyrst og fremst að verið sé að keppa við uppbyggingu með kolum og olíu í þróunarríkjum, annars hrynur spilaborgin.