2001-11-19 20:53:22# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með það að fulltrúi Samfylkingarinnar skuli ekki vilja bera hingað inn í umræðuna hvort þeir séu ánægðir með íslenska ákvæðið eða ekki. Ég tel að umræðan hér hafi gengið meira eða minna út á einmitt íslenska ákvæðið þannig að mér finnst mjög skrýtið að menn skuli leggja sig í líma við að koma sér undan því að segja hvort þeir séu ánægðir með þetta eða ekki. Þetta er stórmál.

Varðandi það að hafa ekki fengið svör um hvað hefði orðið hefðum við ekki skrifað undir á sínum tíma, undirskrift sé ekki fullgilding. Það er ómögulegt að segja hvað hefði orðið ef við hefðum skrifað undir á sínum tíma. En það var mat íslenskra stjórnvalda að það væru sterkari skilaboð um að við teldum þetta mikið mál fyrir okkur og fyrir lofthjúpinn hnattrænt að skrifa ekki undir og sýna það þannig að okkur mislíkaði þessi samningur ef við fengjum ekki íslenska ákvæðið samþykkt. Þannig að þetta voru sterk skilaboð inn í samningaviðræðurnar frá upphafi, að það yrði að skoða sérstöðu Íslands alveg sérstaklega.