2001-11-19 20:57:23# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[20:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef á tilfinningunni að virðulegur forseti sé að taka af okkur örlítinn tíma í andsvörum í þessu mikilvæga máli, ég vil fyrst kvarta undan því, en ég skal reyna að tala hratt.

Ég spyr hæstv. umhvrh. um samninginn við álverið í Straumsvík. Ég vil fá að vita hvort þetta er opinbert plagg sem við getum fengið að skoða eða eigum einhvers staðar aðgengilegt.

Ég kvarta undan því að spurningu minni um bestu fáanlegu tækni hafi ekki verið svarað.

Ég kvarta undan því að ég fékk ekki að heyra neitt varðandi hin óvirku skaut, sem ég orðaði í ræðu minni, og þær deilur sem hafa staðið um álverið í Reyðarfirði og skautaverksmiðjuna og skautin sem þar á að nota.

Ég saknaði þess líka að ég skyldi ekki fá örlítið meira úr ræðu hæstv. umhvrh. varðandi kjarnorkuna, en ég varpaði hérna fram spurningu varðandi hana áðan, hvernig Íslendingar hefðu beitt sér á þeim vettvangi. Í fyrsta lagi varðandi kjarnorkuna, hvernig á að taka á þeim málum á vettvangi samningsins, var ekkert um þetta rætt og komu Íslendingar ekkert að þeirri umræðu? Og svo sömuleiðis hvort stjórnvöld hafi ekkert gert á erlendum vettvangi til að tryggja aukinn veg annarrar vistvænnar eða umhverfisvænnar orku en vatnsorkunnar.