2001-11-19 21:00:09# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[21:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég stenst ekki freistinguna að blanda mér örlítið svona í lokin í andsvar hv. þm. Jóhanns Ársælssonar við hæstv. umhvrh. áðan.

Það er varðandi þessa hótun Íslendinga sem var auðvitað ekkert gleðiefni. Ég man til þess að hafa hlustað á fréttaviðtal við hæstv. umhvrh. þar sem hún var spurð hvað Íslendingar mundu gera ef krafa þeirra um hið íslenska ákvæði næðist ekki fram. Hæstv. ráðherra svaraði á þá lund að þá væri athugandi hvort við mundum nokkuð undirrita bókunina. Íslendingar hafa því hótað þessu og verið allt of oft eins og óþekkur krakki. Og m.a. vegna þeirrar framgöngu á vettvangi þessa samnings geta hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar auðvitað ekki hrósað hæstv. umhvrh. fyrir framgönguna.