Synjun um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:31:31 (1760)

2001-11-20 13:31:31# 127. lþ. 32.91 fundur 147#B synjun um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú hefur það gerst sem fáheyrt er, að ráðherra hefur neitað þingmanni um að vera til svara við umræðu utan dagskrár um málefni sem þingmaður, í þessu tilfellu sú sem hér stendur, telur þess eðlis að sjálfsagt sé að tekið verði til umræðu á Alþingi. Ráðherrann sem í hlut á er hæstv. menntmrh. og málefnið afleiðingar langvinns verkfalls tónlistarkennara á skólastarf í grunnskólum. Þó reynt hafi verið að sannfæra ráðherrann um að ekki væri ætlunin að ræða kjaradeiluna sem slíka var ljóst að hæstv. ráðherra taldi málið ekki á sinni könnu og hann hefði ekkert um það að segja á þessum vettvangi. Þá óskaði ég eftir því við stjórn þingsins að ég fengi engu að síður tækifæri til að heyja umræðuna jafnvel þó enginn ráðherra yrði til andsvara og þessa ósk rökstyð ég með 50. gr. þingskapa en í henni kemur fram að þingmaður eigi sjálfstæðan rétt til að taka upp mál utan dagskrár í formi yfirlýsingar. Nú hefur það einnig gerst að stjórn þingsins hefur synjað um þá ósk, herra forseti, að umræðan fari fram í formi yfirlýsingar frá þingmönnum, með öðrum orðum án þess að ráðherra verði þar formlegur þátttakandi. Þar með liggur fyrir túlkun stjórnar þingsins á 50. gr. þingskapalaganna og þó að hún sé andstæð mínum skilningi, herra forseti, þá beygi ég mig undir hana. En hitt á ég bágt með að sætta mig við, að ráðherrar geti ritstýrt svo umræðum utan dagskrár að þeir leyfi sér að synja þingmönnum að eiga við þá orðastað.

Að öðru leyti vil ég segja það um tómlæti hæstv. menntmrh. að það gefur auðvitað til kynna að hann hafi ekki hugleitt þær alvarlegu afleiðingar sem deilan hefur þegar haft á skólastarf víða um land og er það ekki til fyrirmyndar.

Að lokum vil ég láta í ljós þær óskir mínar, herra forseti, að kraftaverk gerist. Ég heiti á deiluaðila að þeim takist að finna leiðina til að rétta kjör tónlistarkennara. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með að deilan skuli hafa farið á það stig sem hún virðist nú stödd á. Ósk mín er sú að kraftaverkið geti átt sér stað áður en dagur tónlistarinnar rennur upp, sem er næstkomandi fimmtudagur, því það verður hálfaumingjalegt fyrir yfirvöld að þurfa að fagna þeim degi með tónlistarkennara í verkfalli.