Synjun um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:33:53 (1762)

2001-11-20 13:33:53# 127. lþ. 32.91 fundur 147#B synjun um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að ég neitaði því að vera hér til andsvara í utandagskrárumræðu um verkfall tónlistarkennara vegna þess að það mál fellur alls ekki undir verksvið mitt og mundi hafa gefið alranga mynd af þeirri deilu ef menn litu þannig á að það væri á verksviði mínu að svara einhverju vegna þess máls. Nú segir hv. þm. að umræðan hafi átt að snúast um framkvæmd námskrár í grunnskólum sem ég átta mig ekki almennilega á hvernig getur verið því að það var ekki lagt þannig upp við mig. En sjálfsagt er að ræða við þingmanninn um framkvæmd námskrár í grunnskólum og velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að ræða sérstaklega um námskrá í grunnskólum þegar þetta verkfall ber á góma.

Herra forseti. Ég lít þannig á að að sjálfsögðu hafi ráðherrar fullan rétt til þess að svara hv. þingmönnum þegar þeir leggja fyrir þá mál af þessu tagi og segja sína skoðun. Menn verða þá sáttir við hana eða ósáttir.

Hér hefur það gerst, herra forseti, að hv. þm. hefur engu að síður haft tök á því að koma skoðunum sínum á framfæri í þessum virðulega ræðustól eins og gerst hefur í dag. Ég er sammála henni um að því fyrr sem þessari kjaradeilu lýkur því betra fyrir alla þá sem að tónlistarskólunum koma og því starfi sem tónlistarkennarar sinna. Ég hef ekki meinað hv. þm. að lýsa þessari skoðun sinni og mun ekki gera. En hún getur ekki kallað mig til andsvara um mál sem heyrir ekki undir mig með nokkrum hætti.