Synjun um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:42:10 (1766)

2001-11-20 13:42:10# 127. lþ. 32.91 fundur 147#B synjun um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í varnarræðu hæstv. ráðherra áðan kaus hann að hengja sig í orðalag. Það er rangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi óskað eftir því að hann ræddi kjaradeilu tónlistarkennara. Ég tók það sérstaklega fram við hann að ég væri ekki að að óska eftir því að fá að ræða kjaradeilu tónlistarkennara, en ég vildi fá að ræða við hann um afleiðingar svo langvinnrar deilu á skólastarfið. Í því sambandi nefndi ég að ég vildi koma inn á markmið aðalnámskrár grunnskóla sem ég veit að hæstv. ráðherra eru fullkunn. Og hann veit alveg að alvarleg röskun á því námi og því tónlistaruppeldi sem gert er ráð fyrir að börn fái getur haft mjög víðtækar afleiðingar. Það var um þær afleiðingar og þá ábyrgð sem ég vildi eiga orðastað við ráðherrann, ekkert annað, ekki um kjaradeiluna sjálfa. Því til staðfestu bendi ég hæstv. ráðherra á það blað sem lagt var fram á þingflokksformannafundi í gær þar sem titill umræðunnar var tilgreindur og því eru það afleiðingar þessarar langvinnu kjaradeilu sem ég vildi ræða við hæstv. ráðherra. Flótti hans og orðhengilsháttur núna er honum einungis til minnkunar.

Að öðru leyti vil ég segja að þó ég hafi beygt mig undir þá túlkun hæstv. forseta að 50. gr. þingskapa skuli túlka á þann hátt sem ég lýsti í upphafsræðu minni þá vil ég líka taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að mér finnst mig skorta þann rétt að geta á sjálfstæðan hátt ávarpað samfélagið héðan úr þessum ræðustóli. Mér finnst 50. gr. laga um þingsköp Alþingis gefa mér þann rétt og ég er ósátt við þá túlkun sem hæstv. forseti hefur gefið þessari grein þó ég beygi mig undir hana.