Synjun um utandagskrárumræðu

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:44:15 (1768)

2001-11-20 13:44:15# 127. lþ. 32.91 fundur 147#B synjun um utandagskrárumræðu# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég lít þannig á að það sé grundvallaratriði þegar mál eru rædd við ráðherra að það séu málefni sem hann ber ábyrgð á þannig að ég endurtek það sem ég sagði áður. Kjaradeila tónlistarkennaranna, sem var vissulega undirrót þess sem hv. þm. ræddi við mig í gær, er ekki á ábyrgð menntmrh. og menn leysa þá deilu ekki með því að fara einhverjum óvirðingarorðum um störf mín sem menntmrh. Hún leysist ekki á þeim forsendum, hv. þm. Það verður að finna annarra manna lausnir til þess að þessi kjaradeila leysist.

Að sjálfsögðu tek ég undir það með hv. þingmönnum að það er áhyggjuefni að deilan leysist ekki. En það þýðir ekki að kalla mig til ábyrgðar í því og það þýðir ekki heldur að fara vanvirðingarorðum um störf mín sem menntmrh. á þeim forsendum að ég beri ábyrgð á þeirri deilu sem stendur. Menn geta lesið það t.d. í lesendabréfi í Morgunblaðinu í dag á hverja fólk sem stendur í deilunni lítur þegar það vill kalla einhverja til ábyrgðar um lausn deilunnar. Þeir eru ekki í þingsalnum. Þess vegna hef ég líka litið þannig á að það væri ekki mál þingmanna að taka upp deilur um þetta efni þegar það fólk sem á hlut að máli er ekki til andsvara. (Gripið fram í.) Meðan framhaldsskóladeilan stóð var þetta mál rætt og ég var hér til andsvara. Við bárum ábyrgð á þeim málaflokki, ég og fjmrh. Það mál var rætt. Í þessu máli eru það sveitarstjórnarmenn og kennarar sem deila og þingmönnum hlýtur að vera það ljóst, sérstaklega fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum. Ég segi því sem svo: Minn réttur er skýr. Mér ber ekki skylda til að verða við öllum óskum þingmanna um umræður utan dagskrár.

Hér hefur verið lýst hvernig þingsköpin eru túlkuð af forsætisnefnd þingsins og þingmenn verða að sjálfsögðu að beygja sig undir þær leikreglur sem gilda hér á hinu háa Alþingi.