Upplýsingaskylda ráðherra

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 13:54:28 (1774)

2001-11-20 13:54:28# 127. lþ. 32.95 fundur 151#B upplýsingaskylda ráðherra# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessum viðbrögðum hæstv. landbrh. er að sjálfsögðu fólgin viðurkenning á því að frammistaða framkvæmdarvaldsins í þessu máli var með miklum endemum. Að hér skyldi Alþingi eða þingmanni vera neitað um upplýsingar sem svo kemur í ljós að hafa verið birtar í ríkisreikningi árum saman. Það er auðvitað svo yfirgengilegt að engu tali tekur.

Viðbrögð hæstv. ráðherra eru hins vegar mjög sérkennileg, að bréfa til forsrh. og óska eftir úrskurði þaðan um hvar slík réttarmörk liggi. Staðreyndin er auðvitað sú að hér er á ferðinni einn mikilvægasti réttur sem þingseta veitir mönnum og eitt mikilvægasta hlutverk Alþingis í því ljósi, þ.e. aðhaldshlutverkið og réttur til að krefja upplýsinga. Sá réttur er sjálfstæður og hann takmarkast ekki af upplýsingalögum. Það er hvergi meiningin að hafa það þannig. Ef svo hefði verið hefðu menn auðvitað getað fellt þessi ákvæði úr lögum og stjórnarskrá og látið upplýsingalögin ein nægja. En það var að sjálfsögðu ekki gert vegna þess að þetta er sjálfstæður og mjög mikilvægur réttur. Ég hef af því áhyggjur, herra forseti, að ítrekað hefur gætt tilhneigingar á undanförnum árum til að veikja þann rétt. Alþingi sjálft þarf að fara yfir það hvar sá réttur liggur og hvert samhengi hans er við aðra hluti.

Alþingi hefur ótvíræðan rétt til að afla allra upplýsinga sem geta skipt máli varðandi opinbera stjórnsýslumeðferð fjármuna og annað slíkt. Þurfi einhverjar slíkar upplýsingar leynt að fara vegna þess að það varði þjóðaröryggi eða persónuvernd, þá er það mál sem Alþingi leysir með þeim hætti að viðkomandi þingnefndir fara með slíkar upplýsingar í trúnaði. En það á ekki að verða til þess að Alþingi fái alls ekki upplýsingar af því tagi eins og verðmæti seldra eigna ríkisins. Það er svo fráleitt, herra forseti, að halda slíku fram að engu tali tekur. Og þeir menn sem slíkt reyna verða bara að læra stafrófið frá byrjun þó hæstv. ráðherrar séu.