Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:04:29 (1777)

2001-11-20 14:04:29# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Eins og spurningar hv. 3. þm. Suðurl. bera með sér og vitað var hefur sjúkraliðaskortur verið viðvarandi hér á landi. Almennt má segja að skortur sé á starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er þó mismunandi eftir starfsstéttum.

Þegar ársverkin eru mæld starfa hvergi fleiri læknar á Norðurlöndunum en einmitt hér. Hvergi eru fleiri tannlæknar en hér. Við erum í fremstu röð þegar horft er til fjölda sjúkraþjálfara og ljósmæðra. Hér eru hins vegar starfandi umtalsvert færri hjúkrunarfræðingar en annars staðar á Norðurlöndum og hlutfallslega fæstir sjúkraliðar í heild borið saman við það sem gerist með öðrum þjóðum. Þetta hefur fyrst og fremst gilt á dvalar- og hjúkrunarheimilum en síður á spítölum sem nú kann að vera breytt með uppsögnum sjúkraliða.

Hv. 3. þm. Suðurl. spyr hvort mér sé kunnugt um sjúkraliðaskortinn. Samkvæmt nýlegri könnun landlæknisembættisins vantar um 50% sjúkraliða í stöður á hjúkrunarheimilum. Samkvæmt þeirri könnun sem gerð var 1999 vantaði um 27% sjúkraliða í stöðuheimildir á sjúkrahúsum. 140 uppsagnir sjúkraliða undanfarna mánuði á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi hafa breytt stöðunni til hins verra.

Spurt var um fjölda í námi. Það sem skiptir mestu í þessu sambandi er annars vegar þessi fjöldi en hins vegar útgefin starfsleyfi. Sjúkraliðum sem útskrifast hefur fækkað mjög á síðustu fimm árum. Samkvæmt upplýsingum um útgefin starfsleyfi lítur dæmið svona út:

Árið 1999 voru gefin út 66 starfsleyfi af heilbrrn. Þau voru 79 í fyrra. Það sem af er árinu hefur verið gefið út 71 starfsleyfi af heilbrrn. Næstu árin þar á undan voru útgefin starfsleyfi sjúkraliða u.þ.b. 80 á ári.

Virðulegi forseti. Mér er vel kunnugt um þann vanda sem heilbrigðisstofnanir standa frammi fyrir vegna skorts á sjúkraliðum. Gott samstarf hefur verið milli Sjúkraliðafélags Íslands og ráðuneytisins í því að kanna orsakir þessa skorts og reyna að finna leiðir til að bæta ímynd stéttarinnar. Í þessu sambandi hefur m.a. verið rætt um sameiginlegt kynningarátak á möguleikum í menntun og störfum sjúkraliða. Þá hef ég einnig vilja til þess að setja á laggirnar starfshóp til að gera tillögur um hvernig bregðast megi við þeim vanda sem skortur á sjúkraliðum veldur. Slík vinna yrði unnin í samstarfi við Sjúkraliðafélag Íslands.

Spurt er um möguleika á að ófaglærðir afli sér sjúkraliðamenntunar. Það er sjálfsagt að stuðla að því alveg eins og það er sjálfsagt að auka möguleika sjúkraliðanna sjálfra á framhaldsmenntun eins og ég vék að áðan.

Skortur er á fagmenntuðu starfsfólki og verður það í framtíðinni vegna aldurssamsetningar starfsstéttanna. Bæði vegna þess og örra breytinga í heilbrigðisþjónustunni er afar brýnt að endurskoða reglulega starfssvið og verksvið heilbrigðisstéttanna. Það er alveg ljóst að eins og hjúkrunarfræðingar geta sinnt sumu af því sem læknar gerðu áður geta sjúkraliðar sinnt ýmsu af því sem hjúkrunarfræðingar gerðu og félagsliðar því sem sjúkraliðarnir gerðu.

Á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er t.d. hafinn undirbúningur að því að útfæra hugmyndir um hvernig endurskilgreina mætti störf sjúkraliða. Markmiðið er að nýta betur menntun og starfsreglur þeirra. Þetta er gert í samvinnu við forustukonur sjúkraliða. Landspítalinn hefur reyndar þegar gert breytingar á starfssviði sjúkraliða á öldrunar- og geðsviði sjúkrahússins.

Virðulegi forseti. Vegna síðustu spurningar hv. 3. þm. Suðurl. vil ég segja þetta: Gert er ráð fyrir því í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem samþykkt var á Alþingi í vor, og breið samstaða skapaðist um, að huga sérstaklega að mannaflaspám og mati á mannaflaþörf í heilbrigðisþjónustunni á næstu árum. Eitt af markmiðum áætlunarinnar er að árlega verði spáð fyrir um mannaflaþörf heilbrigðisþjónustunnar til næstu 5--10 ára. Undirbúningur að þessu er að hefjast.

Víst er að þær tilraunir sem gerðar voru á 9. áratug 20. aldar á vegum stjórnvalda til að spá fyrir um þörf fyrir heilbrigðisstarfsmenn til lengri tíma hafa ekki reynst raunhæfar. Það er eðlilegt að frá þeim tíma hafi orðið meiri og örari breytingar á heilbrigðisþjónustunni en nokkru sinni fyrr.

Ljóst er að gerð langtímaspár um mótun aðferða til að meta þörf fyrir heilbrigðisstarfsmenn til lengri tíma er ákaflega flókið og vandasamt verkefni.

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. hefur kosið að leggja fyrir mig nokkrar spurningar sem hver fyrir sig gæti verið efni í utandagskrárumræðu. Það sem brýnast er nú og snertir sjúklinga, sjúkraliða og alla heilbrigðisþjónustuna í landinu er að menn reyni að ná kjarasamningum við þá stétt og ég vona svo sannarlega að það takist á næstu dögum.