Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:16:15 (1781)

2001-11-20 14:16:15# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Forusta Sjúkraliðafélagsins kom á fund hv. heilbr.- og trn. í síðustu viku og á þeim fundi var nefndinni gerð grein fyrir niðurstöðu könnunar hagfræðideildar BSRB á samanburði á kjörum sjúkraliða og annarra sambærilegra stétta opinberra starfsmanna. Sú könnun sýndi að það hallaði á sjúkraliðastéttina í launaþróuninni. Forsvarsmenn félagsins gerðu nefndinni einnig grein fyrir alvarlegum skorti á sjúkraliðum til starfa við heilbrigðisstofnanir, háum meðalaldri stéttarinnar og fækkun í sjúkraliðastétt. Ljóst er af þeim upplýsingum að geysilegur skortur er nú þegar á sjúkraliðum til starfa í heilbrigðisþjónustunni en fullnægjandi mönnun er ein meginforsenda góðrar heilbrigðisþjónustu og einn mikilvægasti þátturinn í að ná markmiðum heilbrigðisáætlunar. Sjúkraliðar, sem er ein þeirra stétta sem ber uppi heilbrigðiskerfið, gegna að auki lykilhlutverki í umönnun aldraðra og annarra langveikra sem þurfa á umönnun að halda.

Herra forseti. Samkvæmt áætlunum um mannfjöldaþróun og spám mun þeim a.m.k. ekki fækka á næstu árum sem þurfa á hjúkrun og umönnun að halda með hækkandi aldri þjóðarinnar en mannaflaspár sjúkraliða á hinn bóginn sýna að til að halda í horfinu þarf a.m.k. að mennta um 300 einstaklinga með sjúkraliðaréttindi strax og síðan um 100 sjúkraliða á ári. Ef ekki verður brugðist við þeim fyrirsjáanlega skorti á sjúkraliðum mun það enn frekar koma niður á framkvæmd heilbrigðisþjónustu og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.

Því er það nauðsynlegt að leitað verði allra færra leiða til að fjölga þeim sem sækja í sjúkraliðanám, m.a. með því að sérsníða sjúkraliðanám að þörfum þeirra ófaglærðu sem starfa við aðhlynningu, jafnframt að gefa sjúkraliðum aukna möguleika á viðbótarnámi en auk þess þarf að huga að bættri starfsaðstöðu stéttarinnar og ímynd hennar, en fyrir ímyndina vitum við öll að launakjörin skipta ekki minnstu máli.