Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:18:31 (1782)

2001-11-20 14:18:31# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. málshefjanda þessarar umræðu fyrir þær upplýsingar sem komu fram í máli hennar en þær draga sannarlega upp dökka mynd af ástandinu varðandi mönnun í heilbrigðiskerfinu. Á annað þúsund sjúkraliða vantar til starfa í heilbrigðisþjónustunni svo heitið geti að stöður ætlaðar þeim séu fullmannaðar.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz, formaður heilbrn., hefur áhyggjur af því eins og heilbrrh. að ekki sé nóg að segja: Við þurfum að fjölga um svo og svo marga sjúkraliða á ári, heldur þarf að vekja áhuga fólks á að fara í þetta starf, að leita sér þessarar menntunar því að hér er um gífurlega erfitt starf að ræða. Fólk hefur starfað við óviðunandi aðstæður inni á stofnununum, álagið hefur verið gífurlegt og umbunin sáralítil. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið. Það er alvarleg staðreynd að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skuli svíkja eigin markmið í jafnréttismálum á þann hátt sem verið er að gera og liggur hér á borðinu, stendur svart á hvítu í öllu því sem skrifað hefur verið um launamál sjúkraliða að undanförnu. Það er gífurlega alvarlegt að ríkisstjórnin skuli ekki finna sér þau tæki eða þau meðul sem þarf til að leiðrétta kjör þeirrar stéttar sem allir virðast viðurkenna að búi við mjög bágt ástand inni á stofnunum sínum.

Hæstv. heilbrrh. sér bara kynningarátak til að gera það aðlaðandi að hefja nám sem sjúkraliðar. Ég fullyrði, herra forseti: Það nægir ekki. En það er góðra gjalda vert að hæstv. heilbrrh. skuli hafa samstarf við Sjúkraliðafélagið í þessum málum og ég skora á hæstv. heilbrrh. að opna nú eyru sín, hug sinn og hjarta fyrir þeim kröfum sem sjúkraliðar hafa verið að bera á borð fyrir hann.