Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:20:38 (1783)

2001-11-20 14:20:38# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Forustumenn sjúkraliða hafa um nokkurt skeið lýst áhyggjum sínum af stöðu stéttarinnar. Áhyggjuefnin snúa annars vegar að brottfalli úr stéttinni og lítilli nýliðun og hins vegar að því sem þeir telja vannýtingu á starfskröftum þeirra á heilbrigðisstofnunum. Starf sjúkraliða er fjölbreytilegt og skemmtilegt jafnframt því að vera krefjandi og gefandi. Aðhlynningar- og hjúkrunarstéttir eru í nánum samskiptum við sjúklinga og hafa með störfum sínum áhrif á heilsu, batahorfur og vellíðan þeirra. Það felast í því forréttindi að geta lokið vinnudegi í fullvissu um að hafa skipt sköpum í lífi sjúklinga og er vert að halda því á lofti.

Á undanförnum mánuðum hefur Sjúkraliðafélagið og hjúkrunarstjórnendur á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi unnið að gerð stofnanasamnings sem mun leiða til aukinna tækifæra til starfsþróunar með nýjum og breyttum starfslýsingum. Sjúkraliðar munu takast á við aukna ábyrgð með sérhæfðari verkefnum þar sem menntun þeirra verður nýtt til hins ýtrasta. Ófaglærðir starfsmenn verða ráðnir til að taka við störfum sem ekki krefjast fagþekkingar og hefur þegar verið auglýst eftir fólki til slíkra starfa. Markmið skipulagsbreytinganna er betri nýting starfsfólks og aukin starfsánægja sjúkraliða. Líklegt er að hugmyndir um breytt starfssvið sjúkraliða verði notaðar sem fyrirmynd í stofnanasamningum á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Vonir standa til þess að lokið verði við gerð nýs kjarasamnings við sjúkraliða á næstu dögum. Af fréttum að ráða munu þessir samningar færa stéttinni verulegar kjarabætur. Þess er vænst að sjúkraliðastarfið sjálft, breyttur starfsvettvangur og bætt kjör stéttarinnar laði fleiri sjúkraliða til starfa og fleiri nemendur í sjúkraliðanám. Til þess þarf þó að vekja athygli á jákvæðum þáttum starfsins og möguleikum til starfsþróunar og bættra launa.