Staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:27:27 (1786)

2001-11-20 14:27:27# 127. lþ. 32.94 fundur 150#B staða sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir málefnalegar umræður um þetta mál. En ég vil taka fram að auðvitað er það númer eitt að ná kjarasamningum við sjúkraliða, það er verkefni númer eitt og önnur mál hanga vissulega á því.

Ég vil hvetja hv. þm. til að spara sér yfirlýsingar um svikin loforð í jafnréttismálum eða umræður um illvilja stjórnvalda þangað til í ljós kemur hvaða innstæða er fyrir þeim yfirlýsingum.

En ég fullyrði að það er ríkjandi skoðun í heilbrrn. að mikilvægi sjúkraliða sé afar mikið í heilbrigðisþjónustunni og ég er eindregið þeirrar skoðunar, ég hef aldrei dregið fjöður yfir það, að skilgreina þarf starfsumhverfi sjúkraliða, bæta það og skilgreina réttindi þeirra. Það eru verkefni sem hljóta að vera ofarlega á blaði hjá okkur og þau eru í vinnslu. Ég vil hafa sem best samstarf við Sjúkraliðafélagið um þau efni, að sjálfsögðu, vegna þess hve mikilvæg þau eru.

Varðandi menntunarmálin, sem ég tel vera undirstöðu fyrir betri tímum hvað þetta varðar, þá vil ég benda á góða samvinnu ráðuneytisins og Sjúkraliðafélags Íslands um þau mál. Skipuð var nefnd sem skilaði áliti í janúar sl. um að stofnað yrði til tveggja anna viðbótarnáms fyrir sjúkraliða og í fyrstu verði lögð sérstök áhersla á öldrunarhjúkrun. Námskráin liggur fyrir núna og gert er ráð fyrir að það nám hefjist á næsta ári. Landspítalinn -- háskólasjúkrahús mun sérstaklega leggja áherslu á að vekja athygli sjúkraliða á námskeiðum sem nýtast þeim til símenntunar.

Þannig verðum við að vinna en umfram allt verðum við að ná samningum sem fyrst og við verðum að vinna að starfsumhverfinu í samvinnu við Sjúkraliðafélagið sem og önnur félög sem starfa á heilbrigðissviði.