Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:33:32 (1788)

2001-11-20 14:33:32# 127. lþ. 32.2 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur flutt hér frv. til laga um breytingu á lögum sem við samþykktum á síðasta þingi, lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Í stuttu máli er þetta frv. um það að hækka svokallaðan rútubílaskatt úr 3.000 kr. í 10.000 kr. árlegt gjald og er hér sagt að vegna misritunar hafi fólksflutningabílar fallið undir þennan lið.

Herra forseti. Ég sit í og sat í hv. samgn. í fyrra þegar þetta var rætt og ég held að þarna hafi ekki verið um neina misritun að ræða. Ég held hreint út sagt að menn hafi séð það, jafnt stjórnarsinnar sem stjórnarandstæðingar --- enda gagnrýndum við þetta gjald mjög, þessa gjaldheimtu af samgöngukerfinu. Ég kem kannski að því síðar --- hvort heldur um er að ræða rútubíla, vörubíla eða leigubíla, hvað þessir skattar allir munu gefa í heildarskatttekjur til Vegagerðarinnar til þess að standa straum af kostnaði sem talið er að Vegagerðin verði fyrir út af þessari umsýslu. Ég kem að því síðar.

Í brtt. meiri hluta samgn., allra stjórnarsinna og reyndar líka hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem er á þessari brtt., er gerð brtt. við 13. gr. og þar stendur m.a., með leyfi forseta:

,,1. Fyrir almennt rekstrarleyfi til að stunda fólks-, vöru- og efnisflutninga skal greiða 3.000 kr. árlegt gjald. Enn fremur skal árlega greiða 1.000 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar.``

Nú kann að vera að ekki hafi verið ætlunin að fólksflutningabílar borguðu þetta 3.000 kr. gjald heldur 10.000 kr. eins og nú er. En ég hygg að frá hendi meiri hluta hv. samgn. hafi þetta ekki verið mistök. Ég held einfaldlega að menn hafi séð að þarna væri verið að ganga allt of langt og þess vegna hafi þetta verið sett þarna inn. Og án þess að ég vilji ræða um fjarstaddan fyrrv. formann samgn. þá held ég að þetta hafi verið ætlun meiri hlutans.

Eins og kemur fram er flutt tillaga um að orðið ,,fólks-`` í 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna falli brott og að 4. tölul. 2. mgr. falli brott, sem er fyrir önnur rekstrarleyfi. Hann er þá óþarfur.

Út af fyrir sig getur verið að þetta sé hugsað þannig að gjaldið standi ekki undir þessu. En ég leyfi mér samt að efast um það. Í þessu frv. segir að þetta gefi 2 millj. kr. meira í tekjur við þessa 7 þús. kr. hækkun og í umsögn með frv. er talið að það nemi 11 millj. kr. á ári sem þessar leyfisveitingar gefa. Það er talað um að menn borgi 10.000 kr. árlegt gjald fyrir þetta rekstrarleyfi þó svo að í annarri grein segi að rekstrarleyfið gildi hins vegar til fimm ára. Það er spurning hvort ekki sé þarna einhver orðalagsvitleysa líka sem menn gætu kannski verið reknir með til baka ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að rukka þessar 10.000 kr. árlega.

Enn fremur er hér talað um að greiða 1.000 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar. Þetta eru kannski smáatriði, herra forseti. En nýir rútubílar, eftir því sem ég best veit, eru nú ekki færðir til árlegrar skoðunar. Ég held að þeir sleppi fyrstu árin eða vona það alla vega. Ég bið hæstv. samgrh. að leiðrétta það ef svo er ekki. Þetta er eingöngu sagt til þess að menn verði ekki reknir til baka einu sinni enn með það sem við erum hér að gera.

Herra forseti. Ég sagði það áðan að það er spurning hvað þessir skattar af samgöngutækjunum, leigubílunum, rútubílunum, vöruflutningabílunum og flutningabílunum gefa. Þetta fer að nálgast að mínu mati 30--35 milljónir, mundi ég halda, þ.e. leigubílarnir og þessi tæki sem við erum hér að fjalla um og fjölluðum um í fyrra. Að mínu mati fer að vera dálítið vel í lagt miðað við þann kostnað og umsýslu sem þarna er og sem ofanálag á ýmsa aðra skatta sem þarna eru greiddir. Það er ljóst að allir þessir skattar fara beint út í verðlagið, alveg eins og 45% hækkun á þungaskatti frá árinu 1998 hefur farið þráðbeint út í verðlagið og stórhækkað flutningsgjöld til þeirra sem flytja vörur milli landshluta.

Það er nú einu sinni þannig að uppskipunarhöfn er að verða stærst á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík eða Hafnarfirði. Síðan eru þessar vörur til atvinnusköpunar, skulum við segja, keyrðar út á land, unnið úr þeim og þær svo kannski keyrðar að hluta til hingað á höfuðborgarsvæðið, aðalmarkaðssvæðið. Við sjáum því hvernig þessi gjöld leggjast ofan á og íþyngja þessum rekstri öllum.

Það eru staðreyndir, herra forseti, sem hafa komið fram og hafa ekki verið dregnar í efa, að þungskattshækkunin, þ.e. ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið tvívegis frá 1998 hafa hækkað þungaskatt á lengstu leiðum á flutningabíl með vagn um 45%. Þetta segi ég bara um þær álögur sem þarna er verið að koma á og ég hef nefnt það hér áður að ef allir þessir skattar fara að nálgast milli 30 og 40 milljónir, kannski 33--35 millj. eða hvað það verður, þá skiptir það ekki svo miklu máli.

Ég vildi þó aðeins nefna í lokin leigubílafrv. sem hér var flutt nýlega og þær 13.000 kr. sem þar á að innheimta árlega fyrir umsýslu Vegagerðarinnar varðandi leigubíla. Nú hefur komið fram t.d. sem menn gerðu sér kannski ekki grein fyrir en er í takt við breytingar og nýja tíma, þ.e. tölvur og tölvumæla, gjaldskrármæla sem eru í leigubílum í dag --- þetta eru leigð tæki --- að leigubílstjórar greiða 2.000--2.500 kr. í virðisauka á mánuði sem gerir á milli 24--30 þús. kr. á ári á hvern bíl. Það gerir miðað við 500 leyfi, jafnvel 600 leyfi, á bilinu 15--20 milljónir á ári bara í virðisaukaskatt sem leigubílar greiða til ríkissjóðs vegna þess að þeir leigja þessi tæki, nútímatæki sem við teljum nauðsynleg og sjálfsögð, í staðinn fyrir gömlu mælana sem voru einhvern veginn trekktir upp hér áður fyrr og ábyggilega keyptir bara einu sinni mjög ódýrir en báru ekki leigugjöld mánaðarlega eins og núna. Þetta vildi ég bara nefna við umræðuna.

Herra forseti. Þetta er ekki stórt og mikið frv. sem þarf að eyða miklum tíma í að ræða við 1. umr. á hinu háa Alþingi. Frv. kemur til samgn. og munum við skoða það þar. En ég vil leyfa mér að efast um að þarna hafi verið um nokkra misritun að ræða. Ég held einfaldlega að meiri hluti hv. samgn. í fyrra með hv. fyrrv. þm. Árna Johnsen, formann samgn., í broddi fylkingar hafi einfaldlega viljað lækka gjald af rútubílarekstri úr þeim 10.000 kr. sem þarna voru og að fólksbílunum hafi verið laumað þarna inn.

Ég ætla svo bara rétt að minna á nál. minnihlutamanna í samgn. frá því í fyrra, okkar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og þess sem hér stendur.

Herra forseti. Frv. snýst um það að hækka þetta gjald úr 3.000 kr. sem það er núna, hvort sem það er til komið vegna misritunar eða viljandi, í 10.000 kr. árlegt gjald. En ég spyr hæstv. samgrh. eingöngu um þetta, þ.e. hvort e.t.v. þurfi ekki enn einu sinni að breyta orðalagi í þessari grein vegna þess að í 4. gr. laganna er talað um rekstrarleyfi sem gefið er út til fimm ára en síðan ætlum við að rukka 10.000 kr. árlegt gjald, ef það er svoleiðis, og vonandi er að þetta dugi frá lögfræðilegum sjónarhóli eins og það stendur þarna. Og enn fremur vil ég spyrja hvort rútubílar séu --- ég bara er ekki nógu klár á því --- færðir árlega til skoðunar og þá borgað þetta lága gjald sem er 1.000 kr.