Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 14:44:15 (1789)

2001-11-20 14:44:15# 127. lþ. 32.2 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það sem ég vil vekja athygli á í umræðunni um þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, er að þarna er hreinlega verið að gera lagabreytingu til þess að innheimta aukin gjöld, til að hækka gjaldheimtu á þeim sem stunda flutninga á fólki.

Afgreiðsla laganna í fyrra var með þeim hætti, eins og hv. þm. Kristján L. Möller hefur rakið, að gert var ráð fyrir því að þessar bifreiðar þyrftu að greiða 3.000 kr. fyrir rekstrarleyfið. Hér er einfaldlega verið að hækka það upp í 10.000 kr. Ég held að það sé miklu heiðarlegra bara að segja það hreint út að þetta sé þannig.

[14:45]

Varðandi það hvernig menn reikna út kostnaðinn af þessu, hvort útreikningurinn byggi á vandaðri kostnaðaráætlun, þessi aukna gjaldtaka sem þarna er úr 3.000 kr. í 10.000 kr., þá held ég að draga megi í efa að hún byggi á einhverjum varanlegum grunni. Þetta er algjörlega nýtt og ekki vitað hvernig þessi kostnaður kemur til með að virka.

Í öðru lagi, herra forseti, væri forvitnilegt að vita hvernig með yrði farið ef meiri tekjur innheimtust til þessa verkefnis en það kostar. Samkvæmt lögum ætti væntanlega að skila slíkum tekjum inn í ríkissjóð. En varðandi þetta allt þá er þarna bara um aukna skattheimtu að ræða sem verið er að leggja þarna til og ekkert annað.

Það sem ég vil í öðru lagi gera að umtalsefni er staða skólabifreiða í þessari lagaumgjörð um fólksflutninga á landi. Mjög margir skólabílar eru ætlaðir fyrir færri farþega en níu manns, en lögin taka fyrst og fremst til bifreiða sem eru fyrir níu manns eða fleiri. En allmargir skólabílanna eru hins vegar minni. Mig minnir að það hafi verið þannig þegar ég hafði með þessa stjórnsýslu á skólaakstri að gera, að þá hafi skólaakstur fallið undir grunnskólalög. Búnaður skólabifreiða og leyfi til að fara með skólabifreiðir var þáttur í grunnskólalögum á sínum tíma. Ég veit ekki hvort svo er enn. Ég hef ekki kynnt mér það en alla vega eru það skólanefndir sem fjalla um tillögur um ráðningar til skólaaksturs.

Ég vildi nefna þetta því að hvorki þessi lög sem hér er um að ræða, lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, né lög um leigubifreiðir eða leiguakstur taka til skólabifreiða.

Hins vegar hafa komið upp atvik þar sem þessum lögum er með einum eða öðrum hætti beitt í tengslum við við skólabifreiðirnar, hvort sem það er með réttu eða röngu. Ég þekki dæmi þess að skólabifreið hafi verið stöðvuð af vegaeftirlitsmanni ásamt vegalögreglu við dyr skólans. Skólabílstjórinn hafði verið í akstri árum saman samkvæmt þeim samningum sem gilt höfðu. Þessir eftirlitsmenn meinuðu viðkomandi skólabílstjóra að aka börnunum heim vegna þess að hann hefði ekki þetta tilskilda rekstrarleyfi. Þá urðu foreldrar að sækja börnin sín sjálf í skólann, svo strangt var að kveðið í aðgerðum þessara eftirlitsmanna.

Úr þessu máli var síðan leyst, eftir nokkurt japl og jaml og fuður. Það var leyst með því að finna millileið um að viðkomandi skólabílstjóri útvegaði sér rekstrarleyfi. Ég hef líka upplýsingar um það að skólanefndum hafi verið send bréf þar sem minnst hafi verið á að þessi rekstrarleyfi þyrfti en lagastoð fyrir því er ekki beinlínis fyrir hendi.

Ég geri ekki lítið úr nauðsyn þess að þeir sem aka skólabifreiðum fari eftir skilgreindum kröfum og til þess geti þurft ákveðin leyfi. En jafnframt væri ástæða til að skoða hvort þörf sé á að fella þau leyfi og rekstur þessara bifreiða að þeim lögum sem hér eru til umræðu, en kanna áður hvort ákvæðið um þennan akstur sé enn að finna í grunnskólalögunum. Það er afar slæmt þegar upp koma mál líkt og ég lýsti áðan vegna deilna um skólaakstur. Herra forseti, ég vildi benda á þetta.

Verði gerðar þær breytingar á þessum lögum að skólaakstur falli undir þessi ákvæði lendir það væntanlega á þeim akstri líka að greiða þessar 10.000 kr. í skatt til ríkisins fyrir rekstrarleyfi, sem í litlum akstri, t.d. skólaakstri, getur verið verulega íþyngjandi.

Herra forseti. Að mínu viti er ekki rétt að skattleggja atvinnugreinar með þeim hætti sem hér er lagt til, að láta þær greiða svo háar upphæðir fyrir rekstrarleyfi. Í öðru lagi er ástæða til þess að skoða stöðu óreglulegs flutnings á fólki, svo sem akstur skólabíla, í lögum um fólksflutninga og í lögum um grunnskóla. Gæta þarf þess að ef slíkur akstur verði hugsanlega felldur undir þessi lög þá verði honum ekki íþyngt með skattheimtu í formi leyfisveitinga.

Þetta frv. kemur svo til samgn., herra forseti, þar sem ég á sæti og mér gefst tækifæri til að fjalla nánar um frv. þar.