Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Þriðjudaginn 20. nóvember 2001, kl. 15:12:48 (1796)

2001-11-20 15:12:48# 127. lþ. 32.2 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því til hvers þessi gjaldtaka er. Henni er ætlað að standa straum af kostnaði sem hlýst af námskeiðahaldi, útgáfu leyfa og eftirliti samkvæmt lögum. Hið sama á líka við um frv. um leigubifreiðar. Þar á Vegagerðin að fara að standa í einhverju stórvirku námskeiðahaldi án þess að það sé nánar skilgreint.

Mér finnst, herra forseti, að verið sé að fara þarna út á mjög fljótandi og óskilgreint svið. Síðan á hún að annast eftirlit samkvæmt lögunum, en við erum líka með bifreiðaeftirlit og annars konar eftirlit þannig að þarna er hætta á að hver fari að elta annan í þessu eftirliti og ,,ræflarnir`` sem stunda atvinnuna verða bara að borga og borga við hvert hlið.

Það sem ég ætlaði aðallega að ítreka aftur, herra forseti, er staða þeirra skólabifreiða sem taka færri en níu farþega. Mér er kunnugt um að á grundvelli þeirra laga sem nú gilda hafi þær verið stöðvaðar og heimtað rekstrarleyfi af þeim. En síðan þegar kom til viðkomandi sýslumanns, þá gat hann hvergi fundið lagastoð fyrir því, enda er ekki minnst á þær gerðir bíla eða slíka flutninga í lögunum. Ég vil vekja athygli á þessu. Ég tel ástæðu til að nefndin skoði stöðu skólabílanna, skólaakstursins, og á meðan sé gætt hófs í því að stöðva bíla sem hafa sinnt skólaakstri og hafa starfað samkvæmt þeim reglum sem hafa gilt um þá til þessa. Á meðan sé gætt hófs í því að stöðva þá úti á miðjum vegi fulla af skólabörnum og skipa börnum að fara út og láta síðan sækja þau þangað.